20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

45. mál, einkasími í sveitum

Jón Jónsson:

Jeg ætla aðeins að geta þess, út af því, sem hv. frsm. n. sagði viðvíkjandi fyrri brtt., að það má kannske mæla margt með því, að landssímastjóri segi um, hvort heppilegt sje að fjölga á línunni eða ekki, en hann getur engu ráðið um það, hvort fjölgað er eða ekki. Þar ættu einstaklingarnir undir högg að sækja hjá fjelaginu, en ef farið er eftir frv. okkar, þá ættu þeir rjett á að fá síma, og fjelagið ætti þess vegna, ef ofhlaðið væri á línuna, að sjá sinn hag í að fjölga línum, en annars er hætta á, að fjelagið trássist við að fjölga línum, af því að meiri hl. þess hafi þegar aðgang, en rjettur einstakra mann verði fyrir borð borinn.

Hvað hinu viðvíkur, þá er um það að segja, að það er ekki víst, að þessir einkasímar verði alstaðar í sambandi við 3. fl. stöðvar. Það má sjálfsagt búast við, að það verði svona upp og niður, verði það sumstaðar, og mjer þætti það mikil bót, ef háttv. nefnd hefði viljað samþ. það, jafnframt og gjaldið væri hækkað, að þá væri landssíminn skyldur til að afgreiða þessar einkalínur svo lengi sem afgreiðslutími 2. fl. stöðvar er, því þá eru rjettindi þessara lína aukin.