07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Þar sem nú er liðið á nótt mun naumast gustuk að vera langorður, þótt mörgu sje að svara.

Hjer hefir nú verið barist í 3 daga, hinum heilaga bardaga fyrir friðnum í landinu, bardaganum gegn verkföllum til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu. En það undarlega hefir þá skeð hjer í hv. deild, að gert hefir verið verkfall til þess að tryggja vinnufriðinn í deildinni. Hæstv. dómsmrh. hefir ekki látið sjá sig í deildinni þessa dagana. Jeg er þess fullviss, að hæstv. fors. hefði ekki reynt að ljúka þessari umr. í nótt, ef þetta verkfall hefði ekki verið gert.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) sagði, að það mælti með dómi, ef hægt væri að sanna, að kröfur þær, sem aðiljar bæru fram í kaupdeilum væru svo öfgafullar, að ekki væri hægt að sættast á þær. Þetta er rjett. Jeg skal nú játa, að fjelag það sem hann fer með forustuna í, hefir ekki nýlega borið fram mjög öfgafullar kröfur. En hins vegar hefir verið upplýst hjer í deildinni af báðum aðiljum, að sjómenn og útgerðarmenn hafi oft borið fram öfgafullar kröfur, og er þá fengin sú sönnun fyrir ágæti dómsins, sem hv. þm. fer fram á. Þá vildi hv. þm. vefengja ágæti dóms, af því að í dóminn mundu veljast menn af „borgaralegri stjett“. — Jeg veit nú ekki hvað hv. þm. á við, en þykist þó skilja, að þessi mótmæli sjeu á litlum rökum bygð, sjeu aðeins venjulegt aðkast hv. þm. til allra þeirra, sem ekki eru sósíalistar.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði í 2 klst. En ræða hans öll var þess eðlis, að ekki þurfti aðra en hann sjálfan til að andmæla henni. Hann gerði eiginlega enga tilraun til að ræða það frv., sem hjer lá fyrir. Ræðan snjerist um verkföll og sögu þeirra í nútíð og fortíð rjett eins og til umræðu væri saga íslenskra verkfalla, en kom ekki nærri máli því, sem fyrir lá. Þó er máske rjett að víkja að einni firru hv. ræðumanns. Hv. þm. skildist, að það væri hlutverk sáttasemjara að fara meðalveg um kröfur þær, sem fram kæmu frá kaupdeiluaðiljum. Þegar t. d. á milli ber í kaupgreiðslu 50%, þá lítur hv. þm. svo á, að það sje skylda sáttasemjara að koma fram með till. mitt á milli, eða 25%. Jeg veit nú ekki eftir hvaða reglu þetta ætti að vera svo, nema það væri sú „að fáir ljúga nema helming“. Eða hvað á hv. þm. við? —

Hv. þm. Ísaf. sagði, að jeg hefði sagt, að friðsamleg samtök væru vopn verkamannanna, en verkföllin væru vopn leiðtoganna. Það er rjett. Þetta sagði jeg. Hv. þm. vildi halda því fram, að friðsamleg samtök hefðu enga þýðingu, ef verkfallsvopnið væri tekið úr höndum verkamanna. — En þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Fjelagsskapur verkamanna verður ávalt voldugur aðili í vinnudeilum og það alveg jafnt þótt frv. þetta nái lögfestu. Gangur málsins verður sá, að fyrst reyna aðiljar sjálfir samninga. Þá tekur sáttasemjari við. Og dugi það ekki, þá fer málið í óhlutdrægan dóm. Og það væri fjarstæða að segja, að máttur samtakanna sje brotinn, þótt verkfallsvopnið sje um stund tekið úr höndum leiðtoganna.

Hv. þm. vildi sanna vanmátt friðsamlegra samtaka með því, að í nýafstaðinni kaupdeilu hefðu sjómenn ekkert fengið, ef þeir hefðu ekki átt verkfallsrjettinn. Hásetar hefðu því grætt á verkfallinu. En það má alveg með sama rjetti segja, að útgerðarmenn hafi grætt á verkfallinu. Það má nefnilega eins halda því fram, að ef verkfallið hefði ekki verið gert, þá hefði engin tilslökun fengist á þeirri 57% kauphækkun, sem hásetar fóru fram á, en eins og menn vita var að lokum sæst á 15% hækkun. Ef hugur fylgir máli hjá hv. jafnaðarmönnum, að nauðsynlegt sje að rannsókn fari fram á útgerðinni, þá ættu þeir að fylgja frv. Að vísu hjelt hv. þm. því fram, að sú rannsókn, sem dómurinn gerði, kæmi ekki almenningi til vitundar. En það er rangt. Dómsniðurstaðan færir almenningi vitneskju um hag útgerðarinnar. Og það ætti að vera ákjósanlegust og sanngjörnust leið fyrir alla, að fá óhlutdrægan dóm um vinnulaun, sem byggist á hag útgerðarinnar.

Hv. þm. Ísaf. taldi það fjarstæðu, að leiðtogar háseta hefðu haft áhrif á atkv. þeirra. Þeir hefðu greitt atkv. á skipum sínum langt úti á sjó og því verið fjarstaddir foringjunum. Það er nú að vísu rjett að í fyrra skiftið voru margir sjómannanna úti á sjó. En ætli þeir hafi samt ekki verið búnir að drekka í sig öfgarnar úr Alþýðublaðinu. Ef það blað er ekki með öllu áhrifalaust, hlýtur það að hafa ráðið miklu um úrslit atkvæðagreiðslunnar. Síðari atkvæðagreiðslan fór svo fram undir handarjaðri og handleiðslu leiðtoganna, svo það er síst ofmælt, að þeir hafi miklu eða mestu ráðið um atkvæði sjómanna.

Þá vjek hv. þm. að því, að rangt væri að kenna sjómönnunum um verkfallið. Ef þeir hefðu samþ. till. sáttasemjara, þá hefðu útgerðarmenn eftir sem áður neitað og notað tækifærið til þess að koma kaupinu enn lægra. En í greinum eftir þennan sama hv. þm., sem birst hafa í Alþýðublaðinu hefir nú staðið hvað eftir annað, að útgerðarmenn hafi eingöngu felt till. sáttasemjara af því þeir vissu, að sjómenn hefðu felt hana. Það er nú erfitt að eiga rökræður við aðilja, sem segja svona sitt á hvað, alt eftir því, sem þeir telja sjer hagkvæmast í það og það skiftið.

Þá hafði jeg sagt í fyrri ræðu minni, að samningaleiðin yrði æ torsóttari. Þetta vildu hv. jafnaðarmenn skilja svo, að jeg hefði átt við meiri samheldni og ötulli framgöngu í þeirra flokki. En þetta er ekki rjett. Sannleikurinn er sá, að samningsaðiljar háseta síðari árin hafa verið verri og verri og fara síversnandi. Þetta hljóta allir að geta skilið, sem hafa heyrt þessa tveggja tíma ræðu hv. 1. þm. Reykv. (SAÓ), formanns hásetafjelagsins. Halda menn að það sje gaman að fást við samningsgerðir við svoleiðis mann, sem malar og malar og aldrei kemur nærri efninu. (SÁÓ: Hv. 2. þm. G.-K. er alveg hættur að koma að samningum sjálfur!) Ekki er það nú rjett. En það er eðlilegt, að jeg sje farinn að þreytast á því.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sagði í garð jafnaðarmanna, að það væri leiðinlegt að eiga í deilum við slíka óvita um þessi mál. Þetta þótti hv. jafnaðarmönnum ofmælt. En jeg vil nú samt benda á, að svo var ekki með öllu. Hv. þm. Ísaf. sagði, að það kæmi fyrir, að togararnir væru ekki gerðir út lengur en 2 mánuði ársins, og að þeir hefðu verið látnir hætta í aprílmánuði. Slíkt er nú hin mesta fjarstæða, eins og allir vita, sem til þekkja. Það væri eitthvað svipað því, að bóndi hætti heyskap í miðjum túnaslætti. Aprílmánuður er tvímælalaust besti mánuður útgerðarinnar. Og af afrakstri þess mánaðar verða vextir og fyrning togaranna að greiðast.

Þá fór hv. þm. Ísaf. þeim orðum um hv. 3. þm. Reykv., að allan sinn auð og velgengni hefði hann dregið frá alþýðunni. Það væru spænir og bitar úr aski sjómannanna, eins og hann orðaði það. — Þetta eru algerlega ómakleg orð. Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) er gæfumaður. En hann hefir verið sinnar gæfu smiður. Og hann hefir orðið fleirum að liði en sjálfum sjer. Hann er fæddur í fátækt, en hefir með góðum hæfileikum, dugnaði og þrautseigju unnið sig upp. Hann byrjaði sjómensku sína á seglskipi og fjekk þá hæst 600 kr. í laun á ári. Þetta var sú aðstaða, sem framkvæmdamennirnir þá höfðu skapað vinnuorku sjómannanna. Þetta hefir nú breyst mikið síðan, ekki síst fyrir atbeina hv. 3. þm. Reykv., því að hann má telja einn forgöngumanninn á þessu sviði. Og nú hefir kaup sjómannanna tífaldast vegna þessarar starfsemi. — Það má máske með sanni segja, að hv. 3. þm. Reykv. hafi sjálfur auðgast á dugnaði sínum og hagsýni. En efni hans eru ekki nema örlítið brot af því, sem aðrir hafa hlotið vegna aðgerða hans. Jeg ætla ekki með því að segja, að sjómenn hafi ekki unnið vel. En þeir hefðu bara ekki fengið sama tækifæri til þess, hefði hv. 3. þm. Reykv. og hans líkar ekki skapað þau.

Og slíka menn telja jafnaðarmenn til óþrifa í þjóðfjelaginu! — Jeg er í sjálfu sjer ekkert á móti stjórnmálastarfi jafnaðarmanna. En þessi vopn, sem þeir nota, eru einhver hin verstu, sem notuð eru í baráttunni milli einstaklingsframtaksins og þjóðnýtingarstefnunnar. Þeir ganga á milli manna og stjetta, sem hagnast hafa fyrir gagnkvæman atbeina, og ala á rógi og öfund til þeirra manna, sem eitthvað eiga, segjandi: Alt, sem hann á, er frá þjer tekið. Og þar sem því er nú svo varið, að jafnan er auðalið á öfund og tortrygni, þá er ekki að undra þótt talsvert af verkamönnum fylgi þeim fulltrúum, sem slíkum vopnum beita. — Hv. þm. Ísaf. þarf því ekkert að miklast af því, þótt jeg segi, að fulltrúar verkamanna hafi eignast ítök í mörgum verkamanninum, með því að slá á þessa lægstu strengi mannlegs eðlis. Þetta er þó enginn dómur yfir mjer, eins og hv. þm. vildi vera láta, heldur er það dómur um veikleika mannlegs eðlis. Hinu vil jeg svo jafnframt halda fram, að jeg eigi meiri ítök í hugum alþýðunnar heldur en þessir svokölluðu leiðtogar hennar. Það er dómur um ágæti mannlegs eðlis.

Hv. þm. jafnaðarmanna hafa haldið því fram, að útgerðarmenn hefi tekið ljónspartinn af afrakstri togaranna. En fyrst þeir halda þessu fram, þá ættu þeir líka að sjá, að þeim væri ávinningur að fá óhlutdrægan dóm um þessi mál. Í slíkum „óhlutdrægum“ gerðardóm, sem verður að dæma eftir mati, hljóta dómararnir ávalt að hafa tilhneigingu, og það alveg ósjálfrátt, til þess að dæma í vil hinum mörgu og lágt launuðu mönnum gegn hinum fáu, sem meira hafa, eða sýnast hafa, handa á milli. Það er því ekki hægt að berjast með þeim rökum gegn frv. þessu, að það verði verkamönnum til óhags. Það er bert, að mótstaðan gegn frv. er uppblásin af fáum mönnum, sem með æsingum og ósönnum málaflutningi hafa upphafið sig, en eru nú hræddir um að þeir muni missa völd sín, þegar æsingarefnið er frá þeim tekið.

Ýms rök hv. jafnaðarmanna hjer í deildinni hafa verið Alþingi til hinnar mestu vansæmdar og ættu aldrei að heyrast á Alþingi Íslendinga. Þeir hafa sagt, að verkamenn ættu einir öllu að ráða. Þeir hafa sagt, að ef lög þessi verði samþ., þá skuli þeim aldrei verða hlýtt. — Það er hart, að löggjafar skuli mæla slík orð. Þeir hafa sagt, að dómurinn myndi verða vilhallur og svívirða þar með lögmennina og hæstarjett, sem eiga að nefna í dóminn. Og loks segja þeir, að dómurinn muni láta stjórnast af mútum. — Þessi rök eru þeim sjálfum að vísu mest til skammar. En það er alþjóð til skammar, að hafa slíka menn á Alþingi.