16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

28. mál, fátækralög

Magnús Jónsson:

Hv. 1. þm. N.-M. talar enn um það ranglæti, að fólk, sem flytur úr hjeruðum, sem hafa lítil atvinnuskilyrði og yfir í önnur, sem eru í meiri blóma, skuli vera flutt þangað aftur þegar það er ekki lengur fært um að sjá fyrir sjer sjálft. Vildi hann gefa í skyn, að hinn mikli kostnaður við fátækraframfæri í Gullbringu- og Kjósarsýslu væri að miklu leyti Reykjavík að kenna, hún togaði svo fast í fólkið þaðan, og sendi það svo aftur heim, þegar það væri komið á vonarvöl. Jeg fyrir mitt leyti býst nú samt við, að annað yrði uppi á teningnum, ef málið væri rannsakað gaumgæfilega ofan í kjölinn. Þá efast jeg stórlega um, að útkoman yrði sú sama. Geri jeg ekki ráð fyrir, að sveitinni sje mjög íþyngt af ómögum, sem sendir eru heim aftur. Mótspyrnan er svo mikil gegn slíkum flutningum á alla vegu, og menn, sem þannig er ástatt með, vilja alment ekki fara. Ber þeirra sveit auðvitað talsverðan kostnað þess vegna. Á móti þessu má svo taka það, hve mörgum það ljettir af sýslunni, að menn þaðan mega koma til Reykjavíkur og annara hjeraða, sem standa í meiri blóma en heimasýslan sjálf, og leita sjer þar atvinnu. Býst jeg við, að þeir sjeu ekki svo fáir, sem komist hafa vel áfram hjer í Reykjavík og víðar, en hefðu ella orðið bjargþrota heima í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Kringum 1880 fór mikill fjöldi fólks til Ameríku, og talsvert af því fólki hefði annars orðið sveitunum til mikilla þyngsla. Nú taka bæirnir við þessu fólki, og er það eflaust hagnaður, að straumurinn skuli stöðvast í landinu sjálfu. Það er að vísu ekki hægt að sýna með tölum, hversu miklu þetta ljettir af sveitunum, en það er áreiðanlega mjög mikið. Gullbringu- og Kjósarsýsla var afar blómlegt hjerað hjer á árunum, á meðan bátaútvegurinn þar var í blóma. Svo á aflaleysisárunum fór útvegurinn í hundana, og þá fór alt í rústir. Geri jeg fastlega ráð fyrir því, að síðan Reykjavík fór að vaxa, hafi hún gert miklu fremur að ljetta af en auka vandræðin. Að vísu er ómögulegt að koma tölum á það, hvernig þetta kemur hagfræðilega út á milli hjeraðanna, en jeg tel eflaust, að hagnaðurinn sje Gullbringu- og Kjósarsýslu megin.

Eitt af því, sem talið er frv. þessu til gildis er það, að með því sje algerlega komið í veg fyrir fátækraflutninga, en þó má telja mjög óvíst, að svo verði í reyndinni. Ef svo væri, þá munu þau hjeruð, sem minst eftirlit hafa með fólki, verða harðast úti, en það eru einmitt Reykjavík og kaupstaðirnir. Gæti jeg trúað, að klókindi sveitastjórnanna nytu sín fyrst til fulls, þegar búið er að samþykkja þetta frv. og ryðja þannig burtu sveitfestitímanum. Þá geta þær sjeð um, að öllum fátækum fjölskyldum væri komið burt, t. d. til Reykjavíkur, en haldið eingöngu eftir röskum og duglegum mönnum í góðum kringumstæðum. Mundu þannig hefjast nýir fátækraflutningar, og þeir síst fallegri en þeir gömlu.

En ef þetta er ekki meiningin, þá get jeg ekki skilið annað, en að komið gæti fyrir með þessu nýja skipulagi, að margir fátæklingar ættu heima í einum hreppi, en svo fáir í þeim næsta, alveg eins og nú. Hvernig á að koma í veg fyrir það? Hvað fátækraflutningnum viðvíkur, þá getur vel verið að hann minki, þessi opinberi fátækraflutningur, sem maður veit mest um, en jeg tel eins víst, að þá aukist að sama skapi hin tegund hans, sem maður veit minna um. Þær voru víst hálfgerður fátækraflutningur, sumar Ameríkuferðirnar í gamla daga, þótt lítið bæri á. Það var víst ekki svo sjaldan aurað saman, til þess að koma mönnum til Ameríku, svo að þeir yrðu ekki til þyngsla hjer heima. Ætli þessar klóku sveitarstjórnir mundu ekki reyna að skussa mönnum yfir í næstu kauptún, ef þær hjeldu, að þeir væru að komast á vonarvöl?

Jeg skal nú ekki orðlengja frekar um þetta, en vil aðeins geta þess, að jeg varð hissa á, hvernig hv. allshn. skiftist um þetta frv. Hefði mjer þótt eðlilegra, að hv. 2. þm. Reykv. hefði verið einn með því, en hinir allir á móti. Jeg gæti alls ekki láð honum, þótt hann væri með þessu frv., sem fer fram á að grafa grundvöllinn undan því skipulagi, sem nú er á fátækramálunum, og býr í haginn fyrir þá sem vilja gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Er það einmitt stefna hans og flokksbræðra hans.

Undir gamla skipulaginu er hver hreppur nokkurskonar vátryggingarfjelag. Þegar menn eru búnir að greiða iðgjald sitt þar í 10 ár, hafa þeir unnið sjer þar sveitfesti, þ. e. ellistyrk. En af þessu leiðir, að hver maður verður að hafa goldið iðgjöld í vissan tíma, þ. e. unnið sjer sveit. Væri þetta nú úr gildi numið, þá væri þar með búið að sópa burtu öllum skynsamlegum ástæðum fyrir því, hvers vegna þessi hreppur ætti að framfæra manninn fremur en einhver annar. Með því að halda skiftingunni, en afnema sveitfestitímann, er verið að samþykkja, að einn skuli fá iðgjöldin en annar borga trygginguna. Er jeg á móti þessari breytingu, því að jeg fæ ekki betur sjeð, en að hún leiði til þess, að gera verði alt landið að einu framfærsluhjeraði, og það vilja ekki aðrir en jafnaðarmenn og þeir, sem algerlega falla þeim í fang.