10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Jón Ólafsson:

Það eru aðeins nokkur orð, en þó ekki til þess að gefa mig í þá sömu iðju og nokkrir hv. þdm. hafa haft með höndum, að þvo aftur og aftur hendur sínar í þessu máli. Jeg sje nú, að þegar þessi þvottur er endaður, þá bregður hv. 2. þm. Reykv. (HV) á leik og lýsir því yfir, að hann muni fylgja því að vísa þessu máli til stjórnarinnar, því að öxin og gröfin geymi það best. Jeg veit nú ekki, hvaða sláturhús stjórnarráð Íslands kann að vera og ekki heldur hvaða gröf. En hitt vita allir, að þegar þetta mál kom fram, mun öxin hafa verið reidd að hálsi stjórnarinnar með þeim ummælum, að ef hún ekki hagaði sjer svo sem þurfa þætti, þá mundi öxin látin ríða að hálsi hennar, því að jafnaðarmenn höfðu einmitt öxina í höndum sjer. Þetta er ósköp afsakanlegt, en það, sem jafnaðarmenn sjá í málinu, og sem jeg skal viðurkenna að sje rjett hjá þeim, er það, að ef slíkt frv. sem þetta er gert að lögum, þá er alveg útilokað, að þeir geti haldið við sinni iðju, sem sje því valdi, sem þeir hafa til að ákveða slíkan ófögnuð sem verkföll eru. Jeg er alveg viss um, að sjómenn hefðu sætt sig við þá dóma, sem dæmdir hefðu verið í þessu máli. — Þess vegna er alveg eðlileg sú þvottariðja, sem margir hv. þm. hafa starfað að á þessu kvöldi.