25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

29. mál, alþýðufræðsla á Ísafirði

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla ekki að þessu sinni að víkja nema stuttlega að þessu frv. Jeg játa með hv. flm., að skólinn á Ísafirði er minna styrktur af landsfje heldur en aðrir samskonar skólar. Jeg hefi látið gera yfirlit yfir það, eins og jeg mintist á, þegar jeg talaði um hjeraðsskólana, hvað skólar landsins kostuðu yfirleitt, og Ísafjarðarskólinn er af öllum sambærilegum skólum langódýrastur fyrir landið. Kvennaskólinn fær þrefalt meira, og sumir meira en það.

En þótt jeg játi þetta með hv. flm., þá er jeg ekki alveg viss um, að þetta mál sje eins einfalt eins og fyrir honum vakir. Því er nefnilega þannig varið um ungmennaskóla í sveit með heimavist, sem við töluðum um á laugardaginn, að um þá er komin miklu lengri reynsla heldur en þá nýju og þó nauðsynlegu ungmennaskóla í kaupstöðum. Aðstaðan er að ýmsu leyti svo ólík, að ekki er vel heppilegt að hafa sömu heildarlög fyrir hvoratveggja. En jeg hefi gert ráð fyrir, að ef frv. um ungmennaskóla, sem við nýlega ræddum, næði fram að ganga í vetur, og kæmist fast skipulag á þá sveitaskóla, sem nú eru til, þá sje næsta sporið að freista þess á þingi 1930 að gera sams konar heildarlög fyrir skóla í kaupstöðum. Og jeg hefi nú þegar að mínu leyti hafið undirbúning í því skyni. Vandinn er þar öllu meiri, — ekki um fjárhagshliðina, því að hún virðist nokkuð ljós, — heldur hvernig þeirri gagnfræðslu eigi að vera nánar fyrir komið, sem sjerstaklega er heppileg fyrir þá, sem ekki fara í aðra skóla á eftir, eins og er um meginþorra af mönnum. Jeg hugsa mjer þá, að þegar gerð verða heildarlög um skóla í kaupstöðum, þá komi alþýðuskólinn nýi í Reykjavík, Flensborg, Ísafjarðarskólinn og neðsta deild skólans á Akureyri undir sömu lög, og væntanlegur skóli Austfjarða í einhverjum af kaupstöðunum þar, og í Vestmannaeyjum.

Þetta eru þær litlu upplýsingar um afstöðu mína til þessa máls nú, að jeg álít ágætt, að þetta komi fram og sje rætt. En jeg er að sjálfsögðu mótfallinn því, að frv. í þessa átt verði samþ. nú í vetur.