19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

65. mál, myntlög

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mun eigi nota þetta tækifæri til þess að bæta við þau rök, sem hv. flm. hefir fært fram í þessu máli. Bæði er, að jeg hefi áður haft tækifæri til að ræða þetta mál hjer í hv. deild, og svo hefi jeg haft aðstöðu til þess sem gengisnefndarmaður að koma fram með álit mitt á því. Það, sem nú hefir verið fært fram gegn þessu frv., er heldur ekki svo veigamikið, að hv. flm. sje ekki einfær um að svara því. Tilefnið til þess, að jeg stend upp nú, eru ummæli þau, er hv. 1. þm. Skagf. (MG) ljet falla um afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa máls.

Hv. þm. gat þess, að við Framsóknarmenn hefðum lagt mikla áherslu á þetta mál við síðustu kosningar. Hann sagði, að við hefðum kallað það mál málanna. Þetta er alveg rjett. Og við höfum í engu breytt skoðun á því efni síðan. En hv. þm. sagði, að við hefðum svikið loforð okkar með því að bera ekki fram á síðasta þingi frv. um endanlega festingu gengisins. Hv. þm. hefði ekki síður átt að geta þess, að allmargir íhaldsmerin lofuðu því fyrir kosningar, að þeir skyldu vinna að hækkun krónunnar. Hversvegna hafa þeir ekki komið með frv.? Vafalaust af því, að þeir hafa ekki treyst sjer til að koma því fram. Afstaða ríkisstjórnarinnar er hliðstæð að þessu leyti. Hv. þm. veit, að stjórnin hefir hingað til ekki haft aðstöðu til þess að koma fram formlegri festingu gengisins. En hún hefir gert það, sem í hennar valdi stóð, og það var að halda genginu föstu. Og vegna þeirra aðgerða tel jeg, að festingin sje í raun og veru komin á, þó að hún sje ekki lögformlega samþykt enn þá.

Og nú skal jeg segja hv. þm. (MG), hversvegna við fylgismenn verðfestingarinnar berum þetta frv. fram nú fremur en á síðasta þingi. Það er af því, að við vitum, að okkar besti styrktarmaður í þessu máli, ef svo mætti að orði komast, er einmitt tíminn, sem líður. Og þegar hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal. spyrja um það, hvaða líkur sjeu til þess, að frv. verði fremur samþykt nú en í fyrra, þá get jeg eiginlega látið mjer nægja að vísa í ræðu hv. 1. þm. Skagf. sjálfs. Þessi hv. þm. talaði yfirleitt mjög hógværlega, og ræða hans bar vott um ábyrgðartilfinningu í þessu alvarlega máli. Hann gaf í skyn, að ein leiðin til verðfestingar a. m. k. væri sjer ekki ógeðfeld. (MG: Geðfeldari en önnur). Hann getur nú hugsað sjer leið, sem stefnir að sama marki og frv., en það er að verðfesta skuldirnar, eða það sem hv. þm. kallaði verðfestingu seðlanna. Slík orð hefðu líklega ekki heyrst af munni þessa hv. þm. á síðasta þingi. Og yfirleitt verða menn smátt og smátt að ganga til viðurkenningar á því, að verðfestingin sje hin rjetta leið (MJ: Því er frv. þá ekki látið bíða enn þá lengur?). Á þessum tíma erum við miklu nær árangri í þessu máli en nokkru sinni áður. En jeg tek undir það með hv. þm. Skagf., að ekki er ástæða til að ræða frv. mikið nú. Það þarf að komast í nefnd sem fyrst, og hún þarf að vanda sem best meðferð svo alvarlegs máls.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði í ræðu sinni, að hefði krónan á annað borð átt að hækka, þá hefði verið sjálfsagt að láta a. m. k. nokkurn hluta hækkunarinnar verða í góðærinu 1928. Jeg tek undir þessi ummæli með hv. þm. í ræðu minni um fjárlagafrv. vakti jeg einmitt athygli á þessu atriði. Og jeg vil endurtaka það nú, að úr því að hin hagstæða afkoma atvinnuveganna síðastl. ár var ekki notuð til að hækka krónuna, verður það ekki gert úr þessu.