10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Jeg vil gjarnan verða við tilmælum hæstv. ráðh. um að lengja ekki mikið umræður um þetta mál, en hæstv. ráðh. gaf mjer tilefni til að standa hjer upp, því að margt var athugavert í ræðu hans. Hœstv. ráðh. gaf okkur alveg nýja lýsingu á því, hvernig þetta mál horfði við, og hver væri aðstaða flokkanna til þess. Íhaldið var með ofsa, jafnaðarmenn með ofsa, en Framsókn var hrein sem engill af öllu slíku, og friðsemin einkendi framkomu hennar. Það væri nú afsakanlegt, þótt menn væru farnir að gleyma gangi þessa máls, því að svo langt er liðið síðan það kom hjer fyrst fram í deildinni, en jeg held að jeg fari ekki vitlaust með, þótt jeg segi, að af 5 flm. þessa frv. voru 3 íhaldsmenn og 2 Framsóknarmenn, svo að Framsókn á þó altaf 2/5 af þeim öfgum, sem frumvarp þetta fer út í. Þessi friðsami flokkur á því sinn hluta. Þó er óhætt að fullyrða, að þeir tveir flm., sem þaðan eru, sjeu ekki af verri endanum. Það er skemtilegt fyrir okkur, sem erum fylgjandi þessu frv., að hlusta á, þegar andmælendur þess eru að búa til nýjar ástæður fyrir framkomu frv. og leggja í það nýjan skilning, sem flm. hefir aldrei dottið í hug. Ráðherrann fullyrti, að ef frv. þetta nœði lögfestu, yrði að taka þá, sem ekki vildu vinna samkvæmt gerðardóminum, og flytja þá út í skipin með valdi, og eins vœri það, ef útgerðarmenn vildu ekki láta skip sín ganga og greiða ákveðið kaup, þá yrði að taka þau af þeim, og gera þau út á ríkisins kostnað. En hjer er ekkert slíkt á ferðinni. Það var margtekið fram við 1. umr. málsins, að tilætlun frv. væri sú, að ef sættir reyndust árangurslausar yrði skorið úr deilunum með dómi, sem útgerðarmenn yrðu að hlýða, ef þeir kærðu sig um að gera út, og sem verkamenn yrðu að sætta sig við, ef þeir vildu vinna. Af þessu mundi leiða, að verkföll og verkbönn mundu falla úr sögunni, og þá væri komið í veg fyrir þann hnekki, sem atvinnulíf og efni þjóðarinnar bíður við slíkar deilur. Það er vitanlegt, að langar vinnudeilur spretta af því, að báðir aðiljar segja alt annað en þeir meina. Útgerðarmenn bjóðast til að gjalda ákveðið kaup, en verkamenn heimta meira, og svo berjast menn í þeirri tálvon, að hvor beygi annan. Þetta er sannleikur, er reynslan hefir leitt í ljós, en á þessu væri ráðin bót, ef gerðardómar væru settir á stofn. Jeg get rifjað nýjustu sönnunina upp fyrir hæstv. ráðh., og það er deilan nú í vetur. Verkamenn heimtuðu 60% hækkun, en útgerðarmenn komust upp í 10%. En þegar forsrh. lagði hönd á plóginn og sagði: nú gengur þetta ekki lengur, þetta verða síðustu afskifti stjórnarinnar af málinu — þá sættust menn, ekki upp á 60% hækkun og ekki heldur upp á 10%, en 17% eða minna en 1/3 af kröfum sjómanna. Engum, sem þekkir eðli þessa máls, getur blandast hugur um það, að það þarf enga ríkislögreglu, þótt frv. þetta nái fram að ganga, heldur þurfa menn að fá vissu fyrir því, að það hafi enga þýðingu fyrir þá að deila lengur, enda sýndu lok síðustu deilu það, að þótt hvorugur fengi uppfyltar kröfur sínar, urðu þó allir glaðir er deilunni ljetti, og skipin voru svo áköf að komast út, að það lá við árekstrum hvað eftir annað. Það er vitanlegt, að báðir aðiljar vilja forðast deilur og mundu taka þessum gerðardómi tveim höndum, ef menn gerðu ekki alt til að spilla fyrir honum og telja mönnum trú um, að hjer sjeu þvingunarlög á ferðinni, en það skal standa alþjóð ljóst, að svo er ekki, og þá munu þessir menn sanna, að það er til einskis að spyrna á móti broddunum, enda er þetta eina lausn málsins. Það er óþarft af hæstv. ráðh. að reyna að telja flokksmönnum sínum trú um, að þessir dómar muni verða gagnslausir eða gagnslitlir, því málið er nú að skýrast fyrir mönnum, svo að sannleikurinn verður ekki lengur dulinn.

Jeg efast ekki um, að hæstv. dómsmrh. gengur þess ekki dulinn, að alþjóð manna er þegar farin að átta sig á, hvílíkt þjóðaröryggi er fólgið í þessu, en honum er í nöp við það sökum þess, að jafnaðarmenn eru á móti því, enda hafa þeir eðlilega ástæðu til þess, og hæstv. ráðh. rennur blóðið til skyldunnar. Jafnaðarmenn fylkja sjer gegn þessu frv. af því, að þeir óttast, að besta vopn þeirra, verkföllin og verkbönnin, verði slegið úr hendi þeirra þannig, að þeir geti ekki efnt til æsinga meðal verkalýðsins, eins og þeir hafa gert til þessa. Hæstv. ráðh. vill þetta þarafleiðandi ekki heldur, en hann getur ekki farið út um sveitir landsins og sagt: „Við Framsóknarmenn vildum ekki rísa upp gegn jafnaðarmönnum“, og því kýs hann heldur að sigla undir fölsku flaggi. Hæstv. ráðh. er hygginn „agitator“ og því vill hann ekki hafa þetta vopn hangandi yfir sjer við næsta landskjör, og því getur hann ekki risið eins gegn þessu frv. og hann annars mundi gera. Þegar hæstv. ráðh. sjer, hver er þjóðarviljinn í þessum efnum, þá hopar hann, til frekara er ekki hægt að ætlast af honum. Það er rjett hjá hæstv. ráðh, að vonlaust er um, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og það var ekki laust við, að hann yrði klökkur og talaði um það eins og látinn vin. En hverjir eiga sökina á því? Framsóknarflokkurinn hefir eytt því með hæglátri mótstöðu, og hæstv. dómsmrh. á í því mestan þáttinn.