20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

63. mál, hlutafélög

Haraldur Guðmundsson:

Jeg skal ekki að þessu sinni lengja mjög umr., en jeg vil þó ekki láta hjá líða við 1. umr. að segja nokkur orð, af því að tveir hv. þm., hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), hafa talað um þetta mál eins og enginn munur væri á hlutafjelögum og einstaklingum. Þykir mjer því rjett við þessa umr. að benda þessum hv. þm. á það, hver munurinn er.

Hlutafjelög öðlast, samkvæmt lögunum um hlutafjelög, margvísleg rjettindi, þau fá rjettindi til atvinnurekstrar og viðskifta eins og einstaklingur væri, en þau eru mynduð af einstaklingum, sem leggja fram ákveðið fje og hafa takmarkaða ábyrgð í langflestum tilfellum. Þess vegna væri eðlilegt að mikill greinarmunur væri gerður á rekstri einstaklinga og rekstri hlutafjelaga; einstaklingurinn stendur persónulega til tryggingar hverri þeirri skuldbindingu, sem hann tekur á sig, og sömuleiðis með þeim tekjum og eignum, sem hann síðar kann að eignast. En alt öðru máli er að gegna með hlutafjelag. Það hefir ekki aðra tryggingu að bjóða en það fje, sem í það er lagt, því að aðgangurinn að mönnunum, sem í því eru, er enginn, þegar ábyrgðin er takmörkuð við hlutafje, sem hefir verið lagt fram. Vitanlega er það svo stundum, að stjórnin er í ábyrgð, persónulega, fyrir skuldum fjelagsins, en það er þá af sjerstökum ástæðum, enda ekki gert ráð fyrir því í lögum.

Nú er talað um þessar breytingar, aðallega með tvent fyrir augum, og virðist annað þessara atriða sjerstaklega vera þyrnir í augum þessara hv. þm., og það er, að hlutafjelög, sem reka stórkostlega atvinnu, verði fyrir opinberri gagnrýni, að allur almenningur geti hnýst í þeirra hag, því að þessir hv. þm. (ÓTh og JÓl) álíta, að hagur þeirra komi eingöngu eigendunum við og ef til vill fáeinum, sem vegna skuldaskifta við þau þurfa um hag þeirra að vita. En hverjir eru það þá? Hv„ 2. þm. G.-K. (ÓTh) taldi það helst vera ríkissjóð. (ÓTh: Jeg sagði, að lánardrotnar þeirra væru bankarnir, stærri viðskiftamenn og almenningur). Ef þetta er skoðun hv. þm., þá á hann vitaskuld að greiða atkv. með þessari brtt., því að það er eina leiðin til þess að allir þessir lánardrotnar, sem hann kallar, fái að vita um hag fjelagsins.

En þar sem hv. þm. drap á, að vinnudómsfrv. gefi þessar upplýsingar, þá er það ekki annað en fjarstæða, eins og hv. þm. líka veit, því að ef það væri svo, þá mundi hann ekki vera með því frv. Þær upplýsingar, sem vinnudómurinn kynni að fá, má enginn vita neitt um nema dómendurnir, enda er ætlast til, að alt fari þar fram með leynd og pukri, t. d. á öll málafærslan að vera leynileg, til þess að almenningur fái alls enga vitneskju um hag aðilja og dómendur skulu bundnir þagnarheiti. Það þarf býsna mikil brjóstheilindi til þess að halda því fram hjer í hv. deild, að vitneskja vinnudóms eigi að vera opinber gerð, þar sem í tveimur greinum frv. er tekið fram, að alt slíkt skuli vera leynilegt og bundið þagnarheiti.

Jeg lít svo á, að um þessi fjelög þurfi miklu fleiri menn að vita en eigendur þeirra, og því sje sjálfsagt að alt það, sem gefur yfirlit rjett og fullnægjandi um hag og afkomu þessara fjelaga, eigi að vera opinbert mál. Það er og vitanlegt, að allskonar hlutafjelaganefnur spretta upp eins og gorkúlur á haugi, spretta upp í skjóli þeirrar leyndar, sem hvílir yfir þess konar fjelögum, og sum þeirra virðast aðallega til þess stofnuð að hafa fje af fávísum mönnum, sem trúa þeim fyrir nöfnum sínum eða fje sínu. Ef hlutafjelögum væri skylt að láta stofnskjöl sín og alla reikninga liggja frammi, þar sem hver og einn gæti gengið að þeim, þá er enginn vafi á því, að það mundi draga úr stofnun slíkra „svindl“-fjelaga. Og engin ástæða virðist til þess, að ljetta slíkum fjelögum þessháttar starfsemi.

Hv. 2. þm. G.-K. var hjer með, að því er mjer virtist, einhverjar sálfræðilegar ástæður fyrir því, sem hann kallaði andúð manna yfirleitt gegn þessu frv., og sagði, að það væri eðli flestra að vilja ekki láta vita um það, hvort atvinna þeirra gengi vel eða illa. Það má vel vera, en hv. þm. (ÓTh) veit sjálfsagt, að slíku verður ekki leynt til lengdar, hvort betur gengur eða ver. Og það, að leyna slíku til lengdar, getur að minsta kosti verið og er oft beinlínis sviksemi við viðskiftamennina. Með því að leyna illum efnahag og halda áfram að nota sjer tiltrú manna, sem trúa því, að efnahagurinn sje eins og þegar hann var bestur, eru þeir beinlínis narraðir. En ef efnahagur fjelagsins batnar aftur, þá ætti að minsta kosti viðkomandi sveitar- og bæjarfjelag að fá vitneskju um það og fá rjetta skatta og skyldur, eins og líka sá hópur verkalýðs, sem hefir lagt sitt til að skapa þessa velmegun, og sem ætti þá líka að vera þátttakandi í henni með hærra kaupi o. fl.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sagði að leiða mundi af þessu fyrirkomulagi, að ýms blöð, sem hefðu það fyrir atvinnu að leggja vissa menn í einelti, mundu fá eitthvað til að moða úr, til þess að geta svift menn æru, lánstrausti, og jeg veit ekki hvað. Þetta er að snúa öllu öfugt. Með því að lögleiða opinber reikningsskil hlutafjelaga er einmitt fyrirbygt, að hægt sje að tortryggja þau að ósekju. Þá getur hver og einn sjeð reikninginn og kynt sjer, hvort rjett er frá sagt í blöðunum. Ef hv. þm. (JÓl) væri virkilega ant um það, að ekki bærist út nema það eitt, sem rjett væri um hag og afkomu þessara fjelaga, þá ætti honum að vera það áhugamál, að reikningarnir lægju til sýnis öllum, því það er einmitt þessi launung, sem gerir það að verkum, að menn hafa stundum ástæðu til þess að ætla annað en er í raun og veru. Jeg geri auðvitað ráð fyrir, að það yrðu rjettir reikningar, sem lagðir væru fram, reikningar, sem hægt væri að byggja á, bæði staðfestir af endurskoðendum og samþyktir á aðalfundi.

Það er alveg rjett, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, að í raun og veru er þetta heldur lítilfjörleg breyting frá núverandi lögum. Það verður ekki annað sjeð á núgildandi lögum, en að reikningarnir eigi að liggja frammi, en þar er bara ekki sagt neitt um það, til hvers þeir eigi að liggja frammi. Mín skoðun er sú, að eftir lögunum eigi þeir að liggja frammi, almenningi til sýnis, en jeg hygg, að lögreglustjórinn í Reykjavik telji sjer ekki heimilt að láta reikningana liggja frammi í þeim tilgangi, og er því sjálfsagt að taka af öll tvímæli um þetta efni.