10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það var hálfgerður harmagrátur í einum hv. flm. yfir því, hvað málið hefði gengið seint hjer í hv. deild. Jeg vildi skjóta því að honum, að sætt er sameiginlegt skipbrot, því fleiri hafa undan þessu að klaga en hann. Jeg vil nú spyrja hæstv. forseta að því, hvað till. þeirri líður, er jeg og hv. flokksmenn mínir báru hjer fram í byrjun þings, því að jeg veit ekki til, að skilað hafi verið nál. um hana ennþá, en það getur skeð, að stóru flokkarnir í þinginu ætli sjer að láta hana daga uppi, af því að við jafnaðarmenn höfum borið hana fram. Þannig er því farið með fleiri mál, sem við jafnaðarmenn höfum borið fram, að þau hafa ekki komið ennþá til 1. umr. sum þeirra. Jeg harma ekki þótt þetta mál yrði svo síðbúið, enda virtist alger óþarfi að vekja það upp á ný, þegar 2 mánuðir eru liðnir frá því, er það fyrst kom fram, eins og hv. þm. G.-K. vjek að í ræðu sinni. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að verkamenn væru ekki mótfallnir gerðardómi, og kvaðst hafa átt tal við þá marga og hefði það ýtt frekar undir, að hann gerðist flm. að þessu frv. Segjum að þetta sje að einhverju leyti rjett, einhverjir hafi látið slík ummæli sjer um munn fara; en þeir hinir sömu verkamenn hafa þá

ekki látið hið sanna álit sitt í ljós við hann, ef til vill af ótta við mikilsráðandi atvinnurekanda. Verkamönnum er vel kunnugt, að betra er að tala gætilega í svona málum í áheyrn atvinnurekandanna, ef þeir eiga að halda vinnunni áfram. Jeg hefi líka átt tal við mjög marga verkamenn um þetta frv., og jeg get fullyrt, að það hefir vakið almennan ugg og ótta meðal þeirra. Frv. þetta er líka svo úr garði gert, að það væri hin mesta fásinna af hv. Alþingi að láta það ganga fram. Hegningar eru við lagðar, ef menn hlíta ekki gerðardóminum, eins og 8. gr. sýnir. Það er hægt að sekta þá, sem ekki vilja hlýða og setja þá jafnvel í fangelsi, en það er sama og að taka fyrir kverkar verkalýðsins og þvinga hann til að hlýða. (LH: Þessu má beita við báða aðilja.) Það kann vel að vera, að það líti svo út á pappírnum, en hvenær myndi þessum ákvæðum verða beitt gagnvart útgerðarmönnum? Slíkum lögum sem þessum er aldrei beitt við þá, sem peningunum og framleiðslutækjunum ráða, svo lengi auðvaldið hefir völdin. Hv. 3. þm. sagði, að það myndi ekki líta eins friðvænlega út um næstu áramót og nú, en jeg get ekki skilið hvað hann meinar með því, nema að það sje ætlun útgerðarmanna að rifta samningunum. (ÓTh: Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm.) Það fer vel á því, að foringi launadeilanna svari fyrir meðbræður sína. (ÓTh: Hvað ætla sjómenn að gera?) Jeg hygg, að þeir muni ekki segja upp samningnum, að óbreyttum ástæðum. Hv. 3. þm. Reykv. fór að rifja upp ýmislegt, sem stóð í sambandi við launadeiluna síðustu, og vildi halda því fram, að nokkrir menn hefðu ráðið því, að verkfallið stóð svona lengi, en það er ekki rjett hvað sjómennina snertir. Öll sjómannastjettin ákvað það með atkvæði sínu, hvaða kaupi og kjörum hún vildi hlíta. Öðru máli er að gegna með þá herra, útgerðarmenn. Það er kunnugt, að sjerstaklega tveir menn rjeðu mestu um allar þær ályktanir, er gerðar voru í þeirra herbúðum, og hugmynd þeirra var að ávinna eitthvað stórt og mikið með því að þröngva kosti sjómanna og þar með að lengja verkfallið. Jeg verð að segja það, að mjer virðist hræsnin vera farin að færast í aukana, þegar hv. flm. vilja láta líta svo út, að þeir beri fram þetta frv. af umhyggju fyrir verkalýðnum. Heyr á endemi! Miðar ekki öll þeirra starfsemi í þá átt, að tryggja fyrst og fremst sjálfa sig. Þetta frv. fer heldur ekki varhluta af þeirri stefnu. Nei, frv. er skjólgarður fyrir atvinnurekendurna, eins og líka var við að búast úr þeirri átt. Það er gripið til þessa ráðs, þá öll önnur vopn þeirra bila. Þegar þeir sjá, að verkalýðurinn hefir nú svo öflug samtök, að hann muni geta tekið meira í sinn hlut af þeim skerf, sem framleiðslan lætur þeim í tje, sem hreinan gróða, þá er þeim nauðsyn á að geta gripið til dómenda, sem flestallir yrðu úr sömu skúffunni, og látið þá ákveða launin. Undanfarin ár hafa þeir ekki hrópað á dómstól, meðan þeir höfðu þá trú, að þeir væru hinir sterkari í viðskiftunum. En þeir höfðu um langt skeið verið vanir því að hafa líf verkalýðsins í hendi sjer. En nú þegar þeir fara að sjá mátt samtakanna, þá byrja þeir að hrópa um vernd ríkisvaldsins sjer til handa.

Jeg býst við, að menn sjái, hver afleiðingin yrði af vinnudómi eins og þeim, er hjer um ræðir. Það þýða engin þvingunarlög í jafn viðkvæmum málum eins og kaupdeilur eru. Dómur, sem er skipaður eins og gert er ráð fyrir hjer, yrði yfirstjettardómur. Reynslan mun sýna, að verkalýðurinn hlýðir honum ekki. Og þá geri jeg ráð fyrir, að erfitt yrði að þvinga fram hlýðni með úrskurðum hans. Það mundi þurfa öfluga löggæslu til slíkra starfa — nýja ríkislögreglu auðvitað, og til þess munu refarnir skornir með þessu frv. í og með.

Besta lausnin er því sú, að frv. þetta mætti fara í gröf sína, með sem fljótustum dauðdaga, þó sársaukalaust yrði það ekki feðrum þess og velunnurum.

Þegar hv. 2. þm. G.-K. var að svara hæstv. dómsmrh., þá fljettaði hann ýmislegt inn í ræðu sína, sem meir var beint til okkar jafnaðarmanna. Hann gerði mikið úr fylgi frv. meðal þjóðarinnar. Væri því sjálfsagt, að málið næði fram að ganga. Jeg get frætt hann um það, að ekki hafa slíkar raddir heyrst frá verklýðssamtökunum. Verklýðsfjelög, jafnt utan Alþýðusambandsins sem innan, líta með ugg og ótta á frv. þetta. Það er því óhætt að segja, að vinnandi lýðurinn er eindregið mótfallinn frv. Hinn raunverulegi verkalýður landsins er meiri hl. landsmanna. Það er því röng ályktun hjá hv. þm., að frv. hafi fylgi meiri hl. landsmanna, um leið og það er hættuleg stefna hjá löggjafarvaldinu, að ætla að knýja fram löggjöf, sem vitað er um, að meiri hl. landsmanna er mótfallinn. Og það skýtur nokkuð skökku við, ef við förum að lögfesta hin hörðustu ákvæði um þetta efni á sama tíma og nágrannar okkar eru að fella úr gildi miklu vægari löggjöf, er fjallar um sama efni. Þess hefir verið getið í blaðafregnum, að Danir, sem búa við mikið vægari löggjöf á þessu sviði, ætli nú að afnema þau lög. Það er vitað, að norsku vinnudómslögin falla úr gildi í sumar, og býst enginn við, þar í landi, að vinnudómslög verði lögfest þar á ný. Þannig hafa slík lög reynst í því landi. En á sama tíma vilja íslenskir útgerðarmenn, íhalds- og afturhaldsmenn, koma á hjá okkur ennþá strangari vinnudómslöggjöf en nokkurn tíma hefir gilt hjá þessum nágrönnum vorum.

Jeg hygg, að málið sje nú orðið svo rætt, að engum blandist hugur um, hvaðan að því standa rætur. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það breyti skoðun nokkurs hv. þm., þó það væri rætt í alla nótt frá báðum hliðum. En hv. d. á að afgreiða málið á þessum fundi með þeirri röggsemi og festu, að flm. þess sjái sitt óvænna, og hreyfi því aldrei framar. Önnur meðferð þess er ekki deildinni samboðin.