24.04.1929
Efri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í C-deild Alþingistíðinda. (3013)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg verð að endurtaka það, að nefndin leit svo á, að hjer væri um samkomulagsleið að ræða, þar sem ekki er öllum skaðabótum jafnað niður á þá, sem fá aukna laxveiði, heldur hlaupi ríkissjóður undir bagga. Það má búast við, að aukinnar laxveiði gæti ekki strax. Það geta liðið mörg ár þangað til, og það getur orðið til að draga úr áhuga manna, þegar þeir fá ekkert í aðra hönd.

Landbn. hafði að vísu ekki fengið upplýsingar um það, um hve mikla selveiði er að ræða, og gat því ekki giskað á, hve mikill yrði skatturinn á ríkissjóði, en hann getur aldrei orðið mikill. Hann verður reiknaður eftir mati sanngjarnra manna eða eftir skattframtali, bara til fárra ára væntanlega.

Jeg tel rjettast að samþ. frv. eins og það kom frá Nd. og legg það til.