04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

52. mál, útsvör

Sveinn Ólafsson:

Jeg get ekki algerlega leitt svo hjá mjer þessa umr., að taka ekki til máls. Jeg var einn þeirra, er óánægðir voru með afgreiðslu útsvarslaganna 1926. Ekki tel jeg þó þeim atriðum laganna mest ábótavant, er hjer er farið fram á að breyta. Og mun það vafasamt, hvort rjettarbót yrði nokkur að þessum breytingum. En brýnasta nauðsynin er, að því er mjer virðist, á því, að fá breytt ákvæðum laganna um skiftingu útsvaranna milli hreppa, þegar gjaldþegn verður gjaldskyldur víðar en á einum stað. Vil jeg vekja athygli hv. n. á þessu atriði.

Út af fyrri brtt., sem hjer liggur fyrir, vil jeg taka það fram, að gjalddaginn, 15. júlí, er miðaður við þann tíma, er bændum er hentastur til greiðslu. Þá hafa þeir lokið sölu vorvörunnar. Hinir tveir eldri gjalddagar eru einmitt miðaðir við afurðasöluna vor og haust. Menn eiga þá hægast með peningagreiðslur. Held jeg vel ráðið, að þeir fái að haldast, og er því mótfallinn þeirri till. hv. þm. V.-Húnv., að hafa einungis einn gjalddaga. Síðari brtt. finst mjer litlu máli skifta, en líka óþörf. Getur það og verið viðurhlutamikið að leggja þá kvöð á húsbændur alment, að ábyrgjast gjöld heimilismanna, þegar los er jafnmikið á vinnulýð sem nú er orðið. Býst jeg við, að þeir yrðu oft ófyrirsynju ánetjaðir í hættulegum ábyrgðum, ef þetta yrði upp tekið.

Annars skal jeg ekki tefja tímann lengur, en geymi mjer frekari athugasemdir til síðari umr.

Frv. vísað til 2. umr. með 15:1 atkv. og til allshn. með 16 shlj. atkv.

Nefndarálit kom ekki, og frv. var ekki á dagskrá tekið framar.