02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

48. mál, vegalög

Halldór Stefánsson:

Á Lestrarstofu Alþingis liggur frammi þingmálafundargerð úr N.-Múlasýslu, þar sem borin er fram einróma áskorun um að tekinn verði í tölu þjóðvega vegurinn af þjóðveginum frá Eyvindarárbrú út á Unaós.

Þá liggur einnig fyrir ósk um slíka breytingu á vegalögunum frá þingmálafundi í S.-Múlasýslu. Jeg veit ekki hvort við, þingm. þessara kjördæma, hefðum ráðist í að bera þessar óskir fram einar fyrir sig. En fyrst farið er að „opna“ vegalögin og bera fram breytingar á þeim, þá munum við eigi komast hjá því, að bera fram þessar óskir kjósenda vorra.

Jeg skal svo ekki fara nánar inn á ástæður þessa máls að sinni, en býst við að gera það síðar þegar till. kemur fram.