22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

65. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg átti nokkur orð eftir af ræðu minni síðast þegar mál þetta var hjer til umr., og skal jeg byrja þar sem frá var horfið, að svara hv. þm. Dal. Þessi hv. þm. sagði meðal annars, að próf. Cassel hefði ráðið öllum Norðurlandaþjóðunum til þess að verðfesta sinn gjaldeyri, en engin þeirra hefði þó farið að ráðum hans, nema ef við gerðum það. Þessu er því að svara, að enda þótt svo sje, að Norðurlandaþjóðirnar hafi ekki farið að ráðum hans í þessu efni, þá er hans heiður engu minni fyrir það. Ástæðan fyrir því, að ekki var farið að ráðum hans í þessu, var hin almenna tregða almennings á því, að átta sig á nýjum viðfangsefnum. Menn skiftust ekki eftir pólitískum flokkum um þessi mál, heldur greindi menn mjög á innbyrðis um þau. Foringjar flokkanna voru óákveðnir, og forstjórar bankanna, sem sumir hverjir kendu sjer um lækkunina, hugðust að rjetta við álit sitt með hækkun, enda höfðu þeir, sem tilhneigingu höfðu til verðfestingar, ekki þann stuðning hjá hinu pólitíska valdi, sem þarf til þess að halda gjaldeyrinum föstum. Ýmsar ástæður sem þessar, urðu þess því valdandi, að gengismál Norðurlandaþjóðanna urðu útkljáð, án þess að nokkur ákveðin stefna væri tekin af þjóðþinginu. Orðstír próf. Cassels hefir því ekki orðið minni fyrir það, að ekki var farið að hans hollu ráðum, heldur hefir hróður hans aukist með hverju ári, síðan hann hóf verðfestingarbaráttu sína. Annars líta þjóðirnar nú orðið alt öðrum augum á gengismálið en þær gerðu. Aðstaðan í þessu máli er breytt um heim allan. Þjóðir og einstaklingar hafa lært af reynslunni, og tregðan er að mestu horfin, þó að enn eimi eftir af henni hjer. Það er engin röksemd gegn Cassel, að segja, að engin þjóð hafi farið eftir hans ráðum. Það er engin röksemd, að við eigum að ríða ofan í vökina, af því að samferðmennirnir hafi gert það á undan okkur. Hjer á að kryfja rök málsins sjálfs til mergjar, en ekki spyrja að því, hvað aðrir hafa gert.

Hv. þm. Dal. sagði, að þeir mundu ekki verða margir, sem sæju eftir erfiðleikunum við hækkun krónunnar, þegar henni væri lokið. Hjer er þó einn, sem mundi sjá eftir þeim erfiðleikum, og jeg býst við, að þeir yrðu margir sem sæju, að unnið hefði verið fyrir gíg og kept hefði verið að marki, sem ekki samsvaraði erfiðleikunum. Þeir erfiðleikar leiddu ekki af sjer neinar umbætur, heldur skópuðu aukið ranglæti, og þegar svo er, eru erfiðleikarnir hvorki vel fallnir til að æfa á þeim krafta þjóðarinnar nje heldur auka henni metnað.

Þá sagði hv. þm., að sigurhljóð mundi verða í þjóðinni, þegar hækkuninni væri lokið. Jú, jeg gæti trúað að svo yrði! Og þá ekki síst hjá bönkunum, sem mest fengju að kenna á afleiðingunum, þar sem þeir yrðu samnefnarar fjármálaörðugleika þjóðarinnar. Sá dans um gullkálfinn yrði fremur dapurlegur, og sú tilfinning, sem þar yrði ríkust, yrði tilfinningin um auknar byrðar. Þar mundi kveða við erfiðismannasöngur, en ekkert sigurljóð.

Hv. þm. Dal. sagði, að ýta þyrfti undir hina sparandi krafta. Með hverju er það gert? Það er gert með vöxtum. Hjer er eigi verið að tala um að taka neina vexti af sparifjáreigendum. Og eins og jeg hefi áður sýnt fram á, hafa þeir fengið sinn fulla rjett með tilliti til kaupmáttar sparifjárins þegar það var dregið saman. En það eru aðrir kraftar til í þjóðfjelaginu, sem ástæða væri til að ýta undir, og það eru hinir starfandi kraftar þess. Það er meginatriði þessa máls, að þeir hafa rjett til verðfestingarinnar. Með því er ekki gengið á hlut hinna sparandi krafta, sem nú er talað um, eins og þeir hafi einir rjett á sjer í þessu landi. En þeir hafa ekki rjett til þess að ganga á rjett þeirra, sem taka fje að láni og starfa fyrir það þjóðfjelaginu til heilla og framfara. Og því er það rjettur hinna starfandi krafta, sem hjer á að ráða úrslitum.

Hv. þm. sagði, að hætta stafaði af því, að þetta frv. væri fram komið. Það gæti orðið til þess, að „spekúlantar“ kæmu truflun á gengið. Jeg vil nú benda honum á tvær leiðir til að komast hjá þessu. Önnur leiðin er sú, að fylgja frv., og sú leið liggur beinast við. En hin er sú, að hann beiti atkvæði sínu í gengisnefnd þannig, að hann komi í veg fyrir þessa truflun. Ef hætta er á að „spekulations“-fje streymi inn í landið, getur gengisnefnd haldið gjaldeyrinum föstum, meðan þetta fje er í umferð, meðan hún á annað borð hefir stjórnina bak við sig í því efni. Jeg tel að vísu, að ekki sjeu miklar líkur til að þessi „spekulations“-hætta vofi yfir, eftir reynslu okkar í þessu efni. En þótt að henni kæmi, væri hægt að sneiða hjá henni, svo framarlega sem gengisnefnd og stjórn vilja það.

Þá sagði hann, að málið hefði ekki fylgi þingsins. Það atriði kemur á daginn áður en lýkur, og munum við stuðningsmenn málsins ekki láta það fæla okkur frá fylgi okkar við það. Hann sagði ennfremur að andstæðingar stjórnarinnar mundu ekki vilja styrkja hana í þessu máli. Vel má nú vera, að það ráði afstöðu margra til málsins. En slíkt eru hvatir, sem við fylgismenn þess getum ekki skift okkur af, og þær snerta ekki hvað rjett er og satt í þessu máli.

Það var næsta fávíslegt hjá hv. þm. að tala um, að litið væri með meðaumkun á afstöðu „litlu þjóðarinnar“ í gengismálinu. Þarf ekki annað en að benda á, að í umsögnum þeirra útlendu manna, sem prentaðar eru aftan við frv., kennir engrar meðaumkunar. Það snertir ekki þetta mál, hvort þjóð er stór eða lítil. Örðugleikarnir verða hlutfallslegir við stærð þjóðanna, svo að „stór“ eða „lítill“ á ekki að heyrast í þessu sambandi. En úr því að hann leggur svo mikið upp úr áliti útlendinga, hví les hann þá ekki ummæli Cassels, þar sem hann segir, „að óhugsandi er að álit Íslands bíði hnekki af því, að fylgt sje því eftirdæmi“ — nfl. því, að „gjaldeyrir hefir verið verðfestur í svo mörgum mikilsháttar löndum“, eða umsögn ríkisbankastjóranna sænsku, þar sem þeir segja: „Um lánskjör landsins eða vaxtakjör, þá skiftir það ekki máli, hvort gjaldeyririnn er festur í því gildi sem hann nú hefir, eða öðru hærra gildi. Möguleikar ríkja til að fá lán og lánskjörin munu eingöngu fara eftir því, hvaða skilyrði ríkin hafa til að ávaxta og endurgreiða lánið.“

Og því les hann ekki ummæli Ryggs bankastjóra, þar sem hann segir, að verðfestingin valdi ekki álitsspjöllum fyrir landið til lengdar?

Það er með öllu gripið úr lausu lofti, að tala um fyrirlitningu útlendinga fyrir þessari litlu þjóð, sem er að gefast upp. Slíkt þýðir ekki að segja þeim, sem kunnugir eru. Auk þess er það ekki góð regla, að spyrja ávalt um það, hvað aðrir segi. — Hvað segja Danir um þetta? Hvernig hljómar það í eyrum hv. þm. Dal.? Alt þetta tal og allur þessi kvíði fyrir því, að útlendingar misskilji aðfarir okkar í gengismálinu, á ekki hjer við. Í þessu máli á að fara eftir innanlands rökum, eftir því, hvað rjettlátast er og hagfeldast. Umtalið hlýtur jafnan að fylgja athöfninni eins og skuggi. Það er því illa farið ef þessi ótti við erlenda dóma, sem engin hætta er á að nokkurntíma verði feldir, á að ráða úrslitum gengismálsins. Því ef tekin er beinasta leið til rjettlætis og hagsældar í landinu, megum vjer vera vissir um, að sú leið skapar oss hæstan heiður hjá öðrum þjóðum.