10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Pjetur Ottesen:

* Jeg skal ekki vera langorður. En út af því, sem fram hefir komið, einkum í ræðu háttv. 2. þm. Árn., þar sem hann var að bera í bætifláka fyrir þann drátt, sem orðið hefir á þessu máli af hans völdum og tveggja annara í hv. allshn., vil jeg láta það koma fram í Alþingistíðindunum, hvernig gangur þessa máls hefir verið í þinginu: Frv. um dóm í vinnudeilum er útbýtt á Alþingi 22. febr.; tekið á dagskrá 25. febr., og þá tekið út af dagskrá. Sömuleiðis er málið tekið af dagskrá 26. febr. og 4. mars. Það er enn tekið á dagskrá 5. mars, og þá tekið til umræðu; en 7. mars var því vísað til 2. umr. og nefndar. Nefndaráliti minni hl. allshn. var útbýtt 23. mars, eða eftir 16 daga. Nú líður og bíður og loks 1. maí kemur nál. frá háttv. 2. þm. Rang. Og 2. maí, eftir 2 mánuði og 7 daga frá því að málið var borið fram í þinginu kemur nál. frá háttv. 2. þm. Reykv. Frá háttv. 2. þm. Árn. kom ekkert nál. Hv. þm. hafði ekki svo mikið við að skrifa nál. eins og venja er til, heldur bar hann fram till á annan hátt, og verður ef til vill vikið að því síðar. En sagan er ekki öll sögð enn þá. Málið er tekið á dagskrá 29. apríl, en er þá tekið út. Sömuleiðis 2., 3., 4. og 7. maí, en alt fer á sömu leið.

Rennur nú upp sá herrans dagur 10. maí, og lýsi jeg ekki þeirri sögu lengur.

Jeg gat þess áðan, að hv. 2. þm. Árn. (MT) hefði ekki skilað neinu nál. um málið, en í stað þess borið fram frv. ásamt hv. 2. þm. Rang. (GunnS) um breyting á lögum um sáttatilraunir í vinnudeilum, og var því útbýtt 26. apríl síðastliðinn.

Mun fæðing frv. hafa verið all ströng, enda þótt hv. þm. hafi ekki verið einn um tilorðningu þess, því að hæstv. stj. hafði verið þar með í ráðum, og eftir venju hennar hafa ekki allfáir sjerfræðingar verið kallaðir til aðstoðar.

Þó felst ekkert annað í þessu frv. en það, að ef þeir aðiljar, sem deila, koma sjer saman um að leggja málið í dóm, þá megi þeir það. Mjer vitanlega er ekkert til í lögum landsins, er hindri menn í að leggja mál sín í dóm, svo að öll þessi mikla fyrirhöfn er til einskis.

Jeg verð að segja það, að í ræðum hv. 2. þm. Árn. (MT), og þó sjerstaklega þeirri síðustu, hefir hræsnin og yfirdrepskapurinn, og mjer liggur við að segja blygðunarleysið, náð hámarki sínu, svo að hann jafnvel skammast sín fyrir. (Forseti hringir). Og því er það, að hann reynir að klína skömminni á aðra. (Forseti hringir). Hæstv. forseti þarf ekki að hringja, því að nú hefi jeg lokið máli mínu.