10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Það er alveg rjett áframhald af framkomu hv. 2. þm. Árn. í þessu máli, þegar hann er að leika þann leik í umr. hjer í deildinni, að látast vera vinveittur málinu og vilja styðja það, og þar sem hann fullyrðir líka, að stjórnin sje málinu hlynt. Þetta er ekkert annað en fals. Við höfum haft hjer í dag annað mál til meðferðar, frv. um verkamannabústaði, þar sem hæstv. stj. studdi jafnaðarmenn. Þar var ekki verið að tefja fyrir. En hitt er aftur á móti vitanlegt, að hæstv. dómsmrh. hefir átt sinn mikla þátt í því, að draga þetta mál á langinn. Og þar sem sá dráttur er með öllu óverjandi, þá gerist þetta broslega, að hv. stjórnarflokksmenn koma hjer fram til að þvo hendur sínar. En það er sannkallaður Pílatusarþvottur.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að Íhaldsflokkurinn hefði ekki sýnt lit á því, að frv. hans og hv. 2, þm. Rang. næði fram að ganga. En hvað hafa þeir flutt? Það er þetta, að ef deiluaðiljar vilja af frjálsu samkomulagi ákveða eitt eða annað, þá skal það gilda. En þetta er ekki nýtt. Það þarf ekki að skipa því með lögum, sem deiluaðiljar koma sjer saman um.

Að vísa þessu máli til stj., er sama og að varpa því í opinn dauðann. Hv. 2. þm. Árn. hlýtur að vera það ljóst, að þess var ekki að vænta, að við íhaldsmenn gætum átt samleið með honum um að styðja tillögur hans, sem við álítum algerlega einskis virði til að fyrirbyggja vinnudeilur. Við höfum sagt okkar heila hug í þessu máli, og teljum að lögin um vinnudóminn geti orðið til gagns. Annars hafa umr. aðallega snúist um refsiákvæði laganna, ef dóminum yrði ekki hlýtt. Jeg er reiðubúinn að taka höndum saman við þá menn, sem vilja styðja vinnudóminn, þó að engin refsiákvæði liggi við því, að útgerðarmenn neiti að gera út skip sín, og að sjómenn neiti að vinna með þeim kjörum, sem dómur ákveður, enda höfum við íhaldsmenn frá upphafi lagt þann skilning í frv. Hitt er höfuðatriði í þessu máli, að þegar dómur er uppkveðinn, þá viti útgerðarmenn út frá hverju er að ganga, ef þeir vilja gera út sín skip: að borga það kaup, er dómurinn ákveður. Og sama er að segja um sjómenn, ef þeir vilja vinna. Þeir verða þá að vinna fyrir það kaup, sem dómurinn ákveður. Við útgerðarmenn erum líka reiðubúnir að ganga inn á að kauptaxti sá, sem dómur kveður upp, skuli aðeins gilda til reynslu — stuttan tíma, t. d. 2–3 mánuði. Jeg veit, að þá þarf ekki meira til að sætta báða aðilja við það.

Jeg býð jafnaðarmönnum þessa sætt og hæstv. dómsmrh., og öllum þeim, sem hafa reynt að leggja annan skilning í vinnudómsfrv. heldur en við höfum, sem styðjum það.