07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Haraldur Guðmundsson:

Það er orðið ljóst, að hjer er alls ekki verið að ræða af hálfu flm. um frv. sjálft, heldur einhverjar óljósar hugmyndir í hugum formælenda þess og sínar hugmyndirnar hjá hverjum þeirra. Frv. sjálft er sæmilega skýrt. 1. gr. þess ræðir um, um hvað dómurinn skuli dæma, 4. gr. um það, hvernig hann skuli skipaður, og 10 gr. ákveður, að aldrei megi gera verkbann eða verkfall, áður en deilumálin koma til aðgerða sáttasemjara og ekki heldur meðan sáttatilraunir standa yfir eða málsmeðferð hjá dómstólum. Og dómnum ber að hlýða segir 7. gr. Samt sem áður halda formælendur frv. því fram, að ekki sje bannað að gera verkföll. Þeir eru allir undantekningarlaust búnir að halda því fram, svo að ætla mætti, að þessum ákvæðum verði breytt í nefnd. Þá yrði eftir dómstóll, sem dæmir um vinnukjör án þess að hinir dæmdu sjeu skyldugir til að hlýða dómnum. — Fæ jeg ekki sjeð, að „friður“ sje trygður með því.

Jeg verð að segja, að eins og nú er orðið áliðið nætur, er það nærgætnislegt af hv. þm. Dal. að fara að segja hjer í annað sinn skáldsöguna um sjómanninn, sem hann mætti á götunni einn morgun. Jeg veit að hv. þm. er skáldmæltur vel, og jeg vil ráðleggja honum að láta prenta þessa sögu sem fyrst, svo að sem flestir megi njóta hennar, en hlífa þingdeildarmönnum við að heyra hana oftar. — Hann, sem er svo spar á landsfje, ætti ekki að láta margprenta hana í þingtíðindunum.

Hv. þm. Vestm. (JJós) lagði nokkuð til málanna. Hann upplýsti það, að vinnudeilur og verkföll yrðu víðar en á togurunum og skýrði í því sambandi frá því, að í vetur hefðu nokkrir unglingar gert tilraun til að koma á verkfalli í Eyjum — en vitaskuld hefði það orðið alveg árangurslaust — sagði hann. Ef þetta eru aðalrök hv. þm. með frv. um gerðardóm í vinnudeilum, þá er ekki miklu til að tjalda.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hafa kvartað undan því, að jeg hafi verið vondur við þá í síðustu ræðu minni. Má hv. 3. þm. Reykv. sjálfum sjer um kenna. Jeg hefi það fyrir sið, að svara nokkurnveginn í sama tón og á mig er yrt, hver sem í hlut á. Hv. þm. hóf slíkar umræður. Jeg svaraði honum í sama tón og hefi þá ef til vill um leið komið óþægilega við kaun hv. 1. þm. Reykv. (MJ). Var það þó ekki ætlun mín, en vel skil jeg að viðkvæm sjeu honum bitlingakaunin. Út af starfi mínu í ríkisgjaldanefndinni fór hv. þm. líkt að og persóna, sem ekki má nefna hjer í hv. deild. Meðal annars fann hann það að starfi mínu þar, að ýmsir dálkar í ríkisgjaldaskýrslunni hefðu ekki verið lagðir saman. Þetta er helber misskilningur hjá hv. þm. Allar niðurstöðutölurnar eru í samandreginni heildarskýrslu aftast í fyrra hefti. Það sem ekki var lagt saman, var skrá yfir ýmiskonar greiðslur af opinberu fje til einstakra manna, svo sem laun, uppbætur, skrifstofu- og ferðakostnaður o. fl. o. fl. En þar var um svo gerólíkar upphæðir að ræða, að það var ekkert vit að ganga öðruvísi frá því en gert var.

Hv. þm. Borgf. komst svo að orði, að verkföll væru ekki bönnuð með frv. þessu, þótt tilgangur þess væri að koma í veg fyrir þau. Sjómenn yrðu aldrei fluttir í handjárnum um borð í skipin. Og þeim væri heimilt að leita sjer vinnu annarstaðar. Setjum svo að þetta sje meining hans, þótt frv. segi annað. Hvar eiga þá þessar þúsundir manna að fá vinnu? Er nokkurt útlit fyrir það, að þeir geti fengið vinnu, ef þeir ekki vilja vinna hjá útgerðarmönnum? Dómurinn gildir. Kaupgjaldið er ákveðið. Þessir menn eiga því ekki nema um tvo kosti að velja: Svelta eða láta undan. Hv. þm. Vestm. talaði um að með frv. væri gerð tilraun til að „skipuleggja deilurnar“. Þetta er nógu sniðuglega að orði komist. Við jafnaðarmenn viljum skipuleggja atvinnuvegina, til þess að þeir verði öflugri og afkastameiri. Á sama hátt vill hv. þm. skipuleggja deilurnar, svo að þær verði enn þá öflugri og harðvítugri. Hv. þm. hefir ratast rjett á munn. Frv. stefnir í þessa átt.