05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Jónsson:

Það er mikið rjett í því, sem hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sagði áðan, að þetta mál væri aðallega fjárhagsmál. Jeg er honum alveg sammála um, að það sje fyrst og fremst fjárhagsmál. En jeg vil segja meira. Ef það er aðallega fjárhagsmál, þá er ekki heppilegt að ræða það eins og hv. jafnaðarmenn hafa gert nú í þessari hv. deild. Það er ákaflega óheppilegt að gera fjárhagsmál að hita- og æsingamálum. Jeg býst nú við, að ræða mín stingi nokkuð í stúf við það, sem hingað til hefir verið talað í þessu máli. Umræðurnar bera það með sjer, að í þeim kennir áhrifa frá þeim heitu deilum, sem átt hafa sjer stað undanfarið. Jeg hefi verið hlutlaus í þeim deilum og hefi því betri aðstöðu en ýmsir aðrir til að tala um þetta mál af fullri rósemd og stillingu.

Maður gæti eiginlega, að óreyndu, talið ólíklegt, að jafnaðarmenn hefðu þá aðstöðu í málinu, sem fram hefir komið í þessum umr. Flokkur, sem öðrum fremur telur sjer umhugað að hjálpa þjóðunum áfram á þeirri braut, sem erfiðust er, braut framfaranna, og boðar trúna á hið komanda þúsund ára ríki á jörðunni, ætti að taka opnum örmum hverri viðleitni, sem miðar að því að innleiða heilbrigt skipulag og lyfta mannfjelaginu á hærra stig en það nú er á. Hvert tækifæri, sem þeim gefst til að vinna að aukning menningarinnar í veröldinni, ætti að vera þeim óbilandi fagnaðarefni, ef þeir lifa samkvæmt kenningu sinni.

En sú er hin óheillavænlega venja íslenskra jafnaðarmanna, að seilast eftir lausn hvers máls til annara landa. Stefna þeirra er sjálf innflutt frá öðrum löndum. Og í hvert sinn, sem vanda ber að höndum hjer heima, spyrja jafnaðarmennirnir íslensku: Hvað segja flokksbræður okkar í öðrum löndum um þetta?

Þetta er því kynlegra sem íslenskir jafnaðarmenn ættu í raun og veru að vera betur til forystu fallnir en samherjar þeirra annarstaðar. Og það er af því, að þeir styðjast við óvenju vel mentaða alþýðu. Mjer hafa tjáð menn, sem þekkja vel til farmensku og siglinga, að íslenskir sjómenn skari langt fram úr stjettarbræðrum sínum í flestum mentum. Og það er satt að segja ákaflega leiðinlegt, ef verkamannaforingjarnir hjer standa svo langt að baki liðinu, að þeir þurfi að líta upp til útlendu stjettarbræðranna. Þeir ættu að fara að venja útlendu leiðtogana á að líta upp til sín, alveg eins og erlendir sjómenn verða að líta upp til íslenskra sjómanna. Hefðu nú jafnaðarmenn hjer kjark til að viðurkenna, að með þessu frv. væri stefnt í rjetta átt, hvað sem fjelagar þeirra erlendis segja, þá mundi vegur þeirra vaxa. Þeir mundu þá hafa stigið drjúgt spor í áttina til þess að veikja vald hnefarjettarins í heiminum. Steinaldarmaðurinn tekur stóran tinnustein, vefur um hann hráblautri ól, og þegar hún er orðin hörð, hefir hann sleggju þessa að vopni og ver með henni konu sína, börn, búfje og annað, er þess gerist þörf. Og þessi sleggja er honum röksemd í deilumálum, enda mun þaðan komið orðið sleggjudómur.

En smám saman vaxa menn upp úr þessu ástandi. — Jeg býst ekki við því, að það hafi verið auðhlaupið að því að afnema blóðhefndina til forna. En það var mikil framför frá því, er áður var, er farið var að fela betri mönnum að gera um málið, og farið var að jafna víg með fje. Bestu málalokin voru sættir.

Á öllum sviðum er þetta að færast í rjetta átt. Þegar tvo menn greinir á í einhverju máli, er það venja að fá góða menn til þess að gera um málið. — Þannig er það í viðskiftalífinu, þannig er það með öll fjármál. Menn berjast ekki lengur um úrslitin, málinu er vísað til dóms, og báðir aðiljar sætta sig við dóminn. En hvorki við nje aðrar þjóðir höfum komist svona langt á öllum sviðum. Eitt af því, sem ennþá er háð lögmáli steinaldarinnar, eru vinnudeilurnar. Þar þykir sjálfsagt að berjast til þrautar með hnefarjettaraðferð og láta aflsmun ráða. En það verður eigi til langframa. Hvort sem þetta frv. verður felt eða ekki og hvort sem gerðardómurinn norski verður afnuminn eða ekki, þá er jeg viss um, að slíkar till. sem þessar koma altaf fram aftur. Þær munu sigra að lokum, og að því ráði verður horfið, að láta góða menn gera um þessar deilur sem aðrar. Leiðinlegt er það þá fyrir þá menn, er nú standa fastast gegn þessu frv., að sagan hljóti að kveða þann dóm upp yfir þeim, að þeir hafi verið fulltrúar steinaldarmenningarinnar og haldið fastast við hnefarjettinn á þessu sviði.

Allsstaðar er stefnt að þessu sama marki. Þegar deilur hafa komið upp milli þjóðanna, hafa þær jafnan viljað jafna þær með hnefarjetti og hefja stríð. Nú er verið að koma gerðardómi á um slíkar deilur, bæði með samningum milli einstakra þjóða, og svo með því að hafa allsherjar dómstól um slíkar deilur. Vinnur Þjóðabandalagið að þessu. Margir spá því, að það muni verða til lítils gagns, en þetta er þó spor í áttina. Menn geta stansað á rjettri leið, farið króka og hringsólað, en það stefnir að þessu marki: Að jafna deilur án þess að rjúfa friðinn.

Jeg hefi enga tröllatrú á því, að þótt frv. þetta verði samþ., skapist á augabragði einhver Fróðafriður í landinu eða vinnufriður sá, sem svo mikið hefir verið rætt um hjer. Jeg álit frv. heldur ekki alfullkomið, nje að eigi megi bæta það í ýmsum atriðum.

Aðalatriðið fyrir mjer er það, að frv. stefnir í rjetta átt, því að það er óhugsandi annað, en að framtíðarúrlausnin verði sú, að fá gert um mál þessi sem önnur deilumál. (HV: Eftir hvaða reglum?) Eftir settum reglum. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að fá mál hefðu mætt jafnmikilli andúð og þetta mál. Mjer er ekki kunnugt um það, hve mikilli andúð það hefir mætt í því fjelagi, er hv. þm. er viðriðinn. Annars væri gaman að vita, hve mikinn þátt hann og aðrir leiðtogar eiga í þeirri andúð.

Hinsvegar sannar það ekkert, þótt málið verði fyrir einhverri mótstöðu. Þannig er því ætíð farið um öll merk nýmæli í byrjun. Ekki munu ríkir höfðingjar í fornöld hafa sætt sig við það orðalaust að láta gera um mál sin, en þeir urðu að láta í minni pokann, eins og afturhaldið hlýtur altaf að gera. Þannig mun og fara um mál þetta, hvort sem andúðin gegn því stendur lengur eða skemur.

Mjer finst það sjálfsmótsögn, að fulltrúar jafnaðarmanna skuli standa á móti þessu frv. Þeir eru ávalt með munninn fullan af fögrum lýsingum á því þjóðskipulagi, er þeir vilja koma á. Og eftir lýsingum þeirra, hlýtur það einmitt að vera alllíkt og þetta, sem hjer er farið fram á, því að þeir eru altaf að prjedika það, hvað hinn óbundni einstaklingsvilji sje skaðlegur.

Nú er það svo, að ríkið skamtar starfsmönnum sínum kaup. — Þannig yrði það einnig í framtíðarríki jafnaðarmanna, en mundu verkamennirnir þá ætíð verða ásáttir um kaupgjaldið fremur en nú? — Jeg veit, að hv. þm. jafnaðarmanna bera það fram, að þá sjeu það verkamennirnir, sem ráði.

Ekki getur allur fjöldinn komið saman og ráðið ráðum sínum; það verður að fela slíkt úrskurðarvald vitrum og góðum mönnum, alveg eins og hjer er farið fram á. Slíkur dómstóll ætti því að vera í samræmi við skoðanir jafnaðarmanna.

Hv. jafnaðarmenn eru ætíð að prjedika það, hvað auðvaldsfyrirkomulagið, eins og þeir orða það, sje gersamlega óhæft. — Þeir ættu þá að gleðjast yfir því, að frv. þetta væri einn naglinn í líkkistu þess fyrirkomulags.

Frv. þetta lætur í ljós þá skoðun flm. og annara, er því eru fylgjandi, að æskilegt væri að reyna að koma í veg fyrir verkföll og verkbönn, vegna þess að hvorttveggja væru aðeins leifar af fornum hnefarjetti, sem eigi sje sæmilegt að láta lengur viðgangast.

Hv. 2. þm. Reykv. hjelt því fram, að verkamenn gripu aldrei til verkfalls nema þegar þess væri þörf. Þetta segja atvinnurekendur líka. Það er eins og hv. þm. Ísaf. (HG) sagði, að þegar tveir deila, otar hver sínum tota. Báðir aðiljar halda, að rjetturinn sje þeirra megin, og að ráðin, sem þeir grípa til, til þess að sigra, sje nauðvörn, og því er eina ráðið, að láta gera um deiluna.

Hv. þm. (HG) sagði ýmislegt, sem mjer fanst undir virðingu hans. T. d., að með frv. þessu ætti að skapa „þrælahald“, að hjer væri verið að skapa verkalýðnum lægri rjett en öðrum. En hv. þm. gleymdi að leiða rök að því, í hverju þetta þrælahald væri fólgið, og hverjir eru þessir „aðrir“? Ekki geta það verið starfsmenn ríkisins, ekki þeir, sem vinna á skrifstofum eða við verslun, því að þeim er skamtað kaupið og verða þeir sjálfir að skera úr því, hvort þeir vilja taka vinnunni með því kaupgjaldi. Hjer er heldur ekki verið að þvinga menn til þess að vinna. Jeg hygg, að þessi orð, þrælalög og þrælahald, sjeu sprottin af misskilningi, því að ýmsir munu hafa skilið frv. þannig, að halda ætti mönnum að vinnu fyrir ákveðið kaup, að viðlögðum háum sektum. Nú hefir það margoft verið sýnt, að hjer er um enga slíka þvingun að ræða og hefðu þessir menn því átt að vera þau prúðmenni, að hætta að nota slík nöfn. (HG: Sulturinn og neyðin eiga að þvinga menn til þess að vinna.) Þá mætti segja það um fleiri en verkamenn. Nei, þetta er ekkert annað en einhver steinaldar-tröllkarl, sem risinn er upp og veifar nú sleggjunni yfir höfði sjer, og heimtar að hún fái að skera úr málunum.

Hið sama er um það að segja, þegar einn hv. þm. sló í borðið af æsingi miklum og hrópaði: Verkalýðurinn vill ráða, hann á að ráða og skal ráða! Er Mussolini kominn hjer í deildina? Nei. Hjer á engin ein stjett manna að ráða öðrum fremur, og slíkt ættu þeir síðast allra að segja, sem boða jöfnuð og jafnrjetti.

Flest það, er haft hefir verið á móti þessu frv., eru grýlur einar. Hjer er um enga þvingun að ræða, og verkfallsrjetturinn er ekki tekinn af verkamönnum nema um stutta stund, á meðan verið er að gera um málin.

Þá má ef til vill segja: Hvaða gagn er að frv., ef það heimtar svona lítið? Jeg svara: Það er spor í rjetta átt.

Aldrei er hægt að koma mönnum á hærra menningarstig nema með þolinmæði og þrautseigju. Aðalkostur þessa frv. er sá, að það bendir á heppilega leið í þessum málum, án allrar þvingunar, og er þó auðsjeð, að á bak við það stendur sá vilji, er eigi mun gefast upp í bráð, hvernig svo sem frv. þetta fer nú.

Og ef frv. þetta er svo vita áhrifalaust, hvernig stendur þá á því, að menn eru svo æstir, er þeir tala gegn því, að þeir standa hjer náfölir með blóðhlaupin augu og berja í borðið?

Sannleikurinn er sá, að hjer er meira afl en þeir vilja játa, og verið er að taka vopnin úr höndum leiðtoganna. Og erfitt mun það reynast mönnum þessum að sannfæra þm. um það, að verkföll sjeu til bóta, en það er eina röksemdin, sem væri nokkurs virði gegn frv.

Hv. þm. Ísaf. (HG) hóf ræðu sína á því að segja, að hv. 1. flm. frv. (JÓl) hefði ekkert vit á þessu máli. — Það er altaf leiðinlegt, þegar menn, sem vit hafa á einhverju máli, brýna aðra á slíku, en þó tekur alveg út yfir þegar menn, sem eru lítilli þekkingu gæddir á málunum, láta sjer slíkt um munn fara við þá, sem þekkinguna hafa. Nú er það alkunnugt um hv. 1. flm., að hann er máli þessu manna kunnugastur alt frá því, er hann stundaði sjálfur sjó og þar til að hann nú stjórnar einu stærsta fyrirtæki hjer á landi í þessari atvinnugrein. — Þetta er engu líkara en ef jeg færi að fara úr háskólanum um borð í einhvern togarann og segði skipstjóranum, að hann hefði eiginlega ekkert vit á því, hvernig ætti að fara að því að veiða fisk, jeg vissi það miklu betur.

Mjer þótti undarlega við bregða, þegar hv. þm. (HG) fór að telja rök sín gegn frv., að þá voru margar forsendur hans þannig, að þær hljóta að verða til þess að styðja frv. Hv. þm. sagði, eins og jeg gat um áðan, að þegar tveir deildu, otaði hver sínum tota.

Þetta er alveg rjett, en hvaða ályktun má draga af þessu? Báðir aðiljar álíta æfinlega, að rjetturinn sje þeirra megin. Þetta sýnir því aðeins nauðsynina, að hafa óháðan dómstól, er dæmi um slík deilumál. Jeg verð að segja það, að jeg er alveg hissa á því, að jafn glöggur og skýr maður og hv. þm. er, skuli ekki geta fundið önnur rök gegn þessu frv.

Þá sagði hv. þm., að þegar tveir deildu, bæri sterkari aðili jafnan hærri hlut frá borði. Svo bætti hann við, að þeir, sem stærri hlutinn hreptu í þessum deilum, væru þeir, er hefðu eignarrjett á framleiðslutækjunum, togurunum. Jeg er ekki viss um, að þetta sje rjett hjá hv. flm. En setjum svo, að þessu væri þannig farið, og að togaraeigendurnir hrifsuðu altaf ljónspartinn til sín. Hvar er hv. þm. þá á vegi staddur með rök sín gegn frv.? Er það þá ekki glæpsamlegt af hv. þm., sem er fulltrúi hins veikari parts, að vilja ekki, að þeim sje veitt lið, sem afskiftir eru, eins og dómurinn mundi gera. Hann segir: Sá veikari verður jafnan afskiftur. Hjer eru verkamennirnir veikari aðilinn. En samt vil jeg ekki láta óhlutdrægan dómstól gera um deilumálin. Þetta er rökvilla.

En annars finst mjer því einnig skjóta nokkuð skökku við hjá hv. þm., þegar hann heldur því fram hjer á Alþingi, að verkamenn sjeu veikari og afskiftari aðilinn, en í blaði sínu æpir hann um þennan stórsigur samtakanna, þegar verkfallinu lauk. (HG: Við erum að vinna smátt og smátt.)

Í mínum augum er það „Pyrrusarsigur“ að vinna stórsigur, en verða þó jafnan afskiftur.

Hv. þm. sagði einnig, að í þessum lögum væru verkalýðsfjelögin í fyrsta skifti viðurkend sem rjettur aðili. (HV: Hvar eru þau viðurkend?) Hv. þm. ætti að spyrja sessunaut sinn (HG) að því, því að hann sagði þetta. (HG: Jeg sagði aðeins, að þetta væri viðurkent af flm. frv.) Jæja, látum þá sessunautana og flokksbræðurna bítast um þetta, en jeg vildi aðeins spyrja hv. þm. (HG): Ef hjer er um viðurkenning á verkamannasamtökunum að ræða, hvers vegna telur hann það þá ekki rök með frv.?

Þannig snúast þá öll vopnin í hendi hv. þm. Hann ætlaði að mæla móti frv., en færði óvart mörg góð og gild rök fyrir því.

Þá sagði hv. þm. að gerðardómurinn í Noregi hlyti að falla úr gildi um 1. ágúst, eða að minsta kosti væri ómögulegt, að hann gæti verið áfram í þeirri mynd, sem hann er nú. Jeg skal ekkert um þetta dæma, en ef svo er, þá er þetta alveg í samræmi við það, sem jeg sagði. Slíkum stórmálum sem þessum, verður ekki til lykta ráðið í einu vetfangi. Jeg álít það engan ósigur fyrir þetta mál, þótt lögin verði afnumin í bili. Þetta er mál, sem hlýtur að verða tekið upp aftur, uns það hefir unnið fullan sigur, eins og er um öll rjettlætismál.

Þá fór hv. þm. Ísaf. (HG) mjög út í einstakar gr. frv., enda þótt það sje með öllu óleyfilegt við 1. umr., þar sem málin skulu aðeins rædd alment. Jeg ætla hjer ekki að fara að dæmi hans, en víst er um það, að þar rak hver firran aðra hjá hv. þm. Hann sagði t. d., að dómstóllinn ætti fyrst að setja lög og svo að dæma eftir þeim. Hvar er gert ráð fyrir því í frv.? (HG: Í 1. gr.) Mjer virtist hv. þm. eiga við það, að hjer væri engin ákvæði til um lögmæti verkbanns eða verkfalls, og þau ætti dómurinn að setja. En þau ákvæði eru til, ef þetta frv. verður samþykt, því að þar er svo ákveðið, að ekki megi gera verkföll eða verkbönn áður en sáttaumleitanir hefjast, nje heldur á meðan þær standa yfir eða málið er fyrir dómstólnum. Þarna eru komin ákvæði um lögmæti verkfalla og verkbanna, en dómurinn skal hins vegar ákveða, hve háar sektir skuli greiða fyrir afbrot gegn þeim ákvæðum. Það mætti líka vera í meira lagi fáránleg hugsun, að dómstóll ætti sjálfur að setja lögin, sem hann dæmir eftir. (HG: Já, víst er hún það.) Já, þessi fáránlega skepna hefir nú hvergi fæðst nema í heila hv. þm. Ísaf. (HG).

Þá er það í mesta máta undarlegt, að hv. þm. Ísaf. skuli telja það fjarstæðu, að hægt sje að breyta frv. frá því, sem það nú er. Jeg skal fúslega játa, að jeg vildi breyta ýmsum atriðum í frv. og að jeg tel það ekki nægilega glögglega orðað á sumum stöðum. Þannig vildi jeg láta taka til athugunar, hvaða hjeraðsdómari skuli skipa dóminn, ef verkfall eða verkbann nær yfir fleiri en eitt lögsagnarumdæmi, t. d. Reykjavík og Hafnarfjörð, ef þetta er ekki nógu skýrt í frv. Jeg skal líka játa, að mjer finst það hálf hart, að hjeraðsdómari kveðji menn í dóminn, en ekki aðiljar sjálfir. En öðru eins og þessu er hægðarleikur að breyta.

Þá sagði hv. þm. Ísaf. (HG) að verkföll væru bönnuð með öllu eftir 10. gr. frv., og las hann greinina upp, máli sínu til sönnunar. Jeg vil nú með leyfi hæstv. forseta gera hið sama. Þar segir svo:

„Aldrei má gera verkfall eða verkbann, áður en deilumál þau, er í lögum þessum segir, koma til aðgerða sáttasemjara. Svo er og bannað, að gera verkbann eða verkfall meðan sáttatilraunir sáttasemjara eða dómsmeðferð samkvæmt þessum lögum stendur yfir. Brot gegn ákvæðum greinar þessarar varða sektum í ríkissjóð, 500–10.000 kr. og auk þess skaðabótum eftir almennum reglum. Sektir má innheimta með aðför í eignum hinna seku.“

Verkföll eru bönnuð áður en dómur gengur og á meðan á dómi stendur, segir hv. þm. Ísaf. (HG) með rjettu — og á eftir, bætir hann við frá sjálfum sjer og ber í borðið. (HG: Á þá ekki að hlýða dóminum?) Nei, verkföll eru hvergi bönnuð í frv., eftir að dómur er genginn, enda væri hv. þm. Ísaf. innan handar að koma með brtt. um að fella slíkt ákvæði niður, ef það væri til. (HV: Eru verkföll þá leyfð, eftir að dómur er fallinn?). Að mínu áliti er það. Dómur nær ekki lengra en það að ákveða, að ef unnið sje, þá skuli það kaup gilda, sem er sanngjarnt og eðlilegt að mati hans. (HV: Ekki segir hv. 1. flm. (JÓl) það.) Jeg hefi ekki heyrt, hvað hann hefir sagt, en jeg veit, að hann getur ekki hafa sagt annað. Ef svo væri, að verkföll og verkbönn væru með öllu börmuð, þá væri máske ástæða til að kalla þetta þrælalög. En ef einstaklingum er heimilt að leggja niður vinnu eða stöðva atvinnurekstur, þá er öllum fjöldanum það heimilt líka, því að af hverjum samanstendur fjöldinn nema af einstaklingum ?

Þá vildi jeg leiðrjetta lítið eitt það, sem hv. þm. Ísaf. sagði um þurftarlaunin, út af skýrslunni um laun embættismanna. Jeg er honum þakklátur fyrir það, að hann virtist hlyntur því, að launakjörin yrðu bætt, en það er misskilningur, ef hann álítur, að þar sjeu ekki taldar nema „blábrýnustu þarfir“ og lífsnauðsynjar. Eins og fylgiskjölin bera með sjer, er hjer miðað við venjulega reynslu í þessum efnum. Að vísu er þar ekki gert ráð fyrir eyðslu í vín, dýrar veislur eða ferðalög, en þó eru þar óneitanlega póstar, sem hægt er að draga fram lífið án.

Jeg er alls ekki að segja með þessu, að jeg álíti, að sjómenn hafi nóg kaup. Jeg vildi að það gæti verið sem allra mest, og jeg, sem ekki hefi annað að lifa á en vinnu mína, hlýt að finna til samúðar og skyldleika með þeim mönnum, sem eins stendur á fyrir. En jeg vil láta samþykkja gerðardóminn til þess að öll gögn fáist á borðið, og hægt sje að ákveða hæfilegt kaup.

Mjer kom það nokkuð spánskt fyrir, að heyra hve hv. þm. Ísaf. (HG) talaði af miklum fjálgleik um þá grein stjórnarskrárinnar, sem ákveður friðhelgi eignarrjettarins. Mjer þótti vænt um að heyra það á þessum hv. þm., að hann væri nú farinn að sjá, að þessi rjettarmeðvitund mundi vera mönnum nokkuð samgróin og ekki gott að ganga alveg fram hjá henni. En ályktunin, sem hann dró, var vitanlega rammskökk, þar sem hann hjelt því fram, að gengið væri á þennan rjett með stofnun vinnudómsins, og stafaði hún af þeim röngu forsendum, sem jeg hefi þegar hrakið, að gerðardómurinn sje að nokkru leyti þvingunardómur.

Hv. 4. þm. Reykv. (SAÓ) sagði, að vinnan væri eina vara verkamanna, og nú mættu þeir ekki ráða verði á þeirri vöru. En það er nú svo, að sjálfræði manna um verð á vöru sinni er allskilorðsbundið. Það er venjulegast eftirspurnin, sem verðinu ræður. Ef einhver kaupir vöru nú fyrir hærra verð en hann getur selt hana, verður það að vera hans tap. Ef tala skal um vinnu sem vöru, verður að miða gildi hennar við frjálst markaðsverð, eins og aðrar vörur!

Jeg man ekki betur en að jafnaðarmenn væru á sínum tíma frakkastir í því að heimta sett á hámarksverð á ýmsar vörutegundir, og hv. 2. þm. Reykv. (HV) væri formaður í nefnd, sem að því starfaði. (HV: Aldrei!) Jæja, svo mikið var víst, að í slíkri nefnd var hann, þótt hann hafi kannske ekki verið formaður. Þá voru þeir ekki hræddir við hámarksverð á vörum, en nú rjúka þeir upp til handa og fóta, af ótta við að missa það vopn, sem reynst hefir þeim notadrýgst til upphefðar, enda þótt hún sje máske einhverju öðru að þakka líka.

Það er álit mitt, að gerðardómstóll sem þessi, geti komið að miklu gagni, enda þótt hann banni hvorki verkföll nje verkbönn.

1. Það er hreint menningarmál að draga slíkar deilur sem þessar fyrir hlutlausan dómstól, í stað þess að afl hins sterkara ráði úrslitum.

2. Það er enginn vafi á, að sáttasemjara mundi verða stórmikill stuðningur í því, að hafa slíkan dóm á bak við sig.

3. Og í þriðja lagi er stórkostlega mikið unnið við að tefja fyrir verkbönnum og verkföllum meðan á sáttatilraunum stendur.

Í raun og veru er hjer um hið sama að ræða og að koma í veg fyrir styrjaldir milli þjóða. Ef skynsamir menn og góðgjarnir af báðum þjóðum væru látnir talast við, áður en til friðslita kemur, myndu níu af hverjum tíu styrjöldum afstýrt. Ef hinu illvíga kappi og æsingum, sem oft komast inn í slík mál, væri afstýrt, er enginn vafi á, að betur tækist til en ella.

4. Þótt hvorugur aðili sje neyddur til sátta, er það ákaflega mikilsvert að ákveða, hvaða kaup sje rjettmætt að dómi óvilhallra og sanngjarnra manna. Jeg held t. d., að vinnuveitendur hafi oft hulinn grun um, að ef þeir standi sem fastast á móti, muni þeim takast að fá kaupið lækkað, og að verkamenn muni eins að sínu leyti telja harðvítugt ofurkapp vænlegast til sigurs. En ef kaupið er ákveðið af gerðardómi, þurfa hvorugir aðiljar að gera ráð fyrir að mótspyrna þeirra beri árangur í hækkuðu eða lækkuðu kaupgjaldi frá því, sem dómstóllinn ákveður.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en þykir vænt um, að tveir af stærstu flokkum þingsins skuli standa að þessu frv. En jeg verð að segja það, að jeg kenni í brjósti um jafnaðarmenn, að þeir skuli vera einu afturhaldsmennirnir í þessu máli og vilja halda í rjett hins sterkara, í stað þess að láta vitra menn og góðgjarna gera um málið, svo að ásannist, að vjer lifum í rjettarríki.