24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í C-deild Alþingistíðinda. (3007)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Halldór Steinsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við þetta frv. Þarf jeg ekki að fjölyrða um efni þeirra, því þær þarfnast ekki skýringa.

Þetta frv. er þess efnis, að ófriðaðar verði selalagnir og selalátur í Ölfusá og í 2. gr. þess er ákveðið að þeir, er missi selveiðanytjarnar, skuli fá fullar bætur. Þessar bætur eiga þeir að greiða, er laxveiðirjett hafa í Ölfusá. Við þetta er vitanlega ekkert verulegt að athuga, svo framarlega að samkomulag næst milli aðilja þar eystra um það, að þetta skuli vera svo. En jeg lít svo á, að ekki þurfi að ákveða sjerstakar bætur þeim mönnum, er not hafa haft af selveiði, ef almenningsheill krefur, að því er laxveiðina snertir, að selnum sje útrýmt. Því þó að nokkrir hafi not af selveiðinni, þá eru þeir þó mikið fleiri, er hafa gagn af laxveiðinni. En sje samkomulag þar eystra um það, að hafa þetta eins og frv. gerir ráð fyrir, sje jeg ekki ástæðu til þess að hafa á móti því.

En það er 3. gr. frv., er jeg felli mig ekki við, og sem mjer finst koma í bága við 2. gr. í 2. gr. er sem sje gert ráð fyrir því, að þeir, er laxveiðirjettinn hafa, greiði bætur til þeirra, er haft hafa not af selveiðum. En svo er gerð undantekning frá þessu í 3. gr., því að þar er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði einum búanda, nefnilega núverandi presti í Arnarbæli. Þetta finst mjer í ósamræmi hvað við annað. Annaðhvort fyndist mjer, að það ætti að vera svo, að ríkið greiddi öllum bætur, eða þá að þeir, er laxveiðirjettinn hafa, borguðu öllum. Enda mun það hafa verið svo skv. frv. því, er lá fyrir síðasta þingi, að ríkið greiddi allar bæturnar. En jeg verð að segja það, að mjer þykir það nokkuð varhugavert að láta ríkissjóð greiða þessar bætur, því jeg get vel hugsað mjer, að það gætu orðið nokkuð háir reikningar, er ríkissjóður yrði að greiða. Jeg gæti jafnvel trúað því, að þó hann ætti ekki að greiða nema þessum eina búanda í Arnarbæli, þá gæti svo farið, að reikningur hans yrði eins hár eða hærri en allra þeirra, er laxveiðieigendur eiga að greiða. Þetta er nú að vísu aðeins spádómur, en maður veit hvernig það gengur með ýmsa þá reikninga, er ríkissjóður á að greiða. En sem sagt, þá flyt jeg þessar brtt. til þess að meira samræmi verði í frv.