04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í C-deild Alþingistíðinda. (2973)

52. mál, útsvör

Flm. (Einar Jónsson):

Þótt við flm. færum ekki lengra í brtt. okkar við útsvarslögin en óskir kjósenda okkar gáfu tilefni til, þá bjóst jeg þó við því, að ýmsum öðrum hv. þm. mundi detta í hug hinar og þessar breytingar aðrar. Jeg er samþykkur hv. þm. Borgf. (PO) um það, að varla sje þó rjett að fara út í neinar grundvallarbreytingar á lögunum. En hinu hefi jeg síst á móti, þótt nefnd sje bent á ýms smærri atriði, er breyta þurfi. Hjer hefir verið bent á óánægju ýmsra með breytingu reikningsársins. En mín reynsla er sú, að menn sjeu farnir að venjast þessu og hætti því að þræta um það. Enda fer best á því, að hafa sama reikningsár um land alt, almanaksárið. Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) mintist á, að hann hefði ýmsar brtt. í huga, en gerði ekki nánari grein fyrir þeim, svo jeg skal ekkert um þær segja. Hann mintist þó á óánægju með reikningsárið, en sagðist þó ekki gera mikið úr því. Hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) ræddi mest um kærufrestinn. Getur vel verið rjett að athuga það. En breytingin á gjalddaganum þarf ekki að fara í bága við það, að lengja kærufrestinn, því samkvæmt lögunum er mönnum skylt að greiða útsvar sitt á gjalddaga, þótt þeir hafi kært, en er þá auðvitað endurgreitt, hafi úrskurður fallið þeim í vil. Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) var aðallega óánægður með að hafa gjaldagana tvo. Jeg get ekki fallist á að breyta þessu, því vafalaust mundi, eins og hv. þm. Borgf. (PO) tók fram, mörgum reynast ógreiðara að gjalda útsvarið alt í einu lagi. — Hv. þm. Borgf. virtist aðallega hafa á móti síðari brtt. okkar, að húsbændur beri ábyrgð á útsvörum heimilismanna sinna. En ákvæði það er nauðsynlegt og ætti ekki síst að ná til lausafólks. Virðist það engin knýjandi nauðsyn fyrir húsbændur að leyfa lausingjum að skrifa sig til heimilis hjá þeim, ef þeir geta ekki haft útsvarsborgunina í hendi sjer.

Sem sagt, jeg bjóst fyrirfram við ýmsum fleiri breytingum við lögin. En þess óska jeg, að ekki verði á þeim gerðar grundvallarbreytingar.