07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jóhann Jósefsson:

Jeg man satt að segja ekki eftir því, að jeg spyrði hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) um nokkurn hlut í síðustu ræðu minni. En honum finst víst, þessum hv. þm., að hann sje sjálfur nokkurskonar lás fyrir allri visku, og til sín hljóti öllum fyrirspurnum að vera beint.

En jeg stóð aðallega upp til þess að lesa fyrir hv. þm. Mýr. (BÁ) og hv. deild þann kaflann úr ræðu hans á síðasta þingi, sem hann klígjaði sjálfan við að lesa. Hv. þm. er þar að tala um nauðsynina til þess að veita Ísfirðingum ábyrgðina, en kaflinn hljóðar svo:

„Jeg skal í þessu sambandi benda á það, að ekki alls fyrir löngu voru Gerðahreppi veittar 40 þús. kr. sem hallærislán. Nú eru íbúar Ísafjarðar 8 sinnum fleiri en íbúar Gerðahrepps voru þá, enda er upphæð sú, sem hjer er farið fram á, 8 sinnum hærri, svo að hlutföllin eru í fullu samræmi. Ef það var rjett á sínum tíma að veita Gerðahreppi þetta hallærislán, þá er það engu síður rjett nú að láta Ísafjörð njóta sömu hjálpar, til þess að forða honum frá að lenda í sömu fordæmingunni. Jeg fyrir mitt leyti er bjartsýnn á, að þetta fyrirtæki hepnist vel, en hinsvegar hygg jeg, að hallærislán hafi aldrei verið veitt með þeirri vissu, að þau yrðu endurborguð, enda væri óafsakanleg harðýðgi að setja það sem skilyrði, þegar það væri vitanlegt, að fólkið hryndi niður án þessarar ráðstöfunar. Jeg sje ekki annað en að það, sem farið er fram á, sje fyllilega sanngjarnt, hvernig sem á það er litið.“

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (BÁ) kærir sig um meira af þessu tægi, en jeg verð að segja það, að eftir þennan lestur finn jeg ekki mikið til þeirrar hirtingar, sem hann þóttist hafa veitt mjer áðan.