13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

55. mál, fátækralög

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg hygg, að hv. þm. Barð. (HK) hafi hjer ekkert umboð til að tala fyrir hönd allshn. Jeg er sjálfur í nefndinni, og þegar frv. um breytingu á 21. gr. fátækralaganna var rætt þar, var ekki minst á aðrar breytingar. Þá vantaði og einn nefndarmann. Það má vera að meiri hl. n. verði mótfallinn þessu frv., en hitt hygg jeg rangt, að hún hafi viljað útiloka aðrar breytingar á fátækralögunum frá því að verða ræddar í nefndinni. Að minsta kosti er jeg fylgjandi breytingum á þeim lögum og þá eru þó ekki eftir nema 3 af 5 nefndarmönnum, er geta hafa tekið afstöðu í málinu.

Annars eru þau dæmi, er hann nefndi um hreppa, illa stadda vegna sveitarþyngsla, svo sem Auðkúluhrepp og Gufudalshrepp, einmitt meðmæli með frv. mínu. Frv. fer einmitt fram á, að jafna kostnaðinum milli hreppanna. Ef hv. þm. veit einhverja leið hagkvæmari en þá, sem í frv. er farin, þá ætti hann að benda á hana. — Hann mótmælti því, að enn ættu sjer stað ómannúðlegir fátækraflutningar. Jeg vil benda honum á nokkur dæmi, sem skýrt er frá í umr. 1927. Nýlega er og dæmi til þess, eins og skýrt hefir verið frá í blöðum, að kona var elt af lögreglunni suður í Hafnarfjörð til að verða flutt með valdi sveitarflutningi. Það getur stundum verið fólki fyrir góðu að komast í

heimahagana, en það koma fyrir þau tilfelli, að fólki er það óbærilegt að vera rifið upp með rótum frá þeim stöðum þar sem það dvelur.