19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

65. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það frv., sem jeg hefi hjer borið fram, er fram komið í þeim tilgangi, að okkar íslenska króna verði með lögum fest í því gildi, sem hún nú hefir og hefir haft 3 síðustu árin.

Við, sem stöndum að þessu frv., leggjum þetta til af því, að við erum sannfærðir um, að með því fæst mest rjettlæti meðal þegnanna. Mestalt núverandi sparifje þjóðarinnar hefir safnast á þeim tíma, þegar krónan hafði minni kaupgetu og verðlagið var hærra, og sama er að segja um flestar núgildandi skuldir og skuldbindingar. Er því ekki farið hjer fram á annað en hið fylsta rjettlæti. Ríkið er hjer á engan hátt að svíkjast undan gjöldum, heldur gerir það þessa ráðstöfun til þess að skipa málum þegnanna svo rjettvíslega sem unt er.

Þar sem verðföst króna er eini tryggi og öruggi grundvöllurinn í atvinnu- og viðskiftalífi þjóðarinnar, ættu ekki að renna tvær grímur á menn um að taka þann kostinn. Auk þess hafa erlendir sjerfræðingar látið svo um mælt, að verðfesting krónunnar geti ekki á neinn hátt leitt af sjer álitshnekki fyrir landið út á við, og vaxtakjör þess muni ef til vill batna, þegar svo sje komið. Þetta eru höfuðástæðurnar, sem liggja að því, að við leggjum til, að myntlögunum verði breytt.

Gengismálið er tiltölulega nýtt mál í þingsögunni, en þó svo gamalt, að staðið hafa um það miklar umr. Ályktanir Alþingis hafa fallið í þá átt, að halda ætti genginu föstu, og reynslan hefir sýnt, að það mun þjóðarheildinni happasælast, að þær ráðstafanir, sem Alþingi hefir gert hingað til, til þess að halda óbreyttu gengi, leiði til fullrar verðfestingar. Alþingi getur ekki ár eftir ár gert ráðstafanir til þess að halda föstu gengi krónunnar, án þess að taka síðar ákvörðun um, að svo skuli vera til frambúðar.

Fyrstu afskifti Alþingis af þessu máli voru ýmsar ráðstafanir um aðflutningshöft á erlendum vörutegundum. Á þeim tímum gerðu menn sjer ekki fyllilega ljóst, hvaða orsakir gætu legið til truflananna, en hjeldu, að gengissveiflurnar stöfuðu eingöngu af óhagstæðum greiðslujöfnuði við útlönd. Þessar ráðstafanir höfðu ekki tilætluð áhrif, heldur urðu þær allar til þess að halda uppi verðlagi á þeim vörutegundum, sem innflutningur var takmarkaður á, en ekki til þess að hindra, að raunveruleg gengislækkun ætti sjer stað. Síðar hafa menn komist að rjettri niðurstöðu um þetta, og nú er öllum almenningi það ljóst, að það er verðlagið á vörum og vinnu í landinu sem mestu ræður um hið raunverulega gengi og um það, hvaða gengi er hægt að skrá og hvaða gengi á að skrá. Þessi regla er viðurkend að vera sú rjetta, að það sje verðlagið í landinu, sem segi til um gildi krónunnar og kaupmátt.

Á gullinnlausnartímanum var miðað við gullþunga, og kaupmáttur gjaldauranna var miðaður við gullgildi. Þetta getur ekki átt við um okkur nú, og fær ekki ráðið mestu um hið skráða lengi. Hjá okkur gildir ómótmælanlega regla, að gengið miðist við verðlagið alment, enda er það alment viðurkent. Um leið verður mönnum ljósara, hvílíkir erfiðleikar eru á því, að halda genginu föstu, ef verðlag raskast.

Nú er langt um liðið frá því, að verðfall íslenskra peninga varð. Þær breytingar öllu að vísu miklu ranglæti, þar sem þær skertu eignarrjett þeirra, sem safnað höfðu sparifje. Ber þjóðfjelaginu skylda til að gera alt, sem í þess valdi stendur, til þess að hindra raunverulegt verðfall gjaldeyrisins. En þegar það mistekst, eins og hjá okkur o. fl. þjóðum, getur það orðið til þess að skapa mest rjettlæti, að taka beinlínis upp nýjan gjaldeyri. Og nú er svo komið fyrir okkur, eftir miklar gengistruflanir og verðsveiflur, að ekki fæst rjettlæti í þessum málum, nema sá mælikvarði, sem við núna mælum viðskifti okkar á, verði festur í því gildi, sem hann hefir.

Þegar það svo er orðið mönnum ljóst, að það er verðlagið í landinu, sem ræður mestu um það, hvert gildi gjaldeyririnn hefir, þá á hitt líka að vera ljóst, að öllum tilraunum til að hækka hann fylgja kreppur, verkföll, verkbönn og hverskonar þjáningar, sem verðsveiflur hafa í för með sjer. Það má nú að vísu segja, að slíkar kreppur, verkföll og það, sem þeim fylgir, sjeu ekki með öllu óviðráðanlegar fyrir þjóðina, því að hún hafi staðið undir slíkum vandræðum hvað eftir annað, og að hún hafi vissan forða af eignum og kröftum til þess að standast slíkt. En til þess að taka upp þá baráttu, verður maður að minsta kosti að vera sannfærður um, að barist sje fyrir rjettlátum málsstað, nauðsyn þjóðarinnar og metnaði hennar. En skorti þá sannfæringu, er ekki leggjandi út í baráttuna.

Í þessu efni ætti öllum að vera það ljóst, að það er ekki nauðsyn að hækka krónuna vegna þjóðarmetnaðar, eða til þess að ná auknu rjettlæti fyrir þegnana. Þvert á móti er hægt að sýna fram á það með rökum, að ef við hækkum krónuna upp í hið gamla gullgildi, eru þeir tiltölulega fáir, þegnarnir, sem fá sinn rjett við það, en ef við festum hana í því gildi, sem hún er nú, eru það langt um flestir þegnarnir, sem fá sinn rjett við það. Og auk þess má fullyrða, að eftir tiltölulega skamman tíma verður horfinn sá rjettur, sem fæst með hækkun, en rjettur sá, sem fæst með festingu gjaldeyrisins, verður orðinn algildur. Það er því rjettur atvinnuveganna og þegnanna, sem við berum fyrir brjósti, þegar við berum fram tillögu þá, sem hjer liggur fyrir um festingu gjaldeyrisins, vitandi það, að heiður þjóðarinnar út á við skerðist ekki við þá ráðstöfun.

Fyrir tilstilli hæstv. forsrh, átti jeg síðastliðið sumar tal við ýmsa erlenda fjármálamenn um gengismál okkar, og var einróma álit þeirra, að best væri fyrir okkur að festa gjaldeyrinn, og töldu þeir áliti okkar erlendis engar hættur búnar af þeirri ráðstöfun. Um álit þeirra að öðru leyti vísast til fylgiskjala þeirra, sem frv. fylgja. En jeg vil geta þess, að það eru engir ómerkingar, sem hjer er um að ræða, heldur stórmerkir menn, sem ekki segja annað en það, sem þeir telja samboðið virðingu sinni og þeim háu embættum, sem þeir sitja í. Er því ekki gerandi lítið úr þessum plöggum, og allra síst fyrir þá, sem leggja mikið upp úr því, sem útlendingar kynnu að segja um okkur út af þessum ráðstöfunum. Fyrir þeim mönnum ætti það að vera höfuðatriði, hvað slíkir menn sem Cassel, Jochnick og Rygg segja um þessi mál, því einmitt af áliti þeirra getum við vitað, hvað hinir minni fjármálamenn erlendis segja líka um þau.

Eins og frv. ber með sjer, leggjum við til, að framtíðargildi íslensku krónunnar verði það, að 3037 kr. jafngildi einu kílógrammi af ómyntuðu skíru gulli, og það er reiknað eftir dollaragengi, það gullgildi, sem hún stendur nú í. Það er þetta, sem sumir vilja kalla stýfingu, en það er ekki rjettnefni. Hjer er ekki um það að ræða, að stýfa núverandi krónu, heldur hitt, að festa gildi hennar. Rjettnefni slíkrar ráðstöfunar er því verðfesting núverandi krónu. En eigi að nota orðið „stýfing“ í þeirri merkingu, sem það hefir í íslensku máli um aðra hluti en þessa, væri sönnu nær að nota það um stefnu hækkunarmanna, því að þeir vilja stýfa eignarrjett meiri hluta landsmanna, með því að láta alla, sem lán hafa tekið, borga meira en þeir hafa fengið að láni. Að ganga þannig á rjett manna, að bæta 1/5 við skuldir þeirra, og færa inn á kontó hinna, sem eiga sparifje, er stýfing á eignarrjettinum. Ef tillaga væri gerð um að taka 1/5 hluta af fasteignum manna, mundi það vera kallað „afnám eignarrjettarins“ og það með rjettu. En alveg það sama verður, ef krónan er hækkuð upp í sitt gamla gildi. Það væri ekkert annað en eignarán, bylting, sem væri framkvæmd á ósýnilegan hátt og án þess að fjöldi manna skildi, hvað um væri að vera, eða gerði sjer grein fyrir rjetti sínum.

Slíkar byltingar ber þjóðfjelaginu skylda til að koma í veg fyrir, en það verður ekki gert að því er þetta mál snertir, nema með því að verðfesta gjaldeyrinn. Með hvaða hætti krónan verður verðfest, leggjum við flutningsmenn enga höfuðáherslu á. Við teljum það litlu máli skifta, hvort heldur það verður gamla krónan, sem tekin verður upp á eftir með umreikningi af trygð við þá mynt sem þó ekki var okkar mynt, eða gamli ríkisdalurinn, eða þá einhver alveg ný mynt. Höfuðatriðið er, að sá sem fengið hefir að láni litla krónu, þurfi ekki að greiða hana aftur með stórri krónu, eða, svo jeg noti líkingu, að sá, sem fengið hefir að láni í álnum, þurfi ekki að endurgreiða í

metrum. Þetta er það höfuðatriði, sem við festingarmenn leggjum áhersluna á.

Annars býst jeg ekki við, að nokkur hv. þdm. óski þess í raun og veru að fá aftur gengisbreytingar með öllu því ranglæti, sem þeim fylgja, þegar jafnlangur tími og nú hefir liðið frá því, að verðfallstruflanir byrjuðu. Hvort við fáum gömlu krónuna, sem við höfðum fyrir stríðið, með umreiknun, eða þá sem við höfum haft nú síðastliðin þrjú ár, er aukaatriði, eins og jeg hefi tekið fram áður. Sömuleiðis er það aukaatriði, hvort við höfum myntsamband við Norðurlönd eða einhver önnur lönd. Það eina myntsamband, sem oss varðar nokkuð að vera í, er „myntsamband“ þeirra þjóða allra, sem gullfót hafa, og ef við tökum nú þá ákvörðun að festa gjaldeyrinn, komumst við í það myntsamband.

Að svo stöddu mun jeg ekki segja meira um þetta mál, nema sjerstakt tilefni verði til. Að öðru leyti en því, sem jeg nú hefi tekið fram, vísa jeg til greinargerðar frv., og þá sjerstaklega til álits hinna útlendu sjerfræðinga. Að lokinni umræðunni óska jeg málinu vísað til 2. umr. og fjhn.