25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

29. mál, alþýðufræðsla á Ísafirði

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Mjer þótti gott að heyra hjá hæstv. dómsmrh. að hann hefði í undirbúningi frv. til heildarlaga um alþýðlega skóla í kaupstöðum landsins. Náttúrlega get jeg ekki sagt, hvernig jeg felli mig við það frv., þegar það kemur fram; en það, að hann lýsir yfir þessu, sýnir, að hann hefir hugleitt málið og sjer þörfina og vill reyna að bæta úr henni.

En jeg get síður þakkað hæstv. ráðh. fyrir það, sem hann lagði til þessa frv. Hann taldi gott, að frv. kæmi fram, en á engan hátt nauðsynlegt að samþ. það. Jeg held það bæti lítið fyrir alþýðufræðslu á Ísafirði og Vestanlands, þótt við hjer í hv. deild spjöllum um frv. þetta og mentamálan. líka. Það eitt er til verulegra bóta, að gera ráðstafanir til að koma skóla, svipuðum og hjer um ræðir, á stofn á Ísafirði sem fyrst. Jeg vil því vona, að þótt hæstv. kenslumálaráðherra sjái ekki nauðsyn þess að samþ. þetta frv. nú, þá sjái hv. þdm. betur.

Hv. þm. N.-Ísf. ljet þess getið, skildist mjer, að hann myndi flytja frv. um gagnfræðaskóla á Ísafirði, svipað því, sem jeg bar hjer fram í fyrra og fyrv. þm. Ísaf. á næsta þingi þar áður. Jeg get ekki neitað því, að þetta kom flatt upp á mig. Jeg hafði ekki búist við, að þessi hv. þm. sæi nú, einmitt um leið og fram er borið frv. um það, að koma upp þriggja bekkja alþýðuskóla á Ísafirði, — endilega svo mikla og brýna nauðsyn á að koma þar upp líka gagnfræðaskóla, þ. e. a. s. öðrum skóla, sem kenni nákvæmlega þau sömu fræði og gert er ráð fyrir að skóli sá, sem gert er ráð fyrir í frv. mínu, kenni. — Mjer þykir þessi óheppilegi, liggur mjer við að segja, skólaáhugi hv. þm. ákaflega einkennilegur.

Jeg er heldur ekki viss um það, að ef hugsað er um hjeraðsskóla, sem sjerstaklega kæmi að haldi fyrir Ísafjarðardjúp, og yfirleitt kjördæmi hv. þm. N.-Ísf., að menn óski eftir því sjerstaklega, að skóli sá yrði bygður á Ísafirði. Heyrt hefi jeg raddir um það, að ef Inndjúpið fengi sinn skóla, þá kysu menn að hafa hann á Reykjanesi, þar sem jarðhiti er og skólastaður ágætur. En sá skóli mundi ekki verða til bóta fyrir Ísafjarðarkaupstað.

Að vestanverðu við Ísafjarðarkaupstað er til gamall ungmennaskóli, á Núpi, og jeg geri ráð fyrir, að hann verði ekki lagður niður, þó að lög verði samin um alþýðufræðslu á Ísafirði. Eftir frv., sem jeg flyt, yrðu kendar í skólanum á Ísafirði nákvæmlega sömu fræðigreinar eins og nú eru kendar í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, og námstíminn er hinn sami, þannig að nemendur ættu að bera úr býtum svipaða fræðslu. Próf mundi samsvara því, sem nú er kallað gagnfræðapróf. Jeg get því ekki varist undrun, er þessi hv. þm. lýsir yfir, að hann ætli samtímis að bera fram frv. um annan gagnfræðaskóla við hliðina. Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta nú. Býst við, að frv. okkar beggja, ef hann gerir alvöru af þessu, fari til hv. mentmn., og hún geri sínar till. og athugasemdir í sambandi við þau.