10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ólafur Thors:

Það er aðeins í tilefni af síðustu orðum hv. 2. þm. Árn. (MT), sem jeg verð að segja nokkur orð. Hv. þm. benti á, að hjer hafi verið samþykt lög um sáttasemjara og spyr, hvort þau hafi ekkert gagn gert, og ætlast þá til, ef því er svarað játandi, að þá sýni það, að hans tillögur í vinnudómum sjeu gagnlegar. En jeg vil minna hv. þm. (MT) á það, að það er skylda að leggja mál sitt undir sáttasemjara, en það, sem við erum að leggja hjer til í þessu máli, það er einmitt að hafa skyldugerðardóm, en hv. þm. er eimitt að leggja til, að það sje engin skylda, heldur megi menn aðeins leggja málið í gerð, ef þeim komi saman um það. Jeg er ekki viss um, að það hefði orðið gagn að lögunum um sáttasemjara, ef ekki hefði verið skylda að leggja málin undir hann, og hræddur er jeg líka um, að það verði ekkert gagn að þessu frv. hv. þm.

Hv. þm. (MT) talaði um, að það væru mestu öfgamennirnir, sem væru með þessu vinnudómsfrv., en á móti hans tillögum. En það eru þó ekki meiri öfgamenn en hv. 1. þm. Árn. (JörB) og hv. þm. V.-Sk. (LH). Þeir hafa flutt frv., svo að öfgatalið fellur alveg á þá eins og okkur, sem styðjum það.

Hv. þm. sagði, að það mætti nota þetta mál sem kosningamál. Jeg er alveg sannfærður um það, að þessi langi meðgöngutími að þessum litla og ljóta vanburði hv. þm. stafar nokkuð af því, að þetta mál mun ekki verða álitið óviðkvæmt, þegar til kjósendanna kemur, enda vita það allir þm., að þjóðin mun hafa vakandi auga á því, sem hjer gerist í málinu. — Jeg hefi stundum sjeð menn, sem mjer hefir sýnst verða ljótari við að þvo sjer, sýnist mjer það sama hjer, að hv. þm. (MT) hafi ekki fríkkað við þvottinn.