07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Jónsson:

Jeg hefi nú skrifað hjá mjer ýms atriði úr ræðum andstæðinganna, en af því að mjer finst ekki laust við, að þessi umræða sje farin að líkjast málþófi, býst jeg ekki við að verða mjög langorður. Það er ekki laust við, þegar maður lítur í kringum sig, að manni detti í hug sagan um djáknann, sem gekk til prestsins, þegar allir höfðu smátt og smátt tínst út úr kirkjunni, lagði kirkjulykilinn á altarishornið og hvíslaði að klerki: „Þjer lokið svo kirkjunni, prestur minn, þegar þjer eruð búnir.“ En jeg sje, að hjer sitja tveir skrifarar og skrifa sem ákafast, og á meðan svo er, finst mjer ekki úr vegi að segja nokkur orð í því trausti, að þau berist til þjóðarinnar, sem skrifað er fyrir.

Jeg vil þá fyrst leyfa mjer að ávarpa stól hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) nokkrum orðum, því að nú er svo skipað hjer í hv. d., að menn verða eins að snúa sjer til stólanna eins og hv. þm. Hann talaði um málið á við og dreif, og var ekki gott að henda reiður á því, sem hann sagði, en þó heyrðist mjer hann vera málinu andvígur. Hann kvaðst ekki vilja setja upp dómstól, sem ekki væri trygging fyrir að yrði hlýtt. Það má vera, að ekki sje fullkomin trygging fyrir því, en þess verður að gæta, að oft eru settar upp stofnanir, sem tvísýna er á í fyrstu, hvernig reynist, í von um að þær gefist svo vel að þær ávinni sjer traust. Og af því að jeg veit, hversu miklu betri þessi dómstóll yrði, ef hann hefði traust beggja aðilja, þykir mjer leitt að lagst skuli vera á móti honum af svo mikilli óbilgirni og óvild. Annars greinir okkur hv. þm. V.-Ísf. meira á um leiðir en takmark.

Hann sagði, að hjer væri aðeins um ósk að ræða frá öðrum aðilja. Nú er hv. þm. kunnugt um, að þegar rætt hefir verið um gerðardóm hingað til, hafa báðir aðiljar verið honum jafnandvígir. Þetta er eðlilegt. Menn hafa haldið, að þeir græddu á baráttunni, sem dómnum er ætlað að taka fyrir. Hefði jeg ekki verið búinn að frjetta um afstöðu jafnaðarmanna nú, hefði jeg ekki treyst mjer til að segja um, hvorir yrðu málinu andstæðari. Jeg hefði fremur getað trúað, að það yrðu atvinnurekendur. Verkamenn segjast hafa borið sigur úr býtum í þeim deilum undanfarið, sem jafnaðar hafa verið fyrir atbeina þess opinbera. Atvinnurekendur ættu því að vera slíkum dómi móthverfir. En nú hefir einn þeirra atvinnurekenda, sem mest ber á hjer á landi, rjett fram höndina til sátta með flutningi þessa frv., og annar lýst fylgi sínu við það. Og jeg fyrir mitt leyti vil, að þetta tækifæri verði notað. Jeg veit ekki, hvort vinnuveitendur verða siðar jafnfúsir til friðsamlegra lausna á kaupdeilum og nú, ef þessari útrjettu hendi verður hafnað.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að ekki væri rjett að þriðji aðiljinn, ríkið, feldi dóm um mál þessara tveggja aðilja. Til þess er heldur ekki ætlast. Fyrst skal reyna sættir og allar samkomulagsleiðir. Það er ekki meiningin að sleppa öllum sáttatilraunum, enda væri það óheppilegt. En dómurinn er bein hvöt fyrir báða aðilja að komast að samkomulagi sjálfir, án þess að láta hann skera úr. Það er ávalt dálítið undir hælinn lagt, hvernig hann verður, og því líklegt, að hvorugir vildu eiga undir því. Það er t. d. eigi ávalt auðvelt að fá menn til að gefa tekjur sinar upp til skatts, en þó taka flestir þann kostinn heldur en að eiga undir því, að þeim verði áætlaður skattur.

Hv. þm. lagði áherslu á, að ríkið ætti að vera milligöngumaður í slíkum deilum. Þessu er jeg alveg sammála, en til þess er einmitt gerðardómur ágætt ráð. Hann nefndi aðra aðferð, er hann teldi betri en þá, er frv. leggur til, sem sje þá, að aðiljar sjálfir nefni svo og svo marga menn í dóminn og svo sje skipaður einn oddamaður. Frv. í þessa átt kom fram hjer á þingi frá Bjarna heitnum Jónssyni frá Vogi, en var ekki vel tekið. Enda verð jeg að segja, að sú skipun er ekki heppileg, því að þá eru þeir stríðandi herir beggja aðilja sterkastir í dómnum. Hv. þm. sagði ennfremur, að ráð til að jafna kaupdeilur fyndust ekki alt í einu, heldur þyrftu að þróast og þroskast. Þessu er jeg sammála. Jeg held að mönnum myndi smátt og smátt skiljast, að þessar deilur á að jafna með gerðardómi, en ekki með afli hins sterkara. Þessi þróun fæst aldrei, ef aldrei er lagt af stað.

Seinni partur ræðu hv. þm. voru almennar hugleiðingar um ástandið á jörðinni, og niðurstaða hans var sú, að til þess að gerðardómar gætu verkað, þyrftu allir að verða bræður og vinir. Yfirleitt hafði hann ekki trú á gerðardómi fyr en kominn væri nýr himinn og ný jörð. Það var því hann sjálfur, sem var í dómsdagshugleiðingum, en ekki við „aðventistarnir“, er hann nefndi svo. En ef nýr himinn og ný jörð risi, þyrfti hvorki gerðardóm nje margt af þeim lögum, er nú gilda, en því miður þarf nú víst ekki að gera ráðstafanir út af slíku á þessu þingi.

Hv. þm. Ísf. (HG) talaði langt mál og snjalt, en ekki mun jeg þó fara mikið út í þá ræðu hans. Hann sagði, að verkföll væru alveg bönnuð með frv., en dró þó nokkuð úr þeim ummælum sínum, er hann fór að færa fram rök sín. Hann sagði sem sje, að ef verkföll væru ekki bönnuð eftir að dómur er fallinn, þá væru þau samt tilgangslaus. Þetta er nú talsverður munur. Gildi frv. liggur einmitt í því að nema burtu ástæðuna til að gera verkbann og verkfall. Með því er gert ráð fyrir því, að gerðardómurinn reynist vel, því væri hann ranglátur, væri hann verra en ekkert. Og því er mikið unnið, þegar óhlutdrægur dómur, sem hefir aðgang að öllum gögnum, er búinn að kveða upp úrskurð um það, hvað kaupið eigi að vera. Við skulum segja, að úrskurður fjelli þannig, að verkamenn væru ánægðir, en vinnuveitendur óánægðir og vildu ekki gera út togarana. Þeim myndi beinlínis ekki haldast það uppi vegna almenningsálitsins, og sama gildir um hvorn aðiljann, sem er, sem skirrist við að hlíta dómi, er almenningur telur rjettan. Það er samviska þjóðarinnar, sem þar skerst í leikinn.

Þegar friðarsamningarnir í Versölum stóðu yfir, sagði Rantzau, fulltrúi Þjóðverja við Bandamenn: „Þið getið boðið okkur hvað sem þið viljið, en samviska heimsins þolir það ekki til lengdar.“ Þetta þótti nú „slagorð“, en þetta hefir reynst rjett. Ef dómstóllinn fær gildi yfirleitt, þá kemur rjettarmeðvitund almennings til skjalanna og gefur dómnum afl.

Hv. þm. Ísaf. hóf víst ræðu sína á lofsyrðum í minn garð fyrir það, að jeg hefði sagt um jafnaðarmenn, að þeir stæðu jafnan í brjóstfylkingu þeirra manna, er hefja vildu mannkynið til meiri menningar og þroska. Út af þessu datt mjer í hug ritdómur, sem Þórhallur heitinn biskup, sællar minningar, birti eitt sinn í Kirkjublaðinu. Blaðið var litið eins og menn muna, enda varð þessi snjalli rithöfundur oft að takmarka sig. Hann hafði líka sjerstakt lag á því að segja meiningu sína í fáum orðum, svo að mörgum varð minnisstætt. Í þessari ritfregn var fyrst nefnt nafn bókarinnar, stærð hennar o. fl. eins og venja er til. En svo kom ritdómurinn, sem hljóðaði svo:

„Besta bók, sem út hefir komið á íslensku um þetta efni — segir höfundurinn í formálanum.“

Jeg sagði aldrei annað en það, að jafnaðarmenn teldu sig leiðtoga, vildu láta trúa því að þeir væru að leiða mannkynið til hærra menningarstigs.

En jeg sagði annað lof, sem hv. þm. hefði mátt minnast, og það var lof mitt um íslenska verkamenn Og þau lofsyrði voru engir gullhamrar, heldur almenn sannindi, sem svo margir hafa sagt og eru alviðurkend.

All-langur kafli í ræðu hv. þm. Ísaf. voru almennar hugleiðingar hans um bein og bitlinga, og skil jeg satt að segja ekki, hvað það kom þessu máli við, sem hjer liggur fyrir til umræðu. Nema af ástæðan væri sú, sem fleygt hefir verið upp á síðkastið, að mjög væri tekin að spillast sambúðin á kærleiksheimili stjórnarflokkanna. Þetta minnir á sambúðina á öðru heimili. Þar bjuggu tvær fjölskyldur í sömu baðstofunni, en til þess að þær hefðu sem minst saman að sælda, var hafður tveggja stunda munur á klukkunni. Önnur fjölskyldan fór 2 stundum á undan hinni á fætur, borðaði 2 stundum fyr og gekk líka til hvíldar 2 stundum fyr á hverju kvöldi. Jeg hugsa mjer, að eitthvað þessu líkt sje ástandið í stuðningsflokkum stjórnarinnar, að eitthvað sje farið að slettast upp á vinskapinn þar. Því að tala um bitlinga í herbúðum núverandi stjórnar, finst mjer ærið náskylt því að nefna snöru í hengds manns húsi.

Annars vildi jeg spyrja hæstv. forsrh. (TrÞ), úr því við höfum þá ánægju að hafa hann þessa stundina hjer í hv. deild, hvort hann ætli ekki að tala í þessu máli. Mjer virðist það undarlegt, að við hinir sjeum að deila dag eftir dag um mál, sem allir viðurkenna að snerti mjög alla þjóðina, en hæstv. stjórn steinþegi og láti ekki sjá sig nema með höppum og glöppum í deildinni. Vildi jeg því leyfa mjer að beina þeirri áskorun til hæstv. forsrh., að hann skýrði frá, hver væri afstaða stjórnarinnar í þessu máli. En þetta var nú aðeins útúrdúr, sem jeg vænti þó að tekinn verði til greina á hærri stöðum.

Hv. þm. Ísaf. vildi bauna því á okkur Íhaldsmenn, að fyrverandi stjórn hefði verið einhver sjerstök bitlingahít. Jeg get ekki kannast við, að svo hafi verið, og veit ekki heldur til, að hjá fyrverandi stjórn hafi verið um aðra bitlinga að ræða en þau störf, sem æfinlega þarf að ráðstafa, svo sem endurskoðun landsreikninga, endurskoðun við Landsbankann og eftirlit með opinberum sjóðum. En þetta er ekkert annað en venjuleg störf, sem löggjöfin gerir ráð fyrir að unnin sjeu, og ættu því að rjettu lagi alls ekki að kallast bitlingar.

En síðan núverandi hæstv. stjórn hófst til valda, hefir alveg keyrt um þverbak í þessu efni. Þar er ekki aðeins um hin lögskipuðu endurskoðunarstörf að ræða og önnur störf, er áður þektust, heldur hafa verið stofnuð ný og óþörf embætti, hrófað upp allskonar nefndum, sumum alóþörfum, en þó vel launuðum, og alt er þetta gert til þess að þóknast hinum marglitu stuðningsmönnum og vikadrengjum hæstv. stjórnar. Það væri annars gaman að fá að vita með sannindum, hvað mörg þau eru þessi störf, sem bæst hafa við í tíð núverandi stjórnar.

Annars er jeg sammála hv. þm. Ísaf., að starf hans, t. d. í ríkisgjaldanefndinni, er ekki rjett að nefna bitling. Þetta orð á aðeins við um þá styrki, sem lítið eða ekkert aukastarf krefja. Og vil jeg þá í því sambandi taka það fram, svo það heyrist þó að minsta kosti einu sinni hjer í hv. þd., að fjölda mörg af þessum störfum, sem nefnd eru einu nafni bitlingar, eru að rjettu lagi ekki annað en nauðsynleg störf, sem unnin eru fyrir borgun, sem oft og einatt er alls ekki rifleg, samanborið við starfið. Hitt er annað mál, að sum þessi störf eru misjafnlega unnin. Og um ríkisgjaldanefndina er það lakast, að hennar störf eru hvorttveggja í senn hroðvirknisleg og illa unnin. Sú nefnd hefði þó eflaust getað orðið að miklu gagni, ef hún hefði vandað starf sitt betur. Sem dæmi þess skal jeg benda á, að í skýrslu hennar eru færðir langir dálkar um margskonar útgjöld, sem saman eiga, en þessir dálkar eru ekki lagðir saman. Ef t. d. 100 menn vilja sjá hverju þessi útgjöld nema, þarf að leggja þessa dálka saman hundrað sinnum, af því að nefndin hefir ekki hirt um að framkvæma þetta verk einu sinni. En slíkt er óþarfa fyrirhöfn fyrir þá, sem nota vilja skýrsluna. Að jeg ekki nefni aukaatriði eins og það, að Jónas er talinn á undan Jóni, sem einhver gamansamur náungi hefir getið sjer til, að væri gert til þess að fela hæstv. dómsmálaráðherra. Auk þess er þar sagt villandi til um tekjur sama hæstv. ráðherra. Sýnast þær lægri en þær voru.

Jeg skal ekki segja, hvort háttv. þm. Ísaf. ber ábyrgð á þessum frágangi á skýrslunni, en það er vont, að góðu starfi skuli hafa verið spilt fyrir svona smávægilega handvömm.

Hv. þm. Ísaf. fann ástæðu til þess að salla því á mig, að jeg hefði engin bein núna sem stendur. Það er nú nýtt að heyra þetta um mig, sem einu sinni var sagt um af andstæðingum mínum, að sett hefði met í bitlingum. Reyndar sannaðist það þá, að sá sem þetta sagði, hjelt að jeg hefði launuð störf, sem jeg ekki hafði. En hann vildi samt ekki láta sig, frekar en úlfurinn í dæmisögunni, sem rjeðist á lambið. Lambið sagðist ekkert hafa unnið til saka. „Það er sama, það var þá hann faðir þinn,“ sagði úlfurinn og át lambið. Hv. þm. gaf líka í skyn, að jeg hefði nýlega tapað máli. Þetta er rjett. Jeg leit svo á, að þegar Alþingi kaus mig í bankaráð Landsbankans, með ákveðinni þóknun til ákveðins árabils, þá gæti næsta þing ekki vikið mjer frá, fyr en ráðningartími minn væri úti. Mjer fanst nauður reka til, að gefa dómstólunum kost á að dæma um þetta atriði. Jeg var sannfærður um, að jeg hefði á rjettu að standa, og jeg er jafn sannfærður um það enn. En samt vefengi jeg ekki dóm hæstarjettar. Þetta sýnir ekki annað en það, sem allir vita, að blindur er hver í sjálfs síns sök. Þetta er einmitt eitt ágætt dæmi um nauðsyn þess, að láta dómstóla skera úr vafamálum.

Hv. þm. (HG) hefir ef til vill álitið rjettara af mjer, að jeg hefði setið fyrir bankastjórunum á strætum og gatnamótum og slegið af þeim hattinn eða ógnað þeim á annan hátt, svo þeir þyrðu ekki annað en að borga mjer launin. Þá aðferð þekkja þeir sennilega betur, þessi hv. leiðtogar alþýðu, sem trúa á hnefarjettinn sem þá einu og rjettlátustu úrlausn allra mála. Jeg kaus þá aðferðina, að láta dómstólana skera úr, í stað þess að láta ofríki aflsmunar ráða.

Þá kem jeg að auðum stól samþm. míns, hv. 2. þm. Reykv. (HV). Hann lagði út af því, að þingsaga mín hefði sýnt, að jeg hefði ekki verið hlutlaus þegar dæmt hefði verið um mál verka-

lýðsins. Þegar tveir deila, er náttúrlega erfitt að segja, hver sje hlutlaus og hver ekki. Það fer sennilega líkt fyrir þeim og kerlingunum sem sögðu: klipt er það — nei, skorið er það, heillin!

En þó skal jeg minna á það, að þegar togaravökulögin voru hjer á ferðinni í fyrstu, þá var jeg meðmæltur óskum sjómanna um 6 stunda hvíld á sólarhring. Og jeg hefi jafnan fylgt kröfum verkamanna, á meðan þær voru sanngjarnar og á rökum bygðar. Jeg vildi tryggja sjómönnum vissa hvíld á sólarhring. En þegar fara átti að færa sig lengra og lengra upp á skaftið og heimta meiri hvíld á sólarhring, þá gat jeg ekki lengur fylgst með. Jeg hefi í þessari deilu staðið mitt á milli öfganna frá báðum hliðum, og það kalla jeg hlutleysi.

Þá varð þeim báðum skrafdrjúgt um það, hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf., að einn aðalgalli frv. væri sá, að vantaði grundvallarlögin til þess að dæma eftir. Þetta er að sumu leyti satt, en eftir mínu viti á það ekki á neinn hátt að þurfa að gera starf dómsins ómögulegt. Dómurinn á að skapa hefð og venju í þessu, en slík hefð getur orðið bindandi eins og lög. Jeg hefi látið fróða menn segja mjer það, að t. d. enskir dómstólar byggi mjög á hefð, og það er víst, að þeir vitna mjög í eldri dóma. Og í mörgum viðskiftamálum Englendinga er alls ekki um nein lög að ræða, sem dæmt er eftir, heldur viðskiftavenjur. Reglan er því sú, í því gamla menningarlandi, að alloftast byggja dómstólarnir dóma sína á eldri dómum, en vitna mjög sjaldan í lög. Ensku dómstólarnir hafa því skapað rjettarfarið í landinu; þeir hafa skapað hefð í staðinn fyrir lög.

Og þetta sama ættum við að reyna. Og jeg hefi þá trú, að það mundi takast, að þessi dómstóll skapaði heilbrigða hefð, sem byggja mætti á, er stundir líða.

Hitt nær vitanlega ekki neinni átt, að dómurinn eigi að helminga kröfurnar. Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) lýsti því, hvernig málspartarnir spentu oft kröfur sínar út yfir sanngirni, til þess að meðaltalið yrði þeim sem mest í vil. Sagði hann um kröfur vinnuveitenda, að þær væru „regindjúpt fyrir ofan alla sanngirni“, og má þá gera ráð fyrir ámóta öfgum hjá hinum aðiljanum, að kröfur verkamanna verði þá himinhátt fyrir neðan alla alla sanngirni. Við getum bara hugsað okkur kröfurnar nógu vitlausar á bága bóga: að vinnuveitendur t. d. heimti að verkamenn borgi með sjer 500 krónur á mánuði, þegar verkamenn setja upp 1000 króna kaup á mánuði. Hvaða skynsemi væri að hleypa slíkri vitleysu af stað, með því að taka upp þá venju, að helminga slíkar kröfur?

Nei, hjer er um að ræða að dómurinn fái þau gögn í hendur, sem hann þarf til þess að fella dóminn eftir. Hann verður að gera sjer ljóst, hvaða þurftarlaun verkamenn verða að hafa, til þess að sjá sjer og sínum farborða, og hinsvegar að rannsaka hag og rekstur útgerðarinnar, svo að upplýst verði, hvaða kaup atvinnureksturinn geti greitt, án þess að honum sje stefnt í voða. Og þessi rannsókn verður að framkvæmast án tillits til þess, hvaða kröfur aðiljar hafa gert. Og jeg hefi þá trú, að ef sanngjarnir menn og vitrir veljast í dóminn, þá muni þeim takast að skapa heilbrigða venju til þess að fara eftir.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði eitthvað á þá leið, að það væri svo sem ekki hann eða aðrir leiðtogar verkalýðsins, sem skapað hefðu andúð gegn frv., því á fyrsta fundi, sem haldinn var til þess að ræða þetta mál, hefðu sjómennirnir sjálfir risið upp úr sætum sínum, hver á fætur öðrum, og lýst sig mjög andvíga þeim þvingunarráðstöfunum, sem fælust í frv.

Þetta er ekkert að marka, því að þetta mál er alls ekki nýtt að þessu sinni. Jeg man t. d. eftir því, að þegar gerðardómsfrv. Bjarna frá Vogi var hjer á ferðinni, þá var jeg boðinn af Jóni Baldvinssyni á fund í Bárunni, þar sem mál þetta átti að ræðast. Þá voru margir verkamenn á báðum áttum til þess að byrja með, en hv. 2. þm. Reykv. útskýrði málið, sagði að það væri skylda verkamanna að vera á móti frv., og mjer varð það þá strax ljóst, að hann vann mikið á með ræðu sinni, að snúa hugum verkamanna frá frv. Og um þetta er ekkert að segja. Það vita allir, hvað æstir og málsnjallir leiðtogar hafa mikil áhrif á kjósendur sína. Alþingisrímurnar lýsa áhrifum ræðu Hannesar Hafstein þannig:

Hornstrendingum heldur brá,

hvítnuðu þeir í framan:

Kjósum Hannes Hafstein þá

hrópuðu allir saman,

— og þeir kusu svo Hannes.

Ef hv. þm. jafnaðarmanna hefðu lagt með frv., efast jeg alls ekki um, að annað hefði orðið upp á teningnum. Þá hefðu í hinum einstöku verkalýðsfjelögum verið samþ. áskoranir til Alþingis um að hraða þessu nauðsynjamáli.

Þá kem jeg að löngum kafla í ræðu sama hv. þm., er gekk að mestu út á það, að engin takmörkun væri sett af hálfu löggjafarvaldsins fyrir fjáröflun kaupmanna; þeir væru sjálfráðir um verðlagið á vörum sínum.

Jeg hefi áður minst á verðlagsnefndina, sem hjer starfaði fyrir nokkrum árum, og jafnaðarmenn voru mjög ánægðir með. En þegar hjer er stungið upp á annari verðlagsnefnd, þá á hún að vera þessi dæmalaus ófreskja. En um verðlag kaupmanna er það að segja, að þeir eru þar ekki einráðir, jafnvel þótt engin verðlagsnefnd sje. Það er annar aðili, sem þá ræður verðinu, og hann má sin mikils, sem sje hin frjálsa samkepni. Hún setur vægðarlaust hámarksverð á hverja vöru. Og það er þá fyrst, þegar eitthvað hindrar þessa frjálsu samkepni, að hætta verður á því, að kaupmaðurinn verði of einráður yfir verðinu.

Annars sje jeg mjer ekki fært að fara eins langt út í ræðu hv. 2. þm. Reykv. eins og þó hefði verið ástæða til.

Einkennilegt þótti mjer, er hann var að tala um, hvernig dómurinn ætti að vera skipaður. Hann sagði, að annarsvegar stæðu 2000 menn, en hinumegin aðeins 20, og eftir þeim hlutföllum ætti að velja í dóminn. Þetta veit jeg nú að hv. þm. hefir sagt gegn betri vitund. Mjer er sama hvort það er einn aðili móti miljón, ef þessir 2 aðiljar, sem deila, eru svo sterkir, að þeir geta látið þjóðfjelagið leika á reiðiskjálfi, þá kemur það ekki málinu við, hvort það eru margir annarsvegar en fáir hinumegin. Deilan verður að jafnast með jöfnum mannafjölda hvors aðilja, enda getur aldrei verið um samkomulag að ræða, ef fleiri menn eru kvaddir í dóm frá öðrum aðilja. Það er sama og að siga 100 mönnum móti einum og kveða svo upp þann úrskurð, að sá hafi rjett, sem sigrar.

Þá sagði hv. sami þm. (HV), að jeg hefði mikið rætt um skaðsemi verkfalla. Þetta er satt, jeg benti á, að verkföll væru alla jafnan til skaða fyrir þjóðfjelagið, og þetta játa þeir líka, hv. leiðtogar verkalýðsins. Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) sagði það berum orðum, að því væri alls ekki að neita, að margt verðmæti færi í súginn af völdum verkfalla. En að jeg hafi talað þar fyrir utan um skaðsemi verkfalla, því mótmæli jeg. Jeg hefi altaf verið með því, að verkamenn næðu rjetti sínum, og þykir vænt um, að þeir hafa fundið þetta vopn, verkföllin, til þess að knýja fram kröfur sínar, þegar á að beita þá óbilgirni. En þeim kröfum eiga verkamenn að fá framgengt án verkfalla og þess tjóns, sem af þeim leiðir. Verði frv. þetta að lögum, fá þeir allar þær kröfur sínar fram án bardaga, sem er stilt í hóf og eru viðurkendar rjettmætar, að dómi góðra manna og viturra. Hitt er líka auðsætt, að báðir aðiljar út af fyrir sig eru verst færir til þess að dæma um sínar eigin kröfur. Að ekkert geti skorið úr þessum deilum nema vald, eins og hv. 2. þm. Reykv. segir, er vitanlega fjarstæða. Jeg er á móti því, að hnefarjetturinn ráði, og vil að slíkur draugur sje kveðinn niður, enda vona jeg, að slíkt takist von bráðar. Í þessu máli á sanngirnin að dæma — og sigra. Það verður affarasælast fyrir alla þjóðarheildina.

Hv. 4. þm. Reykv. hafði það helst út á dóminn að setja, að hann mundi dæma útgerðarmönnum í vil. En slík staðhæfing er eins og hvert annað fleipur og sleggjudómur, sem gripið er til, þegar öll rök eru þrotin. Það var á honum að skilja, að hv. 2. þm. G.-K. og aðrir útgerðarmenn, kæmu með nokkrar kringlóttar, og mútuðu dómnum, en slík aðdróttun er ósæmileg og ætti ekki að heyrast af vörum þm. á hinu háa Alþingi. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að dómurinn mundi altaf dæma rjett. En ef dómi hans hallaði eitthvað, þá tel jeg sennilegra, að hann mundi í flestum ef ekki öllum tilfellum fremur ívilna verkamönnum en útgerðarmönnum. Og þetta byggi jeg á því, hvernig jeg hugsa mjer, að dómurinn mundi skipaður. Jeg geri t. d. ráð fyrir, að í honum verði embættismaður, og hans „tendensar“, — svo jeg noti nú útlent orð, eins og þessi hv. þm. (SÁÓ) — mundu eflaust stefna í þá áttina, að verkamenn fengi hærra kaup, því um leið væri það stuðningur embættismönnum í þeirra eigin kauphækkunarkröfum. Nú, það mætti líka hugsa sjer, að kaupmaður ætti sæti í dómnum. Hann mundi eflaust styðja rjettmæta kröfu verkamanna um hærra kaup. Með því býst hann við, að atvinna sín batni, er kaupgeta verkamannsins eykst. Það er því hagur allra, að verkamaðurinn sje ekki illa launaður. „The Gospel of high wages“, sem Ameríkumenn tala um, er ekki tóm ímyndun. Hátt kaup verkamanna er öllum til góðs, nema rjett þeim í svip, sem eiga að greiða það. Og þeir yrðu hjer ekki dómarar. Með þessu er jeg ekki að segja, að dómurinn hljóti að verða háður eigin hagsmunum að meira eða minna leyti. En ef persónuleg áhugamál dómenda komast inn í dóminn, þá tel jeg sennilegra, að það verði verkamönnum fremur í vil en útgerðarmönnum.

Þó að margt sje eftir að athuga af því, sem komið hefir fram í umr. á móti þessu frv., þá ætla jeg samt að láta hjer staðar nema að sinni. Andstæðurnar eru bæði stórar og miklar hjá andstæðingum frv. Sumir tala um nýja jörð og nýjan himinn. Það væri náttúrlega æskilegt, að sá draumur rættist, en því miður verður það varla á þessu þingi eða þeim næstu. Aðrir vilja láta knje fylgja kviði, og heimta að hnefarjetturinn ráði. Við hinir syndum mitt á milli. Við viljum ekki, að aflið ráði, heldur óskum við, að góðir menn og vitrir greiði úr þeim snurðum, sem ávalt hljóta við og við að hlaupa á í sambúð mannanna.