10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jón Ólafsson:

Það mun vera til lítils að hafa langar umr. um þetta mál, því það þykir sýnt, hvaða leið á að fara. Frv. kom fram 22. febr. Mánuði síðar skilar 1. minni hl., hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Skagf., nál. Eftir það bólar ekkert á málinu, nema það er stöku sinnum tekið á dagskrá, þar til minsti hl. n., hv. 2. þm. Rang. skilar nál. 30. apr., og daginn efir hv. 2. þm. Reykv. Þessi er afgreiðsla málsins í hinni virðulegu allshn., og gefur það til kynna, að hv. n. meiri hluti annaðhvort þori ekki eða vilji ekki afgreiða málið á ákveðnum grundvelli, heldur eru þeir að melta það með sjer í langan tíma, þar til alt er komið í öngþveiti. Mannlegra hefði þótt, að þeir hefðu komið hreint fram og sagt til, hvort þeir fylgja frv. eða eru á móti því. En í stað þess humma þeir málið fram af sjer af sýnilegri hræðslu við ráðandi hluta flokksins (þ. e. stjórnarfl.) sem sje jafnaðarmenn.

Jeg veit, að ýmsir af mínum flokksbræðrum eru ef til vill á móti þessu frv., þó það sje að vísu ekki hjer á þingi. En jeg hefi líka komist á snoðir um það, að þótt hv. 2. þm. Reykv. hafi hjer mjög hampað því, að vilji verkalýðsins stæði á bak við sig í þessum mótþróa gegn frv., þá er það síður en svo, því verkamenn vilja, að frv. nái fram að ganga. Þetta veit jeg af persónulegri viðkynningu við fjölda verkamanna hjer í Reykjavík og víðar.

Því hefir verið haldið fram, að þetta væri ekki örugg leið til að fyrirbyggja verkföll. En þetta mál er borið fram til þess, ef verða mætti, að það geti orðið spor í áttina til að fækka verkföllum og verkbönnum, því mörgum hrýs hugur við því böli, er af þeim leiðir.

Eins og jeg tók fram í upphafi ræðunnar þá á ekki við, er forlög frv. eru sjeð, að halda langar ræður, enda hefir það verið gert áður. En jeg verð þó að geta þess, að mjer þykja brtt. hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Skagf. allar til bóta. — Aftur á móti mætti fara mörgum orðum um nál. hv. 2. þm. Rang. Það er mikið að vöxtum, eins og við var að

búast, en sitthvað er nú í því, sem er loðið, og ástæða er til að fara nokkrum orðum um. M. a. kemst þm. að þeirri niðurstöðu, eftir tveggja mánaða umhugsun, að samkomulag væri sú leið, er allir gætu við unað. Og eftir öll heilabrotin kemur það upp úr kafinu, að frv. er ekki frambærilegt vegna þess, að aðrar menningarþjóðir hafi ekki farið svo langt, sem í frv. er gert ráð fyrir. Þó er þetta af þekkingarleysi sagt. Það er að vísu rjett, að fyrir þessu er ekki mikil reynsla fengin, en tilraunir þær, sem gerðar hafa verið með öðrum þjóðum, virðast þó hafa reynst vel eftir því, sem af er látið. Hv. þm. talar um, að hjer sje ekki til hervald, en aðeins veikt lögregluvald. En hafi hv. þm. komist til að fara í gegnum frv. og í gegnum 10. gr. þess, þá gat hann sjeð það, að ekki er ætlast til að þvinga menn með valdi til að vinna eða láta vinna. Það hefir ekki verið gert ráð fyrir slíku valdi í frv., og dómurinn verður aldrei framkvæmdur á þann hátt. En aðiljar mundu að sjálfsögðu þreyja þann stutta tíma, sem beðið er eftir dómsúrslitum. Eftir þann tíma getur hver farið sína leið. Hvort hann vill vinna eða hvort hann vil láta vinna kemur engum við.

Hv. 2. þm. Rang. er samt að hringsóla kringum þetta atriði og lætur enga ákveðna skoðun uppi á málinu í heild. Samt segist hann munu geta orðið með vinnudómi, „ef kaupkröfur verkalýðsins aukast alment og verkföllin magnast“. Þarna er eins og hann finni til þess, að eitthvað verði að gera, og viðurkennir að hann geti þó orðið með þessari úrlausn, og er þetta viðurkenning á ágæti frv. Jeg býst við, að reynslan hafi sýnt honum það, að vinnudeilur eru ægilegri nú en þær voru í hans ungdæmi, og af því gæti hann hæglega dregið þá ályktun, að síst myndi von á betri tímum í þessu efni. Ætti hv. þm. því að fallast á að gera nú þegar þær ráðstafanir, sem hann viðurkennir að muni verða þrautalending þessa máls.

Svo sýnist mjer nú sem ekki líti friðvænlega út fyrir næstu áramótasamninga, með því ástandi, sem nú ríkir í útgerðinni frá Reykjavík, bæði togveiðum og línuveiðum. Það væri betur, að menn væru þá svo skynsamir að hleypa ekki öllu í jafnmikinn voða og seinast. En margt sýnist benda til þess, að ekki sje minni ástæða að ætla, að menn komi sjer ekki frekar saman næst heldur en um síðustu áramót.

Eins og jeg tók fram í byrjun ræðu minnar, þá býst jeg við, að jeg láti þetta nægja að sinni. Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um það, að menn ættu að hafa rjett til þess að ráða vinnu sinni óskorað. Það er merkilegt, að hann skuli ekki hefa skilið, að þeir ráða henni engu síður, þó þeir hafi þetta aðhald, sem felst í frv. Það er þó öllu merkilegra, að hann skuli ekki minnast á það ófrelsi, er hann og foringjar jafnaðarmanna leggja á verkalýðinn, er þeir skipa fyrir um verkföll. Það er merkilegt, að hann skuli ekki minnast á það, er alllítill meiri hl. ákveður að hefja verkfall og gerir minni hl., hversu stór sem hann er, ófrjálsan þess að vinna. Mjer fyrir mitt leyti finst hvergi meira ófrelsi en einmitt innan þessara vjebanda, þar sem fáir menn er hafa enga ábyrgð og litla ábyrgðartilfinningu, reka menn úr vinnu sinni til þess, æði oft„ að svelta konu og börn þeirra. Og þetta finna reyndar forkólfarnir óljóst sjálfir. Því að eftir því, sem skilja mátti orð háttv. 2. þm. Reykv. (HV) áðan, þá er eins og flökri að þeim, forkólfunum, að gott sje að hafa einhverja löggjöf þessu viðvíkjandi, sem hægt sje að dæma eftir. (HV: Jeg sagði ekki til þess að dæma eftir.) Þetta hefir verið eitthvað óljóst fyrir háttv. þm. sjálfum, hvað hann vildi segja, og stafar það sennilega af því, að hann finnur, að hann er hjer að berjast á móti góðu máli gegn betri vitund.

Sama máli er að gegna um hv. 2. þm. Rang., því að það skín út úr nál. hans, að hann veit, að hann hefði betur mátt gera en hann hefir borið gæfu til. Hann vill því lofa góðu, ef viss skilyrði sjeu fyrir hendi, er hann telur að nú sjeu ekki, þó það sje nú samt svo, að þau skilyrði, sem hann meinar, sjeu nú þegar fyrir hendi. Það er mjög leiðinlegt, að hann skyldi ekki geta tekið hreina afstöðu til þessa máls, og verið annaðhvort með eða móti. Það mundi hafa orðið honum til gæfu og gengis, en nú hefir hann heldur kosið þessa leið, að haltra milli þeirra tveggja aðilja, er hjer deila.

Jeg get ekki sagt, að jeg sje sjerstaklega reiður þeim tiltektum Alþingis, að ætla að kæfa þetta mál. En jeg þykist viss um, að þeir tímar muni koma, er menn munu ekki gleðjast yfir því, hversu fálega þeir nú tóku þessu máli.