10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Gunnar Sigurðsson:

* Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að jeg ber enga ábyrgð á þeim drætti, er á málinu hefir orðið, og tek alls ekki á móti ákúrum fyrir þann drátt.

Ennfremur vil jeg leyfa mjer að geta þess, af því að gefið er í skyn, að hæstv. stj. hafi haft áhrif á drátt málsins, að hún hefir aldrei int að neinu slíku við mig.

Jeg hefi lýst minni skoðun á þessu máli, og álit að best sje fyrir alla, að það sje leyst á friðsamlegan hátt, enda virtist sem allir væru á þeirri skoðun frameftir í kveld.

Jeg tók undir það, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) sagði, að það væri aðeins stigmunur á frv. okkar og því, sem hjer liggur fyrir, og það er vissulega of langt farið hjá hv. þm. Borgf. (PO) að segja, að frv. okkar sje einskis virði. Ef báðir aðiljar leggja mál sitt í gerð, er vist að sá, sem ekki vill hlíta dómnum, hefir almenningsálitið á móti sjer. (ÓTh: En ef annarhvor aðilja vill ekki leggja mál sitt í gerð?). Þá kemur þvingunardómurinn til. Hitt er víst, að sá, sem neitar að leggja mál sitt í gerð, hefir almenningsálitið á móti sjer, og það mun, þegar alt kemur til alls, ráða svona málum best til lykta.

Annars get jeg ekki betur sjeð, en að þetta mál geti ennþá náð fram að ganga, ef afbrigði eru veitt til þess.

Hv. þm. Dal. (SE) hefir nú sem áður farið að tala um „dóm þjóðarinnar“ í sambandi við þetta mál. Jeg fer fyrst og fremst eftir mínu eigin áliti, hvað sem dómi þjóðarinnar líður. Hitt veit jeg, að Íslendingar eiga svo mikla heilbrigða skynsemi til að bera, að allur þorri þeirra mun óska þess, að slík mál sem þessi verði til lykta leidd á friðsamlegum grundvelli, og þá leið vil jeg ganga eins lengi og unt er.

Ræðuhandrit óyfirlesið.