16.03.1929
Neðri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

28. mál, fátækralög

Einar Jónsson:

Jeg hefi tekið eftir því undanfarna daga, þegar löngun til mikilla málalenginga hefir gripið hv. þdm., að flestir stólar deildarinnar hafa verið auðir, og hefir ræðumaðurinn því orðið að sætta sig við það, að tala yfir þeim í stað áheyrenda. Í þetta skifti verður það því mitt hlutskifti að ræða við tóma stólana.

Það sem hjer er deilt um er það, hvort rjett sje að stytta sveitfestitímann úr þeim fjórum árum, sem hann er nú, ofan í tvö ár eða jafnvel eitt. Jeg sem hreppsnefndaroddviti í minni sveit skal lýsa yfir því fyrir mitt leyti, að jeg get fúslega gengið inn á að stytta hann úr því, sem hann er nú, þótt jeg hinsvegar telji ekki rjettlátt að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði.

Þó sannanlegt sje með tölum, að mismunur á framfærslu þurfamanna sje mjög mikill í hinum ýmsu hjeruðum, verður að taka honum eins og hverjum öðrum mismun á afkomu manna vegna staðhátta og aðstöðumunar.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er sveitfestitími sá, sem er í núgildandi lögum, styttur úr tíu árum ofan í fjögur ár, og nú á að fara að stytta hann enn þá meir, jafnvel ofan í eitt eða tvö ár, og get jeg vel gengið inn á þá styttingu, en lengra vil jeg ekki fara. Get jeg því ekki gengið inn á það, að láta dvalarsveitina vera jafnframt framfærslusveit. og er það frekar vegna umhyggju fyrir almenningi en mínu sveitarfjelagi einu út af fyrir sig, því að af slíkri breytingu myndu kaupstaðirnir fá að súpa beiskt seyði, þar sem fólkið streymir þangað, og þó að mörgum farnist þar vel, eru þeir þó margir, sem farnast miður.

Það var öldungis rjett hjá hv. 2. þm. Rang., að sveitirnar sakna unga fólksins, sem flýr til kaupstaðanna, og þær eru margar mæðurnar, sem sakna sárt dætra sinna, sem fara í kaupstaðina til þess að sópa þar gólf í fallegum stofum, fá frí til þess að fara á „Bíó“ o. s. frv., í stað þess að vera heima og vinna að nytsamlegum störfum, þó að það taki vitanlega út yfir alt, þegar þær koma þeim nær ósjálfbjarga og vinum horfnar, eins og oft á sjer stað.

Sumir hv. þm. hafa verið að hnýta að útsvarslögunum í þessu sambandi, en það virðist mjer alls ekki sanngjarnt, því að í þeim eru mörg ákvæði í mannúðaráttina, eins og t. d. það, að styrkur til fátæks fólks, sem komið er yfir 60 ára aldur, skuli ekki teljast sveitarstyrkur.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala lengra mál yfir þessum tómu stólum, en vil til frekari áherslu endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að jeg er hlyntur styttingu sveitfestitímans, en get þó ekki gengið svo langt, að gera dvalarsveit að framfærslusveit.