05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Haraldur Guðmundsson:

Hv. flm. þessa frv. hóf mál sitt á því, að segja nokkuð frá hinni nýafstöðnu kaupdeilu. Er það að vonum, því að í allra augum er sú deila tilefni þessa frv., er hjer liggur fyrir. Sagði hv. flm., að sú deila hefði verið eingöngu sprottin af ósanngirni beggja aðilja, og að það hafi verið af þeirri sömu orsök, að eigi tókst á skemri tíma að koma samkomulagi á. — Þessi ummæli hv. flm. sýna ljóslega fullkominn misskilning hans á eðli kaupdeilunnar og á vinnudeilum yfirleitt. Rætur hennar standa miklu dýpra. — Það er mannlegt eðli að hugsa fyrst um sinn eigin hag og ota sínum tota svo sem verða má.

Afli sá, er botnvörpuskipin flytja á land, á að skiftast og skiftist aðallega á milli tveggja aðilja, útgerðarmanna annarsvegar og sjómanna og verkamanna í landi hinsvegar.

Báðir vilja fá sem mest af andvirðinu, báðir þykjast eiga til þess rjettmæta kröfu, enda þekkir hver best sína nauðsyn. Á meðan einkaeignarrjettur manna er ótakmarkaður á þessu sviði, er eigi hægt að ráða fullkomna bót á þessu. Því er það, að þessir tveir aðiljar munu halda áfram að heyja baráttu sín á milli um skiftin; annað er óhjákvæmilegt, meðan skipulag atvinnumála þessara og mannlegt eðli helst óbreytt. — Þetta hefir verið vitað og viðurkent síðan stjettaskifting komst fyrst á.

Í baráttu er það svo, að sá aðiljinn, sem sterkari er og betur stendur að vígi, tekur ætíð stærstan hlut. Og í þessari stjettabaráttu, er hjer um ræðir, hefir það verið svo alt til þessa, að sú stjett, er eignarhald hefir á framleiðslutækjunum, hefir ætíð tekið hlutfallsega langstærsta hlutinn. Er það auðsætt. Auðurinn hefir aðeins safnast hjá þeim, er framleiðslutækin áttu; enginn hefir orðið efnaður á því að selja öðrum vinnu sína. Verkalýðurinn sá þetta snemma. Honum varð það ljóst, að ef hann átti að bæta hag sinn og hlutskifti, var eina ráðið að mynda fjelagsskap, svo að einn verkamaðurinn sæti ekki boðið niður vinnu fyrir hinum. Þetta var atvinnurekendum hinn sárasti þyrnir í augum, einkum í byrjun, og kvað þá svo ramt að því, að slík samtök voru jafnvel bönnuð með lögum. En slíkt bann kom að engu haldi. Verkalýðssamtökin mögnuðust, og þau eru nú það vald um allan heim, sem ekki er lengur hægt að ganga fram hjá, þegar samið er um kaup verkalýðsins. Hafa verkalýðsfjelögin nú víðast hvar verið viðurkend sem rjettur samningsaðili. En hjer á nú, jafnframt því sem þessi rjettur þeirra er viðurkendur, með frv. þessu, að taka úr höndum þeirra það vopnið, er þau hafa beitt til þess að fá viðunanlega samninga, verkföllin. En þetta frv., sem hjer er flutt, er ekkert einstakt fyrirbrigði. Slík frv. sem þetta, hafa verið flutt af íhaldi og auðvaldsþjónum í öðrum löndum, og jafnvel stundum orðið að lögum. Fyrirmynd þessa frv. mun vera sótt til Noregs. Eru það lög, er samþykt voru þar árið 1925, gengu í gildi 1. maí, ætla jeg, og hlutu nafnið „Tugthúslögin“. Er það viðurkent, að þau lög brjóti svo mjög í bága við rjettlætistilfinningu þjóðarinnar, að ómögulegt hefir verið að framfylgja þeim, og kvað svo ramt að því, að stjórn sú, er lögin setti, heyktist á að beita þeim, er mest lá við. Þúsundir manna voru sendir til fangelsisvistar fyrir að styrkja verkfallsmenn. Nokkur hundruð þeirra voru settir í „steininn“. Svo gafst stjórnin upp.

Nú er tími þessara laga brátt útrunninn, og mun engum koma til hugar, að þau verði framlengd óbreytt.

Jeg vil ekki segja, að frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, sje verra en norsku „Tugthúslögin“, en það er ennþá vitlausara. Það er svo fráleitt skynsamlegu viti, að það er hverjum manni ósamboðið að láta sjer koma til hugar að samþ. það.

Mjer þykir rjett, út af þeim orðum hv. þm. Borgf., að við jafnaðarmenn höfum rangfært efni frv., að víkja nokkuð að hinum einstöku greinum þess, þótt slíkt sje eigi venja við 1. umr.

Fyrsta gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal dómstól, er nefnist vinnudómur. Hann skal fara með og dæma:

1) mál út af vinnukjörum, þau, er greinir í lögum nr. 55, 17. júlí 1925, eða lögum er í þeirra stað koma.“ — Við þessu er ekkert að segja. Það er algengt að slíkar tilraunir sjeu gerðar. — En svo kemur 2. liður 1. gr.:

„Mál út af rofum á dómum um vinnukjör samkvæmt þessum lögum, eða samningum um vinnukjör af hálfu þeirra aðilja, er í áðurnefndum lögum, nr. 55. 1925, segir, eða lögum, er í þeirra stað koma.“ — Með öðrum orðum, dómstóllinn á að dæma viti fyrir að rjúfa dóma, sem hann sjálfur hefir dæmt.

3) „Mál um lögmæti verkfalls eða verkbanns og um bætur fyrir ólögmætt verkfall eða verkbann.“

Í íslenskum lögum er enginn lagastafur til um það, hvað sjeu ólögmæt verkföll eða verkbönn. Verkefni dómstólsins verður því þetta: Í fyrsta lagi verður hann að búa til lög eða reglur um það, hvaða verkföll og verkbönn sjeu ólögmæt, í öðru lagi á hann að dæma eftir þeim lögum, er hann hefir þannig sjálfur samið, og að lokum á hann að dæma víti fyrir að rjúfa dóma hans sjálfs. — Þetta er nokkuð einkennilegur grautur. Það er auðsætt, að þeir, er frv. þetta hafa samið, hafa farið nokkuð fljótt yfir norsku „Tugthúslögin“. Þeir hafa ekki gætt þess, að í Noregi eru til lög um verkföll, hver sjeu lögleg og hver ólögleg. En hjer er dómstóli þessum ætlað að taka sjer bæði löggjafarvald og dómsvald, og að lokum, ef dómum hans er eigi hlýtt, á hann að ákveða vítin sjálfur. Aðra eins móðgun við löggjafarsamkomu og að flytja frv. þetta á Alþingi þekki jeg ekki.

Þetta er 1. gr., og er hún hvorki verst eða vitlausust af greinum frv.

Þá kemur 2. og 3. gr., og skal jeg ekki gera þær að umtalsefni nú. Þær eru aðeins áframhald byrjunarinnar.

Þá er 4. gr. Hv. flm. eru nú að lyppast niður á henni, þar sem þeir, hver eftir annan, tilkynna að þeir sjeu fúsir til að samþykkja hverjar þær breytingar, sem mönnum þóknist að gera á henni. Er það vafalaust af því, að mennirnir eru farnir að finna til þess, hversu bandvitlaus hún er. Þar er svo ákveðið, að hjeraðsdómari, sem jafnframt er forseti dómsins, á að nefna fjóra menn í dóminn, en aðiljar ryðji svo sínum manninum hvor. Síðan skipar Hæstirjettur tvo menn í dóminn, svo að hann verður ávalt skipaður fimm mönnum. Sýslumaður skipar, eins og áður er sagt, tvo menn í dóminn, auk sjálfs sín. Ræður hann þannig ávalt meiri hl. í dóminum.

Í Noregi, þar sem Tugthúslögin heita ennþá í gildi, datt ekki höfuðsmiðum þeirra neitt slíkt í hug. Þar var það þó æðsta yfirvald ríkisins, sem átti að nefna mennina í dóminn, en ekki hjeraðsyfirvöldin, sem löngum eru tengd eða bundin með ýmsu móti atvinnurekendum þar í sveit. Og víst er um það, að í flestum tilfellum munu þau fyrst og fremst líta á málin með augum yfirstjettarinnar, ef svo mætti segja.

Þá hafa báðir þeir flm., sem talað hafa, haldið því mjög eindregið fram, að það væri útúrsnúningur og rangfærsla að kalla þetta þvingunardómstól. Jeg veit ekki, hvað þessir hv. flm. frv. skilja við þvingun í þessu efni. Það er alveg tvímælalaust fram tekið, að dómsúrslitin skuldbindi. Tökum til dæmis, að kaup í einhverri atvinnugrein sje af þessum dómstóli ákveðið 200 kr. á mánuði. Hver maður, sem þessa vinnu vill stunda, verður þá að sætta sig við þetta kaup, því að allar sameiginlegar ráðstafanir, sem vinnulýðurinn kann að gera gegn þessari ákvörðun, eru ólögmætar og brjóta í bág við dóminn. Það er að vísu hægt að segja það, að ef kaup á togurunum væri ákveðið 150 eða 200 kr. á mánuði, sjeu sjómenn ekki skyldugir til að fara á skipin, hver og einn. En ef þeir ekki vilja ganga að þessum kjörum, þá verða þeir að sitja auðum höndum í landi, svelta, eða leita á náðir hins opinbera. Þetta er þvingun, einhver hin lúalegasta þvingun, sem hugsast getur, þar sem sultinum er ætlað að beygja mennina undir okið.

Eitt er enn athugavert. í 8. gr. segir, að þóknun dómenda og skipaðra talsmanna aðilja skuli greidd úr ríkissjóði og ákveðin af dómstólnum. Jeg þekki það ekki í neinu öðru máli, að dómararnir sjálfir sjeu látnir ákveða laun sín. Jeg gæti hugsað mjer, að dómstörfum yrði þá ekki flýtt mjög, ekki síst ef atvinnuþröng væri hjá þeim mönnum, sem í dóminum sitja, eða ef þeir væru upp á tímakaup. Ef mönnunum dytti nú t. d. í hug að ákveða sjer tíu þúsund krónur fyrir setu sína í dóminum, þá væri ekkert hægt við því að gera. Ríkissjóður yrði að borga brúsann. Það væri ekki einu sinni hægt að hindra það, að þessir menn væru skipaðir í dóminn aftur, því ræður sýslumaðurinn.

Ákvæði dómsins um vinnukjör eiga að gilda um tveggja ára skeið. — Það er líka tekið eftir norsku lögunum. — Þó er það svo, að ef stórfeld breyting verður í sambandi við atvinnuna, t. d. með breyttu verðlagi eða öðru, þá má krefjast dómsupptöku eftir sex mánuði, en dómurinn ákveður vitanlega, hvort málið skuli tekið upp af nýju.

Þá er 10. gr. Jeg veit ekki, hvort það er rjetta orðið yfir hana að segja, að hún sje vitlaus; hún keyrir svo fram úr hófi. Jeg hygg fremur, að hún hafi verið samin með ráðnum hug. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aldrei má gera verkbann eða verkfall áður en deilumál þau, er í lögum þessum segir, koma til aðgerða sáttasemjara. Svo er og bannað að gera verkbann eða verkfall, meðan sáttatilraunir sáttasemjara eða dómsmeðferð samkvæmt lögum þessum stendur yfir.“

Það má ekki gera verkfall áður en sáttasemjari tekur málið að sjer, og það má ekki gera verkfall á meðan sáttasemjari hefir málið til meðferðar, nje heldur á meðan dómstóllinn fer með það, og þá auðvitað ekki heldur eftir að dómur er fallinn, því að með því væri úrskurður þessa göfuga dómstóls að engu hafður, en honum ber að hlýða sem dómum alment.

Nú fæ jeg ekki annað sjeð, en að það megi aldrei gera verkföll, ef á að skilja þessa gr. bókstaflega, en ef ekki á að skilja hana bókstaflega, þá er það frámunalega fljótfærnislegt að ganga svona frá henni. (JÓl: Þetta er misskilningur). Nei, verkföll eru bönnuð með þessum lögum; það er bannað að gera verkfall á meðan á sáttatilraunum og dómsúrskurði stendur. (MG: Það má gera verkfall á eftir). Þetta er fjarstæða. Með því að gera verkfall eftir að dómur er upp kveðinn, er brotið ákvæði 8. gr., þar sem segir, að dómsúrslit skuldbindi aðilja sem dómur alment, enda væri þýðingarlaust að flytja frv. eins og þetta, ef gera mæti verkfall eftir sem áður. Og hvað yrði þá um vinnufriðinn? Er það nokkur vinnufriður, ef gera má verkfall strax og dómur er fallinn? Nei, meiningin er sú, að slá þetta vopn úr höndum verkalýðsins. Hitt er satt, að einstakur maður getur neitað að ráða sig á togara, en fjelagsskapnum er bannað að gera slíka neitun og sjá um að staðið sje við hana.

Þá sagði hv. þm. Borgf. (PO), að hjer í frv. væri engin viðurlög ákveðin, og það væri ekki skylda manna að vinna fremur en þeim sjálfum sýndist. En í 10. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Brot á ákvæðum greinar þessarar varða sektum í ríkissjóð, 500–10.000 kr., og auk þess skaðabótum eftir almennum reglum.“ (PO: Jeg sagði ekki, eftir að dómur væri fallinn). En í 1. gr. tölul. 2 stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Mál út af rofum á dómum um vinnukjör samkvæmt þessum lögum eða samningum um vinnukjör, af hálfu þeirra aðilja, er í áðurnefndum lögum, nr. 55, 1925, segir, eða lögum, er í þeirra stað koma“, — þ. e. a. s. dómstóllinn tekur málið aftur til meðferðar, og hann getur þá, þar sem engar reglur eru settar, dæmt í þær sakir og skaðabætur, sem hann vill. (PO: Í 10. gr. stendur — ). 10. gr. talar aðeins um verkföll á meðan á samningum stendur, en 2. tölul. 1. gr. segir, að dómstóll þessi skuli dæma um rof á þeim dómum, sem hann hefir upp kveðið, og það væri heimska að hugsa sjer, að hann dæmdi sama dóminn aftur og aftur án þess að dæma mennina í sekt eða önnur víti eða viðurlög fyrir að brjóta úrskurði hans.

Auk sektanna er þeim, sem dæmdur er sekur, ætlað að greiða skaðabætur. Það er ekki nóg, að verkalýðsfjelögin fái sektir fyrir að gera verkfall, heldur eiga þau líka að greiða þær skaðabætur, sem dæmdar verða eftir reglum, sem dómstóllinn sjálfur setur.

Í ræðu hv. 1. flm. (JÓl) taldi hann, að skaðinn af síðustu vinnustöðvun ylti á miljónum. Jeg gæti þá trúað því, að þær skaðabætur, sem öðrum aðilja kynni að verða gert að greiða, gætu orðið svo háar, að það gæti riðið fjelagsskap þeirra að fullu, a. m. k. verkamanna.

Jeg hefi nú vikið að einstökum gr. frv., vegna þess að hv. flm. hafa kvartað yfir því, að efni frv. hafi verið rangfært. — Nei, það hefir ekki verið rangfært. Efni frv. og tilgangur er það, að hindra verkamenn í því að koma fram kröfum sínum um að fá það verð fyrir vinnu sína, sem þeir telja sig þurfa að fá og telja sig eiga rjett á að fá. Og þessi dómstóll er einvaldur. Hann á sjálfur að gera sjer lög og reglur til að dæma eftir. Slíks eru engin dæmi. Dómendum væri þannig gefið það vald, að ekkert vald hliðstætt væri til í landinu.

Það er nú ljóst orðið, að hv. flm. eru farnir að sjá þetta, því að þeir eru nú reiðubúnir til að samþykkja allar mögulegar breytingar. En það er gleggsta viðurkenningin fyrir því, að þeir eru sjálfir farnir að sjá, hvert ósmíði þetta frv. þeirra er.

Annað er vert að athuga í þessu sambandi. Það er látið heita svo í frv., að hið sama eigi að ganga yfir atvinnurekendur og verkamenn, að sömu ákvæðin eigi að gilda um verkbönn og verkföll. En það eru engin lög til hjer á landi um það, sem nefnt er verkbann. Það er engin skilgreining til á því hugtaki. Árið 1926, að mig minnir, var meiri hluta togaraflotans lagt við festar hjer við garðinn og inni í Sundum. Úthaldstími skipanna var að meðaltali um 6 mánuðir það ár, í stað 8–10 mánaða venjulega. Þá hafði nýlega verið gerður samningur við verkamenn, sem átti að gilda í þrjú ár. Auðvitað bjuggust sjómenn við venjulegum atvinnutíma, er þeir gerðu samninginn. En skömmu síðar var skipunum lagt. — Meðal veiðitími á íslensku togurunum það ár var, eins og áður segir, tæpir 6 mánuðir, og meðaltekjur sjómanna, sem höfðu gert ráð fyrir að hafa vinnu í 9 mánuði, voru 18–19 hundruð krónur, auk fæðis, að því er hagskýrslur herma. Nú vil jeg spyrja: Geta þá útgerðarmenn, hvenær sem útlitið er ekki eins og þeir kjósa, lagt skipunum og sagt: Nú ætla jeg að hætta, en það er ekki neitt verkbann, sem jeg legg á með þessu? Eða var þessi stöðvun 1926 verkbann?

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), aðalflm. frv., var hjer með nokkurn útreikning yfir það, hversu gífurlegt tap þjóðarinnar hefði orðið á síðustu vinnustöðvun. Það valt á miljónum, eftir hans reikningi, því að hv. þm. taldi, að tapið væri um ein milj. kr. á mánuði. En hve mikið tap skyldi verkalýðurinn og þjóðfjelagið hafa beðið árið 1926 við það, að flotanum var þá lagt svona snemma? Ef tapið hefir numið einni milj. kr. á mánuði að þessu sinni, þá hafa útgerðarmenn sjálfsagt haft af verkalýðnum þrjár milj. kr. það ár. — Er það nú meining hv. flm. að girða fyrir, með þessu frv., að annað eins og þetta geti komið fyrir? Jeg vil gjarna fá glögg svör við þessu.

Hv. þm. (JÓl) talaði ákaflega mikið í sambandi við þetta frv. um vinnufrið, og hversu æskilegt það væri, að bróðerni og samkomulag gæti haldist með báðum þeim aðiljum, sem að framleiðslunni standa. — En mín skoðun er sú, að undir núverandi atvinnuháttum og skipulagi sje vinnufriður óhugsandi, nema með því móti, að annar aðili sje gerður svo sterkur, að hinn komi sjer ekki við gegn honum. Eins og sauðurinn þegir fyrir þeim, sem hann klippir, á sama hátt vill hv. aðalflm. koma á vinnufriði, að annar aðilinn sje eins og sauðurinn, sem þegir, — að sje dómstóll, skipaður af mönnum, sem líta svipuðum augum á málið og atvinnurekendur sjálfir, dæmi, og verkalýðurinn, þegjandi og „friðsamur“, eigi að hlíta þeim dómi. En hugmynd okkar jafnaðarmanna um vinnufrið er önnur. Hún er sú, að hver aðili, sem að framleiðslunni vinnur, taki og að rjettri tiltölu þátt í stjórn hennar og njóti þess, hver afrakstur verður. Með þeim einum hætti er hægt að tryggja vinnufriðinn. En það eru vinnuveitendurnir, sem ekkert vilja gera til samkomulags í þá átt, það sýnir best hverjar viðtökur kröfur sjómanna fengu. Ein af kröfum þeirra var sú, að til uppbótar lágu kaupi á ísfiski fengju hásetar ½% af „brúttó“-afla skipsins, hver í sinn hlut. Það er vitanlegt, að þetta var það af kröfum sjómanna, sem var stærsti þyrnirinn í augum útgerðarmanna. Þeir vilja alls ekki gera sjómennina þátttakendur í rekstri útgerðarinnar. Þetta er vanhyggja hjá útgerðarmönnum. Segjum t. d. að fimm fiskar skemmist nú af hverjum 200, hjá hverjum háseta, af ýmsum orsökum. Ef hásetinn veit, að hann á von á að fá hlut í ágóða skipsins, þá leggur hann sig kannske enn meir fram, svo að ekki spillast nema fjórir fiskar í stað fimm áður, af hverjum 200, sem hann handleikur, og hefir þá útgerðin fengið þetta í bættri meðferð á fiskinum. Þetta er áreiðanlaga besta leiðin til þess að glæða starfsumhyggju sjómanna, einmitt það, að greiða þeim einhvern hluta af kaupi sínu með hlutdeild í afla. Jeg er ekki í nokkrum minsta vafa um það, að útgerðarmenn hefðu beinlínis grætt á því í betri meðferð fiskjarins, að greiða sjómönnunum þessar prósentur. En þetta vilja þeir síst af öllu gera. Þeir virðast hugsa svona: Útgerðin er okkar einkamál, við hættum fje okkar í hana og við eigum líka að taka gróðann einir. Á meðan þessi hugsunarháttur ríkir hjá öðrum aðilanum, er vinnufriður óhugsandi. Vinnufriður getur þá ekki fengist á annan hátt en þann, að annar aðilinn sje hneptur í þrældóm, og honum skipað að hlýða, þegja, eins og sauðurinn þegir fyrir þeim, sem hann klippir.

Það liggur hjer fyrir framan mig frv. til 1. um dýrtíðaruppbót á launum embættis- og starfsmanna ríkisins. Með þessu frv. eru allítarleg fylgiskjöl, sem að minsta kosti eiga að sýna fram á það, að embættis- og starfsmönnum ríkisins sje bein nauðsyn að fá allverulega hækkun á launum sínum. Í þessum fylgiskjölum eru birtar skýrslur yfir hvað það kosti hjer í Reykjavík, sem er dýr bær, að framfleyta 6–7 manna fjölskyldum. Nú var, eins og vitanlegt er, deilt um það, hver kjör sjómanna ættu að vera á togurunum. Meðaltekjur þeirra munu hafa verið sem svarar 3000–3300 kr. um árið. Það álíta útgerðarmenn of hátt. En samkvæmt þessum skýrslum hjer, verður niðurstaðan nokkuð önnur. En það er annars rjett að jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesi upp nokkrar setningar úr inngangi að fylgiskjali II, þar segir svo:

„Með öðrum orðum, það væri þakklætisvert, ef embættismenn fengi „þurftarlaun“, þó þeim væri að engu bættur námskostnaður, ekkert skeytt um ábyrgð embættisins og ekkert tillit tekið til atvinnukjara annara nje til hliðstæðra embættismanna í öðrum löndum. Nú sem stendur mun varla nokkur embættismaður hafa einföldustu þurftarlaun.“

Embættismennirnir segjast sem sje ekki setja kröfurnar hærra en það, að þeir rjett aðeins fái þurftarlaun til brýnustu nauðsynja, og er svo talið upp það allra nauðsynlegasta, sem þeir þurfi að hafa hjer í Reykjavík. Í þessari skýrslu segir, að 6 manna heimili hjer þurfi minst 10818.40 á ári til að geta lifað viðunanlegu lífi, eða um 1800 krónur fyrir hvern meðlim fjölskyldunnar. Þessari upphæð fylgir mjög ítarleg greinargerð, sem jeg hefi athugað nokkuð. Hefi jeg engan lið sjeð, sem ekki sýnist vera nærri lagi. Að vísu er þar gert ráð fyrir, að þessi maður leyfi sjer að kaupa blöð fyrir 104 kr. á ári, fyrst og fremst Morgunblaðið fyrir 24 kr.

Þá er talin önnur fjölskylda, þar sem eru 7 manns. Það er gert ráð fyrir, að hún þurfi, til þess að geta lifað sómasamlega, 14.354 kr. á ári. Þar fylgir einnig nákvæm sundurliðun. Jeg hefði freistingu til að lesa þá skýrslu upp fyrir hv. deild, til þess að benda á, hve hóflega er farið í sakirnar, en geri ráð fyrir að hv. þdm. muni hvort sem er kynna sjer þessa skýrslu, og vil því ekki tefja tímann með því.

Þá er í 3. skýrslunni gert ráð fyrir 12,741 kr. þurftarlaunum. Þar er um að ræða embættismann í Reykjavík, sem ekki eyðir neinu í það, sem kalla mætti óþarfa, engu fram yfir þurftarlaun. M. ö. o., hjer er aðeins talin fram árseyðsla þessa manns, og eftir hinum ýmsu liðum að dæma, virðist hvergi of í lagt.

Loks er í þessari skýrslu skrá yfir ársútgjöld símamanns í Reykjavík, og sýnir hún, að þurftarlaun hans nema ekki meira en 5130,79 kr., og eru þar þó 6 menn í heimili. Í þessum reikningi er ótalið dagblöð, tímarit, bækur, tóbak, leikföng, og yfirleitt alt, sem ekki getur talist bráðnauðsynlegt.

Um þessa skýrslu segir svo í athugasemd, sem fylgir: „Hjer er auðsjáanlega svo spart á haldið sem frekast er unt, og næstum ótrúlegt um suma eyðsluliðina, hve lágir þeir eru.“ Undir þetta get jeg fyllilega tekið. Það er í fljótu bragði næsta ótrúlegt, hvað þetta 6 manna heimili kemst af með lítið. Stærsti liðurinn er húsaleigan. Hún ein gleypir 1560 krónur, svo að eftir verða tæpar 3600 kr. til allra annara útgjalda. Af því fara svo 75 kr. í rafmagn. Fatnaður á ári nemur 578 kr., að viðbættum tæpum 200 kr. í skófatnað. Í þessum útgjaldaliðum vantar margt fleira en upp er talið í athugasemd skýrslugjafa. T. d. er ekkert reiknuð persónutrygging, eldsvoðaábyrgð, fjelagsgjöld, tekjuskattur, ekkert ætlað fyrir gjöfum, ekkert fyrir skemtunum eða öðru slíku, sem ef til vill má telja utan lífsnauðsynja, en enginn getur þó komist hjá. Þá er ekkert reiknað fyrir símaafnot, af því símamenn njóta þeirra hlunninda að hafa ókeypis síma, skólakostnaður enginn, og það af þeirri einföldu ástæðu, að börn þessa manns hafa ekki náð skólaskyldualdri. Þegar nú að alt þetta er tekið til greina, getur eyðsla þessa afarsparsama heimilis ekki orðið mikið undir 6 þús. kr. eða nálægt 1000 kr. á mann.

En sjómannskaupið, hvað verður það? Eftir því sem mjer reiknast til, munu meðaltekjur sjómanna nema 3/5 af eyðslu þessa manns, sem jeg hygg að allir verði að viðurkenna, er kynna sjer þennan sundurliðaða reikning,að sje því nær furðulega lág, allir útgjaldaliðir ótrúlega lágt færðir.

Hv. flm. kallaði það „fádæma ósanngirni“, sem kæmi fram í kaupkröfum sjómanna í vetur. Þó var kaup það, sem sjómenn fóru fram á, mikið lægra en það, sem þessi símamaður með allri sinni sparsemi mundi hafa getað komist af með og tæplega er hægt að kalla þurftarlaun.

Sami hv. þm. (JÓl) sagði tilgang frv. vera, eins og hann orðaði það, að afnema kúgunarvald það, sem nú ríkti meðal beggja aðilja, atvinnurekenda og verkamanna í kaupdeilum. Mjer er nú ekki vel ljóst, hvað þessi hv. þm. á við. En vel má vera, að hann hafi orðið var við kúgunarvald eða viðleitni einhverra fjelaga sinna í hóp atvinnurekenda, að þeir hafi kúgað hann til að gera annað en hann vildi, t. d. í síðustu kaupdeilu. Mjer er ekki grunlaust um að svo sje. — Jeg hygg að honum hafi ekki fundist kröfur sjómanna svo ósanngjarnar, sem hann lætur. En hjá verkamönnum er ekki um neitt slíkt kúgunarvald að ræða. Hjá þeim ræður skipulegur fjelagsskapur, þar sem minni hlutinn beygir sig fyrir meiri hlutanum, eins og alstaðar á sjer stað, þar sem lýðræðið er ekki fótum troðið. Maðurinn lifir ekki sjer einum, svo að jeg enn vitni í góða bók. Hagur eins og breytni hefir áhrif á afkomu og hag annara, oft margra. Sá, sem undirbýður fjelaga sína, ef um verkkaup er að ræða, lækkar ekki aðeins sitt kaup, heldur líka þeirra. Þess vegna hópast verkamenn saman og mynda með sjer fjelagsskap til þess að standa betur að vígi um að ná rjetti sínum, þegar deila þarf um kaup við atvinnurekendur. En skilyrði fyrir því, að slíkur fjelagsskapur sje stefnu sinni trúr, er það, að meiri hlutinn ráði, en minni hlutinn beygi sig. Og það skal sagt þeim til hróss, sjómönnunum í vetur, að þeir, sem vildu ganga að till. sáttasemjara, voru eins ákveðnir í því að standa við samþyktir fjelagsins og hinir, sem feldu tillöguna, eftir að atkvæði höfðu verið greidd. Þetta sýnir skilning og þroska verkamannanna í samtökunum.

Nú eru verkalýðssamtökin orðin svo sterk, að atvinnurekendur sjá sjálfir, að þeir geta ekki lengur beitt kúgunarvaldi, ekki ákveðið kaupgjaldið eftir sínum geðþótta. Þess vegna flýja atvinnurekendur nú til löggjafarvaldsins og biðja það um hjálp. Hjálpin á að vera þessi þrælalög um þvingunardómstól í vinnudeilum, er skyldi verkamenn til að vinna fyrir ákveðið kaup, svo samtökin komi þeim ekki að gagni lengur.

En það mun sýna sig, að þó að frv. þetta verði samþ., þá er verkalýður landsins svo þroskaður, að hann mun aldrei láta kúga sig til að vinna fyrir það kaup, sem hann ekki sættir sig við. Hann mun ekki virða lögin að nokkru, ekki hlíta neinum slíkum vinnudómi, sem brýtur í bága við réttarmeðvitund vinnulýðsins. Verkalýðurinn mun því gera verkfall eftir sem áður, þegar hann sjer og finnur, að traðka á rjetti hans. Þess vegna eru menn, sem látast vilja afstýra kaupdeilum, engu bættari fyrir það, þó að Alþingi samþ. frv. þetta, enda fanst mjer á ræðu hv. þm. Borgf. (PO) að hann gera ráð fyrir þessu.

Í Noregi var það þannig, svo að jeg vitni í „Tugthúslögin“ frægu, að með þeim var bannað að gera verkfall. En það var nú samt gert. Verkfallið var dæmt ólöglegt. En alt kom fyrir ekki. Þúsundir manna tóku þátt í verkfallinu. Þá var bannað að veita þeim fjárhagslegan stuðning, sem í verkfallinu voru, og sektir lagðar við. En þrátt fyrir allar ráðstafanir hins opinbera hjelt verkfallið áfram. Menn þeir, sem tóku þátt í því, voru styrktir með stórum upphæðum hvaðanæva frá. Þá var reynt að beita „Tugthúslögunum“. Margir dómar voru dæmdir, og þúsundir manna í sektir og fangelsi, þar á meðal flestir eða allir þm. jafnaðarmannaflokksins. Nokkur hundruð voru sett í fangelsi, en fleiri þúsund dæmdra manna komst ekki að, fangelsin voru alt of fá og smá. Að lokum varð ekki lengur við neitt ráðið, og varð þá að hætta við að framfylgja dómunum. Síðan eru lögin aðeins dauður bókstafur, enda er sá tími að renna út, sem þau gilda, og fáum eða engum kemur víst til hugar að framlengja þau.

Og sama mundi verða reynslan hjer, þegar farið yrði að beita þessum þrælalögum.

Vitanlega ætlast flm. til þess, að lögunum verði beitt, og þeir munu krefjast þess, að þeim verði framfylgt, og allir þeir dæmdir til hegningar, sem ekki vilja beygja sig.

En hvernig hugsa þeir sjer að framfylgja slíkum lögum? Jú, þeir mundu heimta, að sett yrði á fót öflug ríkislögregla, herlið, sem sæi um að dómum þeim, sem dæmdir væru eftir þessum þrælalögum, yrði framfylgt. Það yrði því næsta skrefið að koma upp slíku herliði; því á engan annan hátt mundi hægt að beita lögunum.

Jeg hefi nú eiginlega mikla tilhneigingu til að ræða í þessu sambandi um það, hvaða þýðingu hátt og hækkandi verkkaup hefir, ekki aðeins fyrir verkalýðinn, heldur fyrir atvinnurekendur og þjóðina í heild sinni. Hversu hækkað kaup eykur alstaðar menningu og þroska þjóðanna og er lyftistöng verklegra framfara og umbóta á áhöldum og vinnubrögðum.

Það er segin saga, að þar sem mannsorkan er lítils metin, kaupið lágt, þar er menning einstaklinganna á lágu stigi og verklegar framkvæmdir smástígar. Engir þarfnast frekar góðs uppeldis en atvinnurekendurnir, og besta uppeldið er að efla verkalýðsfjelagsskapinn og með því að knýja þá til að gjalda hátt kaup. Þegar kaupið er svo lágt, að það borgar sig ekki að kaupa dýrar vinnuvjelar, þá eru mennirnir notaðir eins og dauðar vjelar, þar láta atvinnurekendur verkalýðinn bera t. d. salt og kol á bakinu í stað þess að nota vagna eða önnur flutningatæki. En samtímis og verkamenn gera meiri kröfur og kaupið hækkar, eykst menningin. Atvinnurekendur neyðast til að bæta starfsaðferðir, áhöld og vjelar, og því meiri verður aftur arðurinn og eftirtekjur fyrir þá. T. d. er það á allra vitorði, að hvergi er jafnhátt kaupgjald greitt eins og í Ameríku. En jafnhliða því, að mannsorkan er þar svo hátt metin, eru þar fleiri og fullkomnari vinnuvjelar en í nokkuru öðru landi, til þess að spara mannsaflið. Af þessu má því draga þá ályktun, að þar sem mannsorkan er dýr, þar læra atvinnurekendur að hagnýta sjer orku dauðra vjela. Þannig manna samtök verkalýðsins ekki aðeins verkafólkið sjálft heldur og atvinnurekendurna.

Hv. þm. Borgf. (PO) lauk máli sínu með þeirri ósk, að bróðurleg samvinna mætti takast milli beggja aðilja í kaupgjaldsþrætum, og kvað frv. þetta borið fram í því skyni að efla þessa bróðurlegu samvinnu. Hann ljet líka svo um mælt, að hann væri reiðubúinn að breyta mjög ýmsum ákvæðum frv., og taka upp þær breytingar, sem ætla mætti að treysti betur bróðurhuginn.

Í sambandi við þessi orð hans vil jeg þá láta hann vita nú þegar, að jeg er reiðubúinn að rjetta honum bróðurhönd, ekki til að breyta frv., það er þýðingarlaust. En ef hann vill hjálpa mjer til þess að drepa frv. Með því eina móti má ætla að bæta megi sambúðina milli beggja aðilja frá því, sem mundi verða, yrði frv. að lögum. Ekkert mundi spilla sambúðinni meir og fyrirbyggja alla bróðurlega samvinnu beggja aðilja en einmitt það, ef frv. yrði að lögum. Með þessum þrælalög- um yrðu verkamenn sviftir þeim eina rjetti, sem þeir hafa, rjettinum til þess að verðleggja vinnu sína. Þetta finna og skilja verkamenn, þess vegna verður

hugur þeirra beiskari og grimmari í garð frv. með hverjum deginum, sem líður. Hingað til hefir verið látið heita svo, að eignarjetturinn væri friðhelgur. Svo segja að minsta kosti flm. frv. Sjómenn flestir og verkamenn yfir höfuð, eiga ekki neitt annað en starfsorku sína. Hún er þeirra eina eign. Eignarrjettur þeirra nær aðeins til hennar. Friðhelgi þess eignarrjettar ættu eignarrjettarfriðhelgipostular að virða. En verði frv. að lögum, er þessi friðhelgi fótum troðin, og verkalýður landsins þar með gerður að ánauðugum þrælum, er ekki má lengur verðleggja vinnu sína, en verður að sætta sig við þann dóm, er ákveður fyrir hvað vinna skuli.

Ef ástæða væri til að setja á fót með brauki og bramli dómstól til þess að ákveða kaup manna, þá væri síst ástæða til að stofna slíkan dómstól til að ákveða kaup þeirrar stjettarinnar, sem vitanlegt er um, að er langlægst launuð allra stjetta í landinu. Ef löggjafarvaldinu virðist þörf á að takmarka laun launamanna, þá væri eflaust frekari ástæða að byrja á öðru sviði en frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. Borgf. sagði að síðustu, að hin hvössu andmæli, sem frv. hefði sætt, væri frá þeim mönnum í flokki jafnaðarmanna, sem æstastir væru, og breyta vildu því þjóðskipulagi, sem nú ríkir. Andmælin væru því aðallega sprottin af þjóðnýtingarstefnu jafnaðarmanna.

Mjer er nú engin launung á því, að jeg er þeirrar skoðunar, að hin eina varanlega lausn þessara mála sje þjóðnýting togaraflotans, þó að jeg ekki búist við, að sú breyting gerist alveg á næstunni. Þetta frv., ef samþykt yrði, mundi hvorki flýta eða seinka fyrir þjóðnýtingu. Verði togaraútgerðin rekin framvegis á svipaðan hátt og verið hefir til þessa, hljóta augu fleiri og fleiri manna að opnast fyrir því, hversu óheillavænlegt það er fyrir afkomu þjóðarinnar, að stærstu framleiðslutækin sjeu í höndum fárra manna, sem eingöngu nota þau með eigin hag fyrir augum. Þrælalögin mundu þar engu breyta. En þau mundu auka á kala og tortrygni verkalýðsins. Færa honum heim sanninn um það, að honum er ætlað að búa við önnur lög en „borgarar“ þjóðfjelagsins alment. — Ef svo yrði stofnuð ríkislögregla til að framfylgja lögunum, gæti það leitt til beinna ryskinga og bardaga. Sumir ætla kannske að það mundi flýta fyrir því, að atvinnurekendum auðvaldsins yrði steypt af stóli.

Af þessu, sem jeg hefi nú sagt, gæti jeg trúað að einhver vildi látast álykta sem svo, að jeg ætti þá að samþykkja frv. En jeg hefi enga trú á slíkum hrossalækningum til þess að koma á þjóðnýtingu. Hún verður að byggjast á þróun atvinnuveganna og þroska einstaklinganna. Frv. þetta, ef að lögum yrði, mundi verða til ills eins. Því er rjett að fella það strax. Hv. deild hefir enga ástæðu til að vísa því til 2. umr. og nefndar; frv. er sjálfdæmt. Best er að taka það af lífi strax.