25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

29. mál, alþýðufræðsla á Ísafirði

Jón A. Jónsson:

Hv. flm. undraðist að jeg myndi bera fram frv. það., sem jeg hjer lýsti, um gagnfræðaskóla á Ísafirði. Því að eftir hans áliti er þessi ungmennaskóli, sem hann fer fram á, nákvæmlega það sama og gagnfræðaskóli. En sá mikli munur er á hans frv., að ekki er gert ráð fyrir neinni heimavist í skólanum. Svo að jeg býst ekki við, að þetta mundi á neinn hátt ljetta undir með fátækum ungmennum utan kaupstaðarins. Það er alveg rjett, sem hann tók fram, að margir hefðu hug á því í Norður-Ísafjarðarsýslu að stofna ungmennaskóla á Reykjanesi. Og sennilega munu renna þar undir fleiri stoðir, þegar fram líða stundir. En það er ekki ætlast til, að í slíkum skóla sje stundað sams konar nám og unglingar þurfa til undirbúnings undir hinn almenna mentaskóla. Enda er með frv., sem fram er lagt fyrir hv. deild af hæstv. kenslumálaráðherra, mörkuð afstaða hjeraðsskólanna greinilega.

Jeg held það verði kostnaðarminst og hagfeldast, að gagnfræðaskóli verði stofnaður á Ísafirði, sem ungmenni úr nálægum sýslum og hjeruðum geti sótt þá fræði til, sem þeir þurfa til undirbúnings æðri mentunar. Þá er Ísafjarðarkaupstaður mun betur settur, ef upp kemur fullkominn gagnfræðaskóli með heimavist, eins og jeg mun fara fram á. Þá eru tvær flugur slegnar í einu höggi, styrkt ungmenni úr sýslunni til þess að fá undirbúning undir alment mentanám, og um leið sjeð fyrir góðri ungmennafræðslu á Ísafirði.