10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Dal. (SE) stóð hjer upp og talaði með svo miklum fjálgleik, að jeg hjelt að heilagur andi hefði komið yfir hann. Hv. þm. gat þess með mörgum orðum, að Framsóknarmenn væru hræddir við jafnaðarmenn, og því reyndu þeir að tefja málið svo að það næði ekki fram að ganga. — Nú er hjer annað mál á döfinni, þessu skylt, sem borið er fram af jafnaðarmönnum, og hefir sannarlega ekki blásið byrlegar fyrir því en þessu — jeg á hjer við tillöguna um rannsókn á togaraútgerðinni. Eftir kokkabókum hv. þm. Dal. (SE) ættu Framsóknarmenn líka að vera hræddir við íhaldsmenn. — Alt er þá þrent er, segir máltækið. Vantar þá ekkert til þess að fullkomna fjarstæðurnar en það, að Framsókn sje líka hrædd við Frjálslynda flokkinn!

Ef um nokkra hræðslu er að ræða hjá Framsóknarmönnum, er það hræðsla við að knýja fram mál, sem er gagnslaust eða til hins verra. Og það er ósæmilegt af hv. þm. Dal. að ætla Framsóknarmönnum aðrar hvatir en þeir hafa látið fram koma í skýrum og ótvíræðum orðum, fremur en sjálfum sjer og sínum samherjum. (JÓl: En flm. frv.?) Á sama hátt og flm. hafa gert grein fyrir sinni skoðun, hafa andstæðingar málsins borið fram sin rök af engu minni einlægni og ekki fremur en þeir haft neitt að hræðast. Það má með engu minni rjetti geta þess til, að hv. þm. Dal. sje hræddur, hræddur við íhaldið — ef ekki á þinginu, þá íhalds kjósendur í Dalasýslu, og því þykir honum best að tvístíga við íhaldsmenn öðru hvoru og klappa þeim á vangann.