10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Magnús Torfason:

Jeg get ekki viðurkent, að stjórnin hafi gert neitt til þess að tefja þetta mál. Að vísu er það rjett, að það stóð alllengi á því, að bollaleggja um það frv., sem við hv. 2. þm. Rang. höfum flutt af hálfu stjórnarflokksins, og svo hafa ýmsar óviðráðanlegar ástæður orðið þess valdandi, að það hefir dregist um hálfan mánuð, að málið kæmi til umr. Jeg held því fram, að frv. okkar hafi komið nógu snemma fram til þess að það yrði afgreitt á þessu þingi, ef íhaldsflokkurinn hefði sýnt nokkurn lit á því að styðja það. Það hefir verið hlerað eftir því, hvort frv. fengi fylgi úr þeirri átt, en engin rödd heyrst, sem vildi hlynna að því. Sjerstaklega hefði jeg þó getað búist við, að hv. þm. Dal., sem mælti af miklum móði um þetta mál, hefði reynt að styðja það til samkomulags. Eftir því sem hann lætur, mætti ætla, að hann hefði viljað eitthvað gera; en jeg hefi ekki heyrt neitt frá honum um þetta mál, fremur en öðrum íhaldsmönnum. Ef þeir hefðu lagst á eitt með Framsóknarmönnum, að fylgja þessu máli, þá hefði það siglt hraðbyri gegn um þessa hv. deild og þingið yfirleitt.