24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í C-deild Alþingistíðinda. (3012)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Guðmundur Ólafsson:

Þó að brtt., sem hjer er um að ræða, sje sanngjörn og ekki mikil fyrirferðar, rísa menn þó upp hver á móti öðrum. Hæstv. dósmrh. mælir á móti brtt., vill halda því, að ríkissjóður fái þau hlunnindi að greiða bætur fyrir missi selveiðinnar fyrir Arnarbæli, þótt laxveiðieigendur eigi að borga ábúendum þeirra jarða annara, er selveiði missa, bætur fyrir það. Jeg sje ekki, að nauðsynlegt sje að halda svo fast í það, því að ef það er, eins og sagt er, að í Ölfusá sje um mikla laxveiði að ræða, finst mjer ekki þeim, sem hlut eiga að máli, vera ofvaxið að borga þessari jörð og örfáum jörðum einhverjar skaðabætur, ef selnum er kipt burt úr ánni. Það er nauðsynlegt vegna laxveiðinnar að ná selnum úr Ölfusá, en það sama má segja um ýmsar aðrar laxveiðiár, enda þótt Alþingi hafi ekki mikið um það hugsað. Jeg hefi borið fram frv. til mikilla bóta á laxveiðilögunum, og jeg tel, að hver sem á land að laxveiðiá, eigi jafnan rjett á vernd vegna selsins og öllu öðru er hindrað getur göngu laxins eftir ánum. En það er ekkert gert til að koma á slíku jafnrjetti. Jeg býst ekki við, að jeg hefði farið fram á, að ríkissjóður borgaði þeim, sem töpuðu selveiði í mínu kjördæmi, ef þar hefði verið um slíkt að ræða, heldur þeir, sem laxveiði ykist hjá vegna útrýmingar selsins. Það er ekki í þetta eina sinn, sem jeg er á móti því, að leggja slíkar kvaðir á ríkissjóð.

Jeg held, að þó að ekki þyrfti að borga næsta presti í Arnarbæli skaðabætur, yrði að borga honum hærri laun er heimatekjur rýrnuðu við missi selveiðinnar. Ef um mikla selveiði er að ræða, er það mikill hluti af heimatekjum prestsins, sem tekið verður frá honum. Hann yrði að fá það áfram í einhverri annari mynd. En ef hv. d. vill veita laxveiðanotendum einhverjar rjettarbætur, væri viðkunnanlegt, að þær næðu til fleiri en þeirra, sem veiði eiga í Ölfusá.