15.04.1929
Efri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Nefndin hefir orðið sammála um, að frv. þetta verði gert að lögum.

Svo sem mörgum er kunnugt, er mikið af sel í ósi Ölfusár. Er þar friðað látur, sem jeg hygg að 3 bæir eigi: Arnarbæli, Arnarbælishjáleiga og Hraun. Þessi selur gerir mikinn usla í lax- og silungsgöngu. En nú hefir þótt sýnt, að laxveiði mundi aukast svo mikið við útrýmingu selsins, að sú aukning mundi með tímanum meira en borga þann skaða, sem selaláturs-eigendur verða fyrir. Vegna þessa er frv. fram komið. — Kunnugir menn segja, að innan óss í Ölfusá sje stundum um 2000 selir. Og þar sem þeir lifa mest á laxi og silungi, þá er augljóst, hvern usla öll þessi hjörð gerir í þessum fiskum. — Í frv. hjer í fyrra um sama efni, var lagt svo fyrir, að ríkið borgaði allan þann halla, sem af útrýmingu selsins leiddi fyrir þá, er þeirra hlunninda hafa notið. En nú er lagt til að kostnaðinum sje að mestu jafnað niður á ábúendur þeirra jarða, er laxveiðahlunnindi hafa í Ölfusá og ám þeim, er í hana renna, þar til svo er komið, að laxveiðin sjálf er talin að bæta upp þann halla, sem selveiði jarðirnar hafa beðið.

Er svo, að jeg hygg, ekki meira um þetta að segja. En eins og jeg hefi áður sagt, þá leggur n. til að frv. verði samþ.