04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

52. mál, útsvör

Hannes Jónsson:

Jeg vildi drepa nokkrum orðum á tvískiftingu gjalddagans. Jeg held, að út um sveitir landsins sje alment litið svo á, að tvískifting útsvarsinnheimtunnar hafi aðeins aukna fyrirhöfn í för með sjer. En þeir, sem að innheimtunni starfa, eru ekki svo vel launaðir, að rjett sje að leggja á þá fyrirhöfn að óþörfu. Mjer er kunnugt um, að í mínu hjeraði eru útsvör yfirleitt greidd í einu lagi, og þeir, sem skifta þeim, eru oftast þeir, sem síst þurfa þess með og minst ástæða er til að hliðra til við. Jeg mundi helst kjósa, að alt útsvarið væri greitt 1. júlí. Greiðsla útsvaranna færi þá fram í júnímánuði. Nú munu manntalsþing víðast haldin síðari hluta júnímánaðar, og þá ættu oddvitar að geta int af höndum helstu greiðslur. Að vísu má segja, að ekki skifti miklu máli, hvort gjalddaginn er 15. júní eða 1. júlí. En viðkunnanlegra finst mjer, að kærufrestur sje útrunninn, en það er ekki fyr en í júnílok, ef útsvörin eru ekki lögð á fyr en í maímánaðarlok, sem heimilt er samkv. lögunum.

Þá vil jeg og benda nefndinni á, að gera þyrfti breytingar á ákvæðum laganna um vaxtagreiðslur af útsvörum. Ákvæði laganna um þetta efni eru nú þannig, að ef útsvör eru greidd innan tveggja mánaða frá gjalddaga, fellur vaxtagreiðsla niður. Þetta er í raun og veru alveg sama og að færa gjalddagann aftur um tvo mánuði. Menn reyna að nota sjer þetta, einkum þó þeir, er síst þurfa, og gera sjer að reglu að inna enga skuld af höndum fyr en á síðustu stundu. Það er alveg sjálfsagt að fella annaðhvort vextina niður með öllu eða taka þá frá gjalddaga. Venjulegast er það trassaskapur eða önnur verri tilhneiging, sem veldur því, að útsvör eru ekki greidd í gjalddaga. Þó virðist rjett að oddviti geti gefið frest á greiðslu, ef sjerstaklega stendur á.

Jeg er á sömu skoðun og hv. 2. þm. Eyf. um það, að ýmsu þurfi að breyta í lögunum. Jeg mun þó eigi fjölyrða um málið að sinni en legg áherslu á, að gjalddagi í sveitum sje eigi nema einn og vaxtagreiðslan verði tekin til athugunar.