10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í C-deild Alþingistíðinda. (2935)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurður Eggers:

Jeg hefi nú talað þrisvar í þessu máli; og háttv. 2. þm. Árn. kemur nú með tillögu um að vísa því til stjórnarinnar. Hversvegna? Háttv. jafnaðarmenn hafa talað svo um þetta mál, að það væri ofbeldi, ef Alþingi gerði það að lögum. Menn vita, hvað felst í vinnudómsfrv. Fyrst og fremst á að leita um sættir á milli aðilja, en sektir liggja við, ef verkfall og verkbann er hafið meðan á sáttaumleituninni stendur. Ef sættir ekki takast, á að leggja ágreiningsmálin í dóm og á meðan málið er undir dómi má heldur ekki hefja verkfall eða verkbann og liggja sektir við því. Aðaltrygging frv. felst í því, að góðir menn fá tækifæri til þess að fjalla um málin og kveða upp rökstuddan dóm um ágreiningsatriðin. Sá rökstuddi dómur mun skapa almenningsálit, sem örðugt verður að fara á móti. Þetta kalla jafnaðarmenn ofbeldi og ef til vill einnig sumir Framsóknarmenn. Sá mikli dráttur, sem orðið hefir á afgreiðslu þessa máls í þinginu, bendir á, að áhuginn sje ekki mikill fyrir því í stjórnarherbúðunum. Hvað geta menn þá búist við að stjórnin geri í málinu? Er þetta ekki einungis bragð til þess að breiða yfir þá óskiljanlegu aðferð stjórnarliða, að gera ekkert í þessu máli? Það er aðeins bráðabirgðatilraun til að losna við málið, að vísa því til stj. Mjer er ómögulegt annað en að líta svo á, að stjórnarflokkurinn hefði getað leitt málið til lykta á þessu þingi, ef nokkur alvara hefði fylgt því. Hjer er alls ekki um neina þvingun að ræða í frv., heldur á dómurinn að leiða til friðsamlegra úrslita í deilumálunum. Þessi framkoma stjórnarliðsins í málinu verður dæmd þannig, að flokkurinn þori ekki að leiða það til lykta af hræðslu við sósíalista, sem eru stuðningsmenn stjórnarinnar. Kemur þar í ljós hættan af þessu óheppilega sambandi á milli Framsóknar og jafnaðarmanna, þegar þetta góða mál þarf að eyðileggjast af völdum þess. Mjer fanst rjett að láta þetta koma hjer skýrt fram. — Að vísa þessu frv. til stj. er því sama og að steindrepa málið. Nú er stjórnarflokkurinn búinn að drepa málið á þessu þingi. Og hjer á Alþingi er auðvitað ekki hægt að koma fram ábyrgð gegn flokknum fyrir það. En það má vera, að kjósendur líti öðruvísi á málið, og fyrir þeim dómstóli þjóðarinnar verður stjórnin og flokkur hennar að lúta.