07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Bjarni Ásgeirsson:

Þessi umr. hefir nú farið svona nokkuð á víð og dreif, enn sem komið er. Þess vegna vona jeg, að mjer fyrirgefist, þó að jeg taki lítilsháttar hliðarhopp, áður en jeg geri grein fyrir atkv. mínu. Þó skal jeg taka það strax fram, að jeg ætla ekki að hjálpa hv. 1. þm. Reykv. (MJ) til þess að gera umr. þessa að eldhúsdegi.

Annars finst mjer, að engan þurfi að furða, þó að umr. fari á víð og dreif, þegar um jafn kynlegan kvist er að ræða og frv. þetta, er stendur rótum djúpt í mestu vandamálum þjóðarinnar. Þess vegna finst mjer ekki nema eðlilegt, þó að hv. jafnaðarmenn noti tækifærið til þess að skýra afstöðu sína til atvinnumálanna, er svo mjög snertir afkomu þess flokks, sem þeir eru fulltrúar fyrir.

En þó að umr. um þetta mál verði sennilega bráðum lokið, þá heldur hún samt áfram, því að næsta mál á dagskrá, sem er till. jafnaðarmanna um rannsókn á rekstri útgerðarinnar, er nákvæmlega sama eðlis.

Bæði málin eru tilraun tveggja aðilja að ráða bót á böli, sem hjer er um að ræða, og allir eru í raun og veru sammála um, að verkföll og verkbönn sjeu þjóðarböl.

Hv. jafnaðarmenn í þessari deild hafa mikið talað um það, hversu dýrmæt guðsgjöf verkföllin væru. Verður því að vísu ekki neitað, að þau hafa nokkru áorkað til hagsmuna fyrir verkalýðinn, og veitt honum styrk og stuðning í baráttunni fyrir bættum lífskjörum. Hafa þau smátt og smátt skapað verkalýðnum aðstöðu sem algildum aðilja í kaupdeilum öllum, og ber að taka þetta til greina. Á hinn bóginn verður því heldur ekki neitað, að reynslan hefir ávalt orðið sú, að þeir, sem á yfirborðinu hafa sigrað í slíkum kaupdeilum, hafa í rauninni beðið margfalt meira tjón en því nemur, sem áunnist hefir í hverju einstöku tilfelli. Þetta er í sjálfu sjer ofur eðlilegt, og er engin ástæða til að ætla, að út af þessu bregði í framtíðinni. Það hlýtur því að vera óskift áhugamál allra, sem láta sig nokkru skifta afkomu íslenskra atvinnuvega á komandi tímum, að eigi þurfi að grípa til slíkra úrræða, sem verkfalla eða verkbanna. Verkföllin eru bitur vopn og handhæg í mörgum tilfellum, en sem best væri að þurfa eigi að grípa til. Um þetta atriði býst jeg við, að flestir sjeu á einu máli. Hvað frv. því viðvíkur, sem hjer er til umræðu, þá get jeg ekki talið það lýti á því, þótt það geri ráð fyrir, að verkföll og verkbönn eigi sjer stað í framtíðinni, en hitt væri þó æskilegra, að það tækist að skapa það ástand, sem gerði allar slíkar ráðstafanir óþarfar. Jeg á hjer við það, að menn kæmu sjer niður á haldbetra fyrirkomulag á atvinnurekstri þjóðarinnar, einkum þeim stórtækari, svo sem togaraútgerð, og jeg vil síðar gera frekari grein fyrir, að slíkt fyrirkomulag er til, og gegnir það furðu, að menn skuli ekki hafa tekið það til athugunar í sambandi við þetta mál. Og jeg vil taka það fram þegar, að jeg álít þetta frv. enga lausn á þessu máli. En jeg get virt þann vilja og viðleitni, sem liggur að baki þessa frv. Mönnum er það ljóst, að hjer verður eitthvað til bragðs að taka, til þess að firra atvinnuvegina því böli, sem slíkar kaupdeilur valda. En misskilningurinn liggur í því, að sökinni er skelt á þá menn, sem aðild eiga í deilunum, í stað þess að gagnrýna skipulagið. Og það er ekki hinn minsti vafi á því, að það er skipulagið, sem er orsök allra þessara vandræða. Þess vegna er hin eina endanlega lausn breytt skipulag. Hinsvegar miðar þetta frv. að því einungis, að lappa upp á úrelt og óhæft skipulag. Er einsætt, að slíkt er ekki til frambúðar. Gallar skipulagsins munu ávalt fylgja því eins og skugginn manninum. En þó er ekki með öllu ómögulegt að finna megi ráð til að draga úr þessum göllum, og hefir nokkuð verið gert í því skyni. Má þar nefna milligöngu sáttasemjara samkvæmt lögum frá 1925. Í öðru lagi lögfestan gerðardóm eða vinnudóm, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Slíkt getur að vísu orðið til þess að milda stjettabaráttuna í bili, en ekki meira. Alt eru þetta aðeins bætur á gamalt fat. Eina varanlega lausnin er, eins og jeg hefi tekið fram, að gerbreyta skipulaginu. Og það mun sannast, að sú verður framtíðarúrlausn þessa máls.

Það hafa fallið þung orð á báða bóga í sambandi við kaupdeilu þá, sem nú er nýafstaðin, og í sambandi við þetta frv. Málið hefir verið rætt, bæði utan þings og innan, af miklum alvöruþunga og áhuga. Ræður að líkindum, að í slíku alvörumáli, sem um leið er hagsmunamál alls þorra manna, hafi mörg orð fallið, sem betur væru ótöluð, og sem lítt eru til þess fallin að glæða sáttahug aðilja deilunnar, hvors gagnvart öðrum. Jafnaðarmenn hafa verið kallaðir æsingaseggir og borið á brýn, að þeir eyðilegðu alla friðsamlega starfsemi, spiltu vinnufriðnum í landinu og vildu jafnvel atvinnuvegi landsins feiga, til þess að geta sjálfir síðar fleytt rjómann af öllu saman. Þessar ásakanir eru, sem betur fer, órjettmætar og óverðskuldaðar. Meðan þessum málum er svo háttað, að tvær stjettir manna, sem þó geta ekki án hvorrar annarar verið, glíma um afrakstur og arð atvinnugreinanna, þá segir það sig sjálft, að verkamenn verða að hafa sína fulltrúa, til þess að beita sjer fyrir hagsmunamálum stjettarinnar út á við. Og þessum mönnum er það bæði rjett og skylt að duga sinni stjett sem best og bregðast ekki því trausti, sem til

þeirra er borið. Og meðan skipulagið er þannig, að enginn fastur grundvöllur er til í kaupgjaldsmálum, og menn greinir á um, hvort miða beri við svokölluð þurftarlaun, eða t. d. afkomu atvinnugreinarinnar, þá er ofur eðlilegt að ætla, að sú harðvítuga togstreita um kaup og kjör, sem ávalt hefir átt sjer stað, muni ekki mildast til muna á komandi tímum. Svo má og geta þess, að t. d. jafnaðarmenn eiga þess engan kost, að afla sjer fullra upplýsinga um það, hvernig atvinnugreinarnar bera sig, t. d. togaraútgerðin, hvort hún sje fær um að greiða hærra kaup eða ekki. Þegar þessu er þannig varið, er það ekki óeðlilegt, þótt slíkar kaupdeilur verði sem áflog ósiðaðra manna. Enda er sú reynslan, að kröfurnar eru settar fram úr öllu hófi í byrjun, af beggja aðilja hálfu, í von um, að geta á þann hátt fremur komið áleiðis málum þeirra manna, er að þeim standa.

Hvað útgerðarmenn snertir, þá er sama álasið í þeirra garð. Þeir eru kallaðir böðlar verkalýðsins og blóðsugur, er eigi skeyti um, þótt verkamenn svelti og fjölskyldur þeirra veslist upp af klæðleysi og hungri. Þessar aðdróttanir eru jafn órjettmætar. Það er skylda útgerðarmannanna að gæta þeirra fyrirtækja með forsjá og trúmensku, sem þeim er falið að veita forstöðu. Þeir hafa annara fje undir höndum, og ber að kappkosta um að láta það bera góða vöxtu. Þeir verða og að leysa af hendi skatta og skyldur til hins opinbera, svo að þegar aðstaða þeirra er athuguð til hlítar, verður það skiljanlegt, þótt þeir vilji halda fast utan um sitt. Og það er ekki mönnunum að kenna, þótt slíkar snurður hlaupi á sambúðina í þessum efnum, heldur er það skipulagið sjálft, sem á sökina. Og jeg held, að hv. 1. þm. Reykv. (JÓl) sje góð sönnun þess, hvílíkur vandi hvílir á þeim mönnum, er standa fyrir stórum atvinnufyrirtækjum undir núverandi skipulagi. Hann er að allra áliti, sem til þekkja, talinn einhver besti húsbóndi hjúum sínum og undirmönnum. Þó er nú svo komið, að skipulagið er gersamlega vaxið honum yfir höfuð. Hann verður að stöðva reksturinn á miðri vertíð og ræður ekki við neitt, varpar að lokum öllu upp á þing og stjórn, með þeim tilmælum, að það taki í taumana. Þannig horfir nú málið við, og dylst það engum, að hjer er brýn þörf viturlegra ráðstafana.

Nú vil jeg spyrja: Hvers vegna koma aldrei verkföll í landbúnaðinum, í smábátaútgerðinni, og aðeins að litlu leyti í línubátaútgerðinni. Svarið er eitt og ekki nema eitt. Í þessum atvinnugreinum er þeirri reglu fylgt, að eigandi og verkamaður eru sameinaðir í einni og sömu persónu. Í sveitinni vinnur bóndinn með fjölskyldu sinni að sameiginlegri velferð heimilisins. Þar er eigandi og verkamaður eitt og hið sama venjulega. Í smábátaútveginum hefir þeirri reglu verið fylgt frá fornu fari, að afla og arði hefir jafnóðum verið skift milli bátseiganda og háseta. Með slíku fyrirkomulagi fara saman hagsmunir beggja. Verkamaðurinn er um leið framleiðandi. Þetta hefir nú að nokkru leyti verið yfirfært í vjelbátaútveginn, og er mjer kunnugt um, hvernig það hefir gefist, t. d. í Keflavík og á Akranesi, og held jeg að mjer sje óhætt að segja, að það hefir gefist vel, enda hefir þessi atvinnugrein til þessa verið laus við það böl, sem stórútgerðin hefir átt við að búa, svo sem vinnutruflanir, verkföll og því líkt. Það getur því ekki farið hjá því, að stórútgerðin verður að sníða sitt skipulag eftir sömu grundvallarreglum, ef hún vill losna að fullu út úr því öngþveiti, sem hún nú er í. Og mig undrar það stórum, að þeir sem hafa rekstur stórútgerðarinnar með höndum, skuli ekki þegar fyrir löngu hafa gert háseta hluttakandi í hagnaði og halla útgerðarinnar. Þá væru hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna ekki lengur á öndverðum meiði heldur fjellu saman, og óneitanlega myndi það auka starfsgleði og starfshvöt hjá sjómönnum að finna, að þeir væru um leið eigendur, og að hagur atvinnugreinarinnar væri um leið þeirra hagur. Væri slík tilhögun vel fallin til framkvæmdar þegar í stað, og lægi þá beinast við að taka smábáta- og vjelbátaútveginn til fyrirmyndar, þó með þeim breytingum, sem eftir kringumstæðunum væru nauðsynlegar. Ef útgerðin og rekstur hennar kemst í það horf, sem jeg nú hefi gert grein fyrir, mun ekki þurfa að grípa til lögregluvalds eða annara þvingunarráðstafana, til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu. Hann mun þá koma af sjálfu sjer. En ef útgerðarmenn gera engar ráðstafanir í þessa átt, er jeg hræddur um, að bráðlega skelli yfir höfuð þeirra sú þjóðnýtingaralda, sem æ virðist rísa hærra og hærra með þessari þjóð. Og það vil jeg taka fram, að eftir því óska jeg ekki. En jeg vil ítreka þau tilmæli mín til hv. deildar, að hún athugi málið frá þessari hlið, því jeg get ekki sjeð betur, en að eina leiðin út úr þessu öngþveiti sje að finna rjettlátara skipulag. Og slíkt skipulag er til, svo að ekkert tálmar nema skilningsleysi aðilja.

Í fyrra lá fyrir þinginu málaleitun frá Samvinnufjelagi Ísfirðinga um styrk til að koma á fót útgerð á hreinum samvinnugrundvelli. Framsóknarflokkurinn sýndi fullan skilning á málinu og ljeði því fylgi sitt. Honum var það ljóst, að enda þótt þá væri ekki um verkfall að ræða, gæti þó slíkt skollið yfir þá og þegar, ef engin breyting væri gerð á rekstrarfyrirkomulaginu. Flokknum var það og ljóst, að hjer væri loks fundið skipulag, sem gæti firt sjávarútveginn því böli, sem af hinum sífeldu kaupdeilum leiðir. Og ef hv. 1. flm. þessa frv. vildi taka sjer Ísfirðinga til fyrirmyndar, þá myndi hann ekki þurfa að flýja á náðir þings og stjórnar til þess að skerast í leikinn í hans eigin atvinnugrein.

Nú segir það sig sjálft, að slík breyting á skipulaginu, sem hjer ræðir um, þarf sinn tíma og skeður ekki í einu vetfangi. Það getur því oft verið óhjákvæmilegt að skerast í leikinn og jafna deilumálin um leið og þau steðja að. Með tilliti til þess, getur þetta frv. verið fullkomlega rjettmæt tilraun til bráðabirgða úrlausnar. Það ætti ef til vill að setja þessa stofnun, sem hjer um ræðir, í samband við sáttasemjarastarfið, og tæki hún þá við að honum frágengnum. En þó má enginn halda, að í því felist nokkur endanleg lausn.

Menn hafa gjarnan talað um þetta frv. sem einskonar biblíu, sem bæði meðmælendur og andstæðingar hafa tíðum vitnað í, máli sínu til stuðnings.

Þó er því nú svo varið, að flestir meðmælendur frv. hafa að einhverju leyti fett fingur út í meginmál þess. Afstaða manna er mjög á reiki. Þeir segjast ekki leggja áherslu á hið mælta mál frv., heldur andann, sem þessi ritning er innblásin af. Má því af líkum ráða, að næsta erfitt er að handfjalla slíkt mál. En það má hiklaust telja á misskilningi bygt, að þetta frv. geti ráðið nokkra skjóta og endanlega bót á vinnu- og kaupdeilum. Slíkt yrði ávalt að gera með einhverskonar þvingun af hálfu hins opinbera, þannig að báðir aðiljar sjeu neyddir til að hlýða. En slíkt yrði í þessu tilfelli með öllu óframkvæmanlegt. Þeim aðilja, sem þættist misrjetti beittur, kæmi eigi til hugar að hlýða úrslitum dómsins, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis. T. d. yrði ómögulegt að skylda sjómenn til að vinna, ef þeir vildu það ekki sjálfir. Sama er að segja um útgerðarmenn. Enginn gæti rekið þá út með skipin nauðuga. Slíkur vinnudómur, jafnvel þó lögþvingaður sje, getur því á engan hátt greitt úr því öngþveiti, sem í væri komið, nema að því leyti, sem báðir aðiljar yrðu ásáttir um. Að hinu leytinu, ef hjer er ekki um úrslitadóm að ræða, heldur um framhaldandi sáttatilraunir, þá hefi jeg mun meira álit á frv. Og í því trausti, að takast megi að sjóða upp úr því eitthvað nýtilegt í þessa átt, mun jeg fylgja frv. að svo stöddu. En jeg vil að lokum undirstrika það, að í frv. felst engin lausn, jafnvel þótt svo gæfulega tækist til, að aðiljar sættu sig við úrslit dómsins í bráð. Hin eina endanlega lausn þessa máls, framtíðarúrlausnin, er gerbreyting skipulagsins.