10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jörundur Brynjólfsson:

* Hv. þm. Ísaf. virtist taka sér til inntekta nokkur ummæli, sem jeg viðhafði í ræðu minni. Taldi hann sínum málstað mikinn feng í þeim orðum mínum, er jeg gat um það, að jeg hefði fyrirfram vitað, að annar aðilinn í vinnudeilunum mundi veita þessu frv. svo harðsnúna mótstöðu og meta vinnudóminn að engu, þá hefði jeg skoðað hug minn betur og athugað, hvort jeg ætti að flytja þetta frv.

Hv. þm. fer villur vegar, ef hann skilur þetta sem afsökun frá mjer fyrir því, að jeg hefi stutt að því, að þetta mál kom hjer fram, og telur að í þessu sje fólginn vinningur fyrir andstæðinga frv. — Jeg tók það skýrt fram, að það væri ekki hægt að vænta góðs af þeim úrslitum, sem dómurinn ákvæði, ef hugur verkamanna og sjómanna væri honum fjandsamlegur. En að í þessu sje fólgin viðurkenning fyrir því, að mótspyrnan gegn frv. frá hálfu jafnaðarmanna hafi gert gagn eða verið rjett aðferð, það er mjög fjarri sanni. Jeg tók það ennfremur skýrt fram, að jeg saknaði þess, að verkamenn skyldu ekki láta sjer ant um að fá niðurstöðu í kaupdeilumálum með öðru en stríðinu einu. Sú dýrkeypta reynsla, sem fengist hefir af stríðum og styrjöldum er þannig, að þær leiða aldrei til sátta. Jeg get ekki neitað því, hvað sem öllu öðru líður, að mjer finst jafnaðarmenn vanta einlæga viðleitni til þess að leita friðsamlegra lausna í vinnudeilum, og það er þeim þó vissulega ekki síður skylt en hinum aðiljanum. Vissulega má telja öllum jafnskylt að leita þeirrar úrlausnar, sem minstum sársauka veldur, en þó engum fremur en formælendum þeirra verkamanna, sem venjulega verða sárast leiknir í þessum atvinnustyrjöldum, þegar þær geysa til langframa.

Jeg er sannfærður um, að þær umr. og sá málaflutningur, sem fram hefir farið hjer í þessari hv. deild um þetta frv., er mikilsvert spor í áttina til þess að fengin verði heppileg úrlausn þessa máls. Mjer dettur ekki í hug, að það sje komið nærri marki, en í áttina liggja sporin, þó að úrslit fáist ekki á þessu þingi. Þó að úrræðin sjeu ekki fundin enn, þá vænti jeg svo góðs af verkamönnunum, að þeir leggi eitthvað fram til þess að fá sem heppilegasta lausn á þessu máli. Það er ekki aðeins nauðsyn, heldur er það skylt hverjum góðum dreng.

*Ræðuhandrit óyfirlesið.