08.03.1929
Neðri deild: 17. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

56. mál, ungmennaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Samkvæmt óskum hjeraðsbúa hefi jeg leyft mjer að bera fram, á þskj. 68, frv. til 1. um unglingaskóla í Vestmannaeyjum. Ástæður fyrir frv. þessu eru tilfærðar í grg. þess, en þó vil jeg minnast á einstök atriði til frekari skýringar.

Eins og kunnugt er, hefir Vestmannaeyja verið fremur gefið fyrir annað undanfarið en skólamentun og skólalíf, og lífskjör okkar Vestmanneyinga flestra, sem nú erum fullorðnir, voru þannig, að lítið tækifæri bauðst til mentunar. Náttúruskilyrði og baráttan fyrir lífinu krefst þess af unglingunum þar, að þeir snúi sjer óskiftir að athafnalífinu á þeim aldri, sem unglingar annars sækja skóla og á þeim tíma árs, þegar helst er hvíld í atvinnulífi manna annarsstaðar. En með bættum lífskjörum hefir sú skoðun rutt sjer til rúms, að nauðsynlegt sje að fá unglingaskóla. Nokkur vísir til slíks skóla hefir að vísu verið þar í 8 ár, og starfaði hann fyrst 3 mánuði en síðar 6 mánuði á vetri. En kenslukraftar og annar útbúnaður hefir verið takmarkaður, og þeir, sem vit hafa á, telja, að unglingaskóli komi eigi að gagni þar nema að hann sje að nokkru leyti sambærilegur við aðra skóla. Þetta frv. fer í þá átt, að skólinn verði svipaður því, sem frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir að hjeraðsskólar í sveitum verði, og markmið hans, eins og þeirra, sje að búa unglingana undir lífið með bóknámi og vinnukenslu.

Jeg er ekki skólamaður og hefi því ekki tekið fram í frv. hverjar námsgreinir skulu kendar. Ætti að ákveða slíkt í reglugerð í samráði við fræðslumálastjóra. Jeg vil aðeins taka það fram, að taka verður fullkomið tillit til þess, að staðhættir í Vestmannaeyjum eru allfrábrugðnir því, sem víða er annarsstaðar. Takmark bóklegrar og verklegrar fræðslu í skóla þessum yrði því að vera að undirbúa unglingana undir athafnalífið í Vestmannaeyjum sjerstaklega. Þess er ekki að vænta, að skólinn yrði sóttur af öðrum en Vestmannaeyingum. Að því er bóklegt nám snertir álít jeg, að móðurmálið og stærðfræði ættu að skipa æðsta sess. Af erlendum tungum tel jeg ensku heppilegasta, og auk þess yrðu þar svo kendar venjulegar námsgreinir, eins og venja er til í slíkum skólum.

Að því er verklega kenslu snertir, verður að taka fult tillit til staðhátta í Vestmannaeyjum. Finst mjer, að kenna ætti undirstöðuatriði siglingafræðinnar og annað, er að gagni má koma við sjómensku. Auk þess ætti að kenna þeim meðferð vjela, er þess óska. Jeg hefi heyrt að Búnaðarfjelag Íslands vilji láta taka upp kenslu í matreiðslu í barnaskólum. Jeg held að heppilegt væri að slíkt væri gert í unglingaskólunum, og veit að fræðsla í matreiðslu, heilsufræði og hjúkrun mundi reynast mjög hagnýt í Vestmannaeyjum.

Jeg vona, að hv. deild líti með velvilja á þetta nauðsynjamál. Við búumst við, að skólinn verði sóttur af 30–40 manns árlega. Barnaskólinn ræður yfir stóru leikfimisplássi, sem þessi skóli gæti notað, en hinsvegar mundi hann alveg vanta húsnæði fyrir bóklega fræðslu, og yrði því að koma upp nýju húsi.

Jeg treysti hv. deild til að unna oss Vestmannaeyingum jafnrjettis við aðra landshluta í þessu máli sem öðrum. Legg jeg svo til, að frv., að lokinni umr., verði vísað til mentmn.