22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

65. mál, myntlög

Magnús Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að elta ræðu hv. flm. (ÁÁ) út í æsar, heldur tala um málið frá mínu sjónarmiði, þó með tilliti til hins duglega málaflutnings hans, þegar þörf gerist.

Mjer þótti kenna viðkvæmni í fyrri hluta ræðu hans, þar sem hann bar sig upp undan því, að hv. þm. Dal. hefði talað hvast í þessu máli. Mjer þótti þetta því undarlegra, þar sem jeg held að ekki liggi eins mikil alvara á bak við þetta mál eins og látið er. Hjer er talað um málið eins og það sje stórmál — sem það líka er — en jafnframt talað um ákaflega auðvelda lausn á því. En mjer virðist margt benda til þess, að lítil alvara fylgi því, að fá málið í gegn á þessu þingi. Frv. er ekki lagt fram fyr en liðnar eru margar vikur af þingtímanum, enda þótt búast hefði mátt við því þegar í þingbyrjun, þar sem málið var allmjög undirbúið, og það var á allra vitorði, að hv. flm. hafði verið falinn undirbúningur þess, að tala við erlenda sjerfræðinga o. fl. En það eitt út af fyrir sig, hve seint málið kemur fram, bendir til þess, að lítil alvara liggi á bak við það, svo að manni verður á að spyrja, hvort hjer sje um annað en leiksýningu að ræða.

Jeg vil gera þá kröfu til stuðningsmanna frv., að þeir ýti á eftir Alþingi til að taka einhverjar ályktanir í málinu á þessu þingi. Ef þeir sýna ekki alvöru í því að koma frv. í gegn nú, þá er það af því, að þeir vilja ekki leysa málið vegna þess að þeir sjá, að það er ekki eins auðvelt og þeir láta. Afstaða þingsins skapar álit manna út á við á viðhorfi okkar til þessa máls. Ef þingið fellir frv., verður það skoðað sem yfirlýstur hækkunarvilji af þess hálfu.

Stjórnin átti að fylgja frv. sjálf, og það er engin afsökun, sem hæstv. forsrh. bar fram, að hv. flm. ætti sæti í gengisnefnd. Þetta er augljóst stjfrv., enda hefir hæstv. forsrh. tekið þátt í samningu grg. þess. Hjer er því um fullkomið „Cabinetsspursmál“ að ræða eftir öllum þingræðisreglum. Ef frv. verður felt, er ekki nema um tvent að gera fyrir stjórnina: annaðhvort að beygja sig fyrir stefnu meiri hl. í þessu máli eða hreint og beint að rýma. Því er rjett að hækkunarmennirnir sýni sína afstöðu í verkinu. Hitt er óafsakanlegt, að draga málið á langinn í því skyni, að nota það sem kosningabeitu næst.

Hv. flm. virtist skoða það sem einhverskonar uppnefni, að talað væri um „stýfingu“ í sambandi við frv., og áleit það vera af illvilja gert. Jeg get ekki fallist á, að nokkur óvirðing þurfi að vera tengd við orðið „stýfing“, nema hún felist þá í athöfninni, sem orðið táknar. „Stýfing“ og „verðfesting“ eru tvö ólík hugtök, sem ekki má rugla saman, eins og hv. flm. viðurkendi líka, er hann vjek að ræðu hv. 1. þm. Skagf. Verðfesting er að ákveða gildi þeirra peninga, sem í umferð eru í landinu. Hæstv. forsrh. kallaði þetta verðfesting á kröfum. Prófessor Cassel sjer einnig skýrt muninn á þessu tvennu og skilgreinir þetta á sama hátt og hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann segir í umsögn sinni „Festing á kaupmætti pappírsgjaldeyrisins gagnvart vörum væri að vísu frá vísindalegu sjónarmiði ágæt úrlausn.“ Þetta sýnir að hann gerir mun á verðfesting og stýfing. (ÁÁ: Fullkominn misskilningur — hjer er átt við, ef gull er ekki lagt til grundvallar.) Það má vera, en það má eins skilja þetta á þennan hátt. En stýfingaraðferðin gengur í þá átt, að rýra myntina sjálfa. Frv. fer fram á, að framvegis skuli fást 3037 krónur úr kg. af ómyntuðu gulli í stað þess, að aðeins 2480 krónur fengust úr hverju kg. áður. Hvað er verið að gera hjer annað en að skrifa af myntinni, minka hana — stýfa hana? Hv. flm. vildi koma því á okkur, sem erum hlyntir hækkun krónunnar, að við værum þeir sönnu stýfingarmenn. Hann sagði, að við vildum stækka skuldirnar og stækka krónuna. Hvað er það þá, sem við viljum stýfa? (ÁÁ: Eignirnar). Nei, hv. þm. verður að finna annað nafn á okkur en þetta. Eignirnar stækka ekki við stýfingu, fremur en eyrað á kindinni stækkar við að tekið er ofan af því, við það að hún er mörkuð „stýft“. Auk þessa er þráfaldlega ruglað saman í grg. kaupmætti krónunnar og gullgildi hennar. En að tala um kaupmátt og gengi gegn gulli í sömu andránni, rjett eins og þetta tvent væri alveg hið sama, er ekkert annað en fásinna. Reynslan sýnir, að kaupmáttur og gengi hafa farið langt hvort frá öðru og alls ekki fylgst að. Árið 1918 voru danska og íslenska krónan, sem í þann tíma höfðu ekki enn sagt sundur með sjer, ofan við gullgildi, stóðu í 115 gullaurum. Á sama tíma var verðvísitalan hjer 250. Svona hafði kaupmáttur krónunnar þorrið, þó að hún væri ofan við gullgildi. Nú stendur krónan í 82 gullaurum en vísitalan er ekki nema 217. Slík dæmi sýna, hvernig þetta tvent, gullverð og kaupmáttur, losnar hvort frá öðru. Jeg skal ekki fara langt út í orsakir þess, en reynslan sýnir, að svona er það. Aðalorsökin var vitanlega í þessu tilfelli hin mikla viðskiftateppa og framleiðsluskortur á stríðsárunum. Gullið var þá eigi það, sem menn þráðu mest, heldur nauðsynjavörur. En 1920 hófst hið mikla verðfall í Bandaríkjunum. Gullið hækkaði í verði. Hjer fór ekki fram sama verðfall, eða sama kaupmáttaraukning, og gengið gegn gulli fjell því.

Það er hreinasta fásinna, að nokkur hækkunarmaður haldi því fram, að krónan eigi að fá sinn gamla kaupmátt aftur. (ÁÁ: Hvar stendur, að hækkunarmenn vilji það?). Það stendur kannske hvergi, en stýfingarmenn reyna yfirleitt að rugla hugtökum í þessu máli eins og unt er. En engum hækkunarmanni dettur í hug að fara fram á að endurreisa að fullu kaupmátt krónunnar.

Aðalástæðan, sem fram er færð í greinargerð frv., verðfesting til styrktar, er sú, að með henni náist mest rjettlæti. Þetta er endurtekið í greinargerðinni hvað eftir annað. Það er raunar játað þar, að rjettlæti náist ekki alveg til fullnustu. En úr ranglætinu er gert ákaflega litið. Á bls. 3 í greinargerðinni stendur:

„Má telja víst, að hreyft hafi verið á rúmum 14 árum svo mikið af hinum eldri 9½ milj., að nú muni vera eftir óhreyfðar frá 1914 í þessum 46½ milj. minna en 1 milj. kr. Það, sem hreyft hefir verið, hefir breyst í vörur, fasteignir o. fl., og þó nokkuð af því hafi komið aftur, þá hefir það mist rjett sinn til hækkunar við að verða hluttakandi í hinum miklu verðlagsbreytingum. Annað en það fje, sem óhreyft hefir staðið, hefir ekki rjett til hækkunar upp í hið gamla gullgildi.“

Svona er nú skilgreining hv. flm. á því, hvernig eigi að ná rjettlæti í þessu efni. En jeg spyr: Hversvegna á endilega að ná þessu rjettlæti með því að festa krónuna í 82 gullaurum? Nú er það alkunna, að mestan hluta áranna 1920–24 var gildi krónunnar 50–60 aurar. Hún fjell jafnvel um eitt skeið niður fyrir 50 aura. Sje gildið miðað við kaupmátt, fjell hún auðvitað miklu fyr. Hvaða rjettlæti er í því, að láta þá menn, sem tóku lán eða áttu inni á þessum árum, greiða lán eða taka út inneignir í krónum, sem jafngilda 82 gullaurum? En þetta á sjer stað nú, og nákvæmlega það sama mundi eiga sjer stað síðar, ef krónan yrði hækkuð upp úr núverandi gildi. Þetta er náttúrlega ekki rjettlæti. En þetta sýnir svo átakanlega, að ómögulegt er að ná „rjettlæti“ í þessu máli. Hvaða rjettlæti var í því t. d. að leyfa þeim, sem tekið höfðu lán fyrir 1914, að greiða þau með verðföllnum krónum á stríðsárunum? Með því var gerð árás á innieigendur í landinu. Skuldunautarnir græddu, er peningarnir fjellu á stríðsárunum. Nú þegar þeir hækka græða inneignamennirnir. Það getur tæpast talist rjett að gera upp á milli þessara manna með því að vega altaf í sama knjerunn. Hvorirtveggju eru þjóðfjelaginu nauðsynlegir, þeir, sem lána og þeir, sem ávaxta lánsfjeð. Er þá nokkurt vit í því, að veita þeim stöðugt lið, sem nota lánsfjeð, en láta hina altaf tapa? Ef það er þetta, sem hv. flm. kallar hægfara rjettlæti, þá er það rjettnefni, því að slíkt rjettlæti er sannarlega hægfara.

Flm. frv. segja í greinargerðinni, að minna en ein miljón sje óhreyft af sparifje frá 1914 og ekkert annað fje eigi rjett til hækkunar. (ÁÁ: Já, ekkert annað sparifje.) Jeg mun þá sýna, að þetta er ærið hæpinn dómur.

Hv. flm. segir, að það fje, sem tekið hefir verið út úr sparisjóðum síðan 1914, eigi ekki rjett til hækkunar, því að það hafi tekið þátt í verðlagsbreytinguni lausgengisáranna. Innieignir frá 1914, sem hreyfðar hafa verið, eiga eftir þessu ekki neinn rjett á hækkun. Þessir hv. flm. ætla áreiðanlega ekki að láta af mörkum meira rjettlæti en þeir þurfa. í raun og veru geta þeir ekkert um þetta sagt. Það eitt er víst, að þetta er sú minsta upphæð, sem á rjett til hækkunar, en þeir vita ekkert um það, hversu mikið fje hefir verið tekið úr sparisjóðum án þess að eigendur þess nytu nokkurrar hækkunar, og á það þó sama rjett á hækkun og það, sem nú hefir notið hennar. Hjer kemur og annað til greina. Fjöldi innieigenda hefir tekið fje sitt út úr sparisjóðum og lánað það athafnamönnum með því skilyrði, að fá aftur jafn margar krónur og þeir lánuðu. Þetta fje getur ekki hafa mist rjettinn til hækkunar. Þetta fje er í raun og veru geymt í sparisjóði, þó að það sje ekki undir opinberu eftirliti. Alt þetta fje á því nákvæmlega sama rjett til hækkunar eins og það fje, sem ekki hefir verið hreyft.

En jeg vil ganga ennþá lengra. Segjum að fje sje tekið út úr sparisjóði og lagt í fyrirtæki. Fyrirtækið gengur ekki betur en svo, að það skilar aðeins fjenu með hæfilegri rentu. Eftir 3–4 ár kemur það aftur inn í sparisjóðinn. Hvað hefir nú eigandi þessa fjár grætt á því að hreyfa það, og hvers á hann að gjalda, ef það á að falla í verði eingöngu af því að það var hreyft?

Okkur hækkunarmönnum dettur ekki í hug að halda því fram, að við getum náð rjettlæti í þessu máli. En stýfingarmenn eiga þá líka að hætta að tala um „rjettlæti“ í þessu máli. Fjármálafræðingurinn Cassel hefir alveg rjett fyrir sjer, þegar hann segir, á bls. 7 í greinargerðinni: „Rjettlæti er ekki hægt að ná.“ Þessu ummæli eru kannske ekki sjerlega sterk, en í bók þeirri, er hann hefir ritað um peningamálin eftir ófriðinn, segir hann, að ekki þýði að standa gegn þeim sannleika, að ranglæti undanfarinna ára sje ekki hægt að bæta. (ÁÁ: En það er hægt að koma í veg fyrir ranglæti í framtíðinni.) Cassel fullyrðir eins og jeg segi, að ómöglegt sje að ná rjettlæti í þessu máli. (ÓTh: En þetta er alveg öfugt við skoðun Cassels.) Nei, hann talar um þetta mál alveg frá hagfræðilegu sjónarmiði, en kemur ekki fram með neitt rjettlætishjal.

En snúi maður sjer aftur að rjettlætinu, þá er aðeins eitt, sem helst verðskuldar það nafn í þessu máli. Það er að standa við þau lög, sem nú eru í gildi. Það er þó ein tegund rjettlætis að fylgja fram settum lögum. Og núgildandi lög ákveða, að í einu kg. gulls skuli vera 2480 íslenskar krónur. Þessi lög voru í gildi, þegar það ástand skapaðist, sem er ástæða verðlækkunarinnar. Því er nú rjett að taka afleiðingum þeirra laga. (ÁÁ: Vill hv. þm. (MJ) innleysa seðla með gulli, ef jeg kem með þá til hans?) Hv. þm. þarf ekki að gera að gamni sínu. Engum hækkunarmanni dettur í hug að segja, að íslensk króna sje nú í gullgengi, en það er skilyrði þess, að seðla sje hægt að innleysa með nafnverði. En allir seðlar hljóða nú upp á hina fornu gullmynt. Eina rjettlætið í þessu máli er því að halda lögin. Jeg segi ekki, að það sje stórt rjettlæti, en því er ekki hægt að ná, fremur en hægt er að bæta manni að fullu fót, sem hann hefir einu sinni mist.

Stærsta röksemdin fyrir málstað stýfingarmanna og sú eina, sem hlustandi er á, er nauðsyn atvinnuveganna til þess að þeim sje eigi ofþyngt með skuldum. Sú röksemd styðst að nokkru leyti við þá atburði, sem gerðust á árunum 1925 og 1926. Það var mjög óheppilegt fyrir hækkunarstefnuna, að svo skyldi hittast á, að hækkunin fór einmitt fram seinna hluta ársins 1925, því að næsta ár á eftir varð eitthvert mesta hrun á verði afurða, sem þekst hefir á seinni tímum. (Forsrh.: Afleiðingar hækkunarinnar.) Nei, verðhrun í gulli. Það þurfti því enga hækkun til. Jeg neita því raunar ekki, að hækkunin hafi aukið á erfiðleika atvinnuveganna. Þar hjálpaðist hvorttveggja að, hækkun gengisins og fall afurðanna. En verðlækkun afurðanna hafði þó miklu meiri áhrif. Gengisbreyting er aðeins bundin við sinn tíma, en verðlækkun á afurðum er altaf beint tap fyrir landið.

Fylgismenn frv. tala um tvenskonar örðugleika: Annarsvegar stundar-örðugleikana, sem sjeu skárri af því að þeir lagist með tímanum. Þó telja þeir þessa örðugleika nokkuð langvarandi, og því til sönnunar benda þeir á, að verðvísitalan er ennþá ekki komin í rjett horf. Hún var 217 um áramótin síðustu. En jeg álíti að ekki megi gera of mikið úr þessari röksemd. Verðvísitalan hefir verið mjög óstöðug nú upp á síðkastið. Seinni hluta ársins 1928 fór hún heldur hækkandi, en sýnist upp á síðkastið hvarfla til og frá. Jeg er ekki fjarri því að halda, að hún sje svo að segja alveg rjett nú. Til þess gætu legið ýmsar ástæður. Til dæmis valda tollar á vörum truflunum í þessu efni, þar sem verðvísitalan tekur þá með, og jeg hygg, að tollar hafi hækkað hjer til muna meira en hjá flestum nágrannalöndunum. Vísitalan er ekkert annað en hlutfallstala milli verðlagsins nú og verðlagsins 1914. Það er villandi að hugsa sjer hana sem einhverja mjög ákveðna tölu, og byrja röksemdir á því, að hún hljóti að geta komist á ný í sama horf og áður.

Stýfingarmenn eru altaf að vitna í verkalaun og vinnudeilur, og telja þetta meðal stundarörðugleika við hækkun gjaldeyrisins. Sjerstaklega var mikið um þetta talað um það leyti, sem frv. um þetta efni kom fyrst fram hjer á Alþingi. En mjer virðist hv. flm. ekki leggja eins mikið upp úr þessu nú og hann hefir áður gert. Sannleikurinn er sá, að verkföll og verkbönn koma jafnt fyrir því, hvort gengisbreyting hefir átt sjer stað eða ekki. Ekki þarf annað en vitna í síðustu vinnudeilu máli mínu til sönnunar. Hvaða gengisbreyting var þá á ferðinni? Engin, og þó var þessi vinnudeila sú alvarlegasta, sem komið hefir fyrir hjer á landi. Yfirleitt getur vinnudeila, þar sem farið er fram á kauphækkun, aldrei komið vegna hækkunar á gjaldeyrinum. Ef vinnudeila kæmi upp vegna gengishækkunar, myndi verða farið fram á kauplækkun. En mín skoðun er sú, að engu ver gangi að fá kaupið lækkað en standa móti kauphækkun, ef sanngirni mælir með. Hafi verkamenn á annað borð ásett sjer að fá kaup sitt hækkað, falla þeir engu fremur frá því en mótstöðu gegn kauplækkunarkröfum frá atvinnurekendum. En vinnudeilur halda áreiðanlega áfram eins og hingað til, jafnvel þótt engin gengisröskun eigi sjer stað. (ÁÁ: Ekki þó af þeim ástæðum.) Jeg skal ekki bera á móti því, að vinnudeilur komi stundum af gengisbreytingum. En jeg held, að draumur fylgismanna frv. um eilífan vinnufrið í sambandi við festingu gengisins, sje eitt af þessum hverfulu paradísargæðum, sem síðarmeir muni verða til þess að „þeim bregði í brún, blessuðum, er þeir“ vakna.

En til er önnur ástæða sterkari, sem eykur erfiðleikana á því að hækka gengið nú. Þá ástæðu mintist hv. flm. ekki á. En sú ástæða er samkepnin við Norðmenn á erlendum fiskmarkaði. Það er bert, að örðugleikar þeirrar samkepni hljóta að vaxa, meðan við erum að koma okkar peningum upp í gullgildi, þar sem Norðmenn eru búnir að koma fram sinni hækkun og þurfa ekki að leggja á sig aukabyrðar vegna hennar. En við nutum hagsmuna af örðugleikum Norðmanna fyrrum, meðan þeir voru að framkvæma sína hækkun, og mjer finst það ekki nema drengilegt, að við göngum nú gegnum þær þrengingar samkepninnar, sem þeir hafa áður orðið að þola.

Stærsti örðugleikinn við hækkunina eru auðvitað skuldirnar. Það er sá eini örðugleiki, sem skylt er að meta í því sambandi. Þann örðugleika ber að meta, þegar um það er rætt, hvort það borgi sig fyrir okkur að festa gengið. En þá verður að gera greinarmun skulda. Erlent lánsfje, sem veitt er út um landið. t. d. til landbúnaðarins, fyrir milligöngu ríkissjóðs, veldur þar engum örðugleikum, því að það er reiknað í mynt þess lands, sem lánið veitir og hækkar því hvorki nje lækkar við hreyfingar á okkar gjaldeyri. Það sýnist engin ástæða til þess, að ríkissjóður græði á hækkuninni, heldur er rjettara að láta skuldunautana njóta hennar, með því að færa niður krónutöluna jafnótt og gengið hækkar. Erlent lánsfje þarf því ekki að auka örðugleika okkar við hækkun gjaldeyrisins. Innlenda lánsfjeð, sparisjóðsfjeð, er eini þröskuldurinn á vegi hækkunarinnar. Mat þeirra örðugleika á að skera úr um það, í hvorn knjerunninn nú skal höggva.

Í því sambandi verður að skilja það, að sá maður, sem tekur lán á lausgengistímum, kemst með því út í nokkurskonar gengisbrask, jafnvel þótt láninu sje varið til atvinnurekstrar eða annars nauðsynlegs fyrirtækis. En auðvitað á sú tegund gengisbrasks meiri rjett á sjer en það, sem venjulega er kallað því nafni. Gallinn á lausgenginu er nú einmitt þessi, að það neyðir hvern mann, sem lánsfje vill nota, út í gengisbrask. Ef jeg byggi hús og tek til þess 100 þúsund króna lán, þá verðfesti jeg í raun og veru þessar 100 þús. krónur. Gróði og tap á þessari verðfestingu fer eftir því, hvort gjaldeyririnn hækkar eða lækkar. Alveg sama á sjer stað, þó að jeg kaupi skip eða fjenað, eða hvað sem vera skal. Jeg á það undir auðnu, hvort peningarnir, sem jeg fjekk að láni, hækka eða lækka. Þetta er í raun og veru alveg það sama og að flytja gjaldeyrinn í annað land og bíða síðan átekta. Munurinn er aðeins sá, að annar verknaðurinn er þarfur fyrir þjóðfjelagið, en hinn ekki. Og þess vegna er tvennskonar rjettlæti látið ríkja í þessum efnum. Enginn vorkennir gengisbraskaranum, sem flutti myntina úr landi, þó að hann tapi á henni. En vorkunnsemin kemur fram, þegar fjeð er lagt í atvinnurekstur eða nytsöm fyrirtæki. En þetta vissu allir, bæði jeg og aðrir, sem vöfðum okkur í skuldum til að byggja hús á lausgengistímanum. Jeg veit ósköp vel, að jeg hefi tekið þátt í gengisbraski með því, að byggja hús fyrir lánsfje á lausgengistíma.

Enginn maður óskar eftir því, að baka atvinnuvegunum tjón og erfiðleika að óþörfu. En erfiðleikarnir eru þó ekki eingöngu ókostur. Allir atvinnuvegir verða að ganga í gegnum þrengingar. Það er ómótmælanlegt, að barátta stælir krafta. Það er hennar kostur. Við mundum sjálfsagt öll óska þess, að landið okkar væri dálítið hlýrra en það er. En reynslan sýnir að þjóðir, sem búa í köldum löndum, afkasta meiru en íbúar heitu landanna. Kuldinn og veðurharkan hafa gefist okkur Íslendingum vel. Það eru hörðu veturnir, sem hafa losað okkur við horkóngana. Það er þessi gamla regla Darwins: „Survival of the fittest“. — Örðugleikarnir gefa þeim sterkari betra tækifæri til þess að þroska hæfileika sína, en það, sem veikara er, fellur. Þetta er hörð kenning, en undir þessu harða lögmáli hefir líf alt þroskast frá ómunatíð.

Auðvitað vill enginn viljandi leiða slíka örðugleika yfir þjóð sína, en hjá þeim verður ekki komist, og þeir geta einnig verið til góðs. Það þarf meiri „móralskan“ þroska til þess að taka örðugleikunum og berjast við þá en að velta af sjer skuldabyrðinni, og geta örðugleikarnir þannig verið mikils virði. En hverjir eru það, sem valda örðugleikunum? Það eru ekki þeir, sem vilja hækkun gjaldeyrisins, heldur hinir, sem ekki höfðu vit á peningamálum og orsökuðu lággengið.

Það má svara þessu eins og Snorri goði svaraði Flosa forðum um bardagann á Þingvöllum: Eigi veld jeg, heldur eru það þeir Kolur og Þorvaldur Kroppinskeggur sem valda. En það voru hinir verstu menn í liði Snorra. (MT: Voru það þá þeir Jón Magnússon og Sigurður Eggerz, sem ekki höfðu vit á peningamálum?) Ef á að ræða málið svona persónulega, er eins gott að hætta, því að það var ekki mín ætlun með orðum þessum.

En þótt hv. 2. þm. Árn. (MT) reyni að ná sjer niðri persónulega, kemur það mjer auðvitað ekki við, — væri honum sæmra að leggja eitthvað gott til gengismálsins!

Jeg hefi ekki reynt að leyna örðugleikunum við hækkunarstefnuna, en fylgismenn stýfingarinnar reyna að leyna örðugleikunum við sína stefnu, og er það rangt. Var þó auðheyrt á ræðu hv. flm., að honum er vel kunnugt um, hverjir þeir erfiðleikar eru, enda sjest það líka á spurningum þeim, er hann lagði fyrir hina erlendu sjerfræðinga.

Það eru lánstraustspjöllin, sem af því leiða fyrir þjóðina, að vera hin eina af hlutlausu þjóðunum, sem stýfir gjaldeyri sinn. Hún verður ein eftir úr myntsambandi Norðurlanda, sem getur ekki fylgst með hinum þjóðunum að koma sinni krónu upp í gullgildi. Og lánstraustsspjöll þau, sem af þessu leiðir, munu atvinnuvegir vorir fá að finna og borga.

Það er fyrsta regla heilbrigðra fyrirtækja, að geyma óskert lánstraust til hins síðasta, og leggja heldur á sig stórar byrðar en að skerða lánstraustið.

Gott dæmi þessa eru 1. flokkar veðdeildarbrjefanna, er seldir voru að mestu til útlanda. — Þegar krónan fjell lá nærri að láta þá, sem keypt höfðu, ekki fá vexti nema eftir hinni föllnu mynt. — Þó var þetta ekki gert, heldur var að ráði sendiherra tekið fje úr varasjóði, til þess að hægt væri að greiða kaupendum fulla vexti. — Það var líka rjettilega að farið, því að nógir örðugleikar eru á því að selja brjef okkar, þótt fyrsti örðugleikinn, sem mætir okkur, sje ekki látinn sýna útlendingum, að það sje ekki þorandi að kaupa íslensk verðbrjef.

Nei, hv. flm. er vel kunnugt um örðugleikana, sem af stýfingunni leiða, og þess vegna leggur hin særða samviska hans sömu spurningar fyrir alla sjerfræðingana. (ÁÁ: Og hver eru svörin, sem sjerfræðingarnir gefa?) Jeg kem að þeim síðar, en fyrst vil jeg segja það, að jeg vil ekki láta neina útlendinga segja okkur fyrir um það, hvað við teljum blett á okkar áliti, hvort sem það er Wallenberg eða aðrir.

Þessir sjerfræðingar, sem hjer er verið að vitna í, hafa allir verið spurðir með tvennu móti. — Fyrst voru þeir spurðir af reynslunni, og svöruðu þeir þá allir með því að hækka sinn gjaldeyri. — En svo spyrjum við þá á pappírnum og þá fáum við svarið: Þið getið stýft — það gerir ekkert til. — Jeg vil heldur athuga, hvað þeir hafa gert fyrir sjálfa sig, þótt þeir ráðleggi okkur stýfingu, því að umhyggja manna er venjulegast meiri fyrir þeim sjálfum en öðrum.

Umsagnir hinna erlendu fræðimanna, að litið verði á stundarástandð eitt, er um lántöku er að ræða, eru ekki á rökum bygðar. Að minsta kosti gætu þau rök eigi gilt, ef um einstakling væri að ræða.

Peningastofnun, sem lánar manni fje, lítur auðvitað nokkuð á stundarástandið, hvernig efnahag mannsins er komið, en hún lítur líka á manninn sjálfan, og hvernig hann hefir sýnt sig í því að reyna að standa í skilum. Það er litið á reynsluna, og menn treysta þeim miður, sem einhverntíma hefir brugðist. Þetta er viðurkendur sannleikur. — En getur svo ekki einhver snefill af þessu sama áliti færst yfir á þá þjóð, sem ekki reynir að standa við skuldbindingar sínar ? — Það er hætt við, að svo yrði, enda mundi það fljótt sýna sig með örðugri vaxtakjörum.

Fyrst eftir að Belgar stýfðu, urðu þeir að sæta afleitum lánskjörum. Þó er hjer um að ræða stóra þjóð og duglega, sem hefir mjög mikla möguleika til þess að hafa sig upp aftur. (ÁÁ: Brjef þeirra eru komin upp í 107 úr 94.) — Það kann að vera, að þau sjeu komin það nú, en þá urðu Belgar að greiða yfir 8% í raunverulega vexti, og greiddu þá Danir 4,5% í vexti á sama tíma. Hin ríkin höfðu ekkert traust á Belgum, eftir að þeir gátu ekki haldið myntinni uppi.

En hvaða samanburð má gera á okkur og Belgum? Belgar áttu einskis annars úrkosti en að stýfa. Ógnir ófriðarins höfðu skollið á þeim mest allra þjóða Evrópu. Það var um eðlilegt og alveg heiðarlegt gjaldþrot að ræða. Á hinn bóginn var hjer um að ræða stóra og duglega þjóð, sem átti ótal möguleika á því að ná sjer upp innan skamms, — en samt þótti henni ekki fulltreystandi. En hjer hjá okkur er um að ræða hlutlausa þjóð, sem sat eins fjarri og eins ósnortin af áhrifum stríðsins eins og unt var. Allar þjóðir, sem svipað hefir staðið á um, hafa komið gjaldeyri sínum fremur fljótt í samt lag. Getuleysi er alls ekki hægt heldur að sanna, og gjaldþrotið hefir á sjer svikablæ. — Á hinn bóginn er hjer smáþjóð, sem fáir þekkja. Vildi hv. flm. að vísu gera lítið úr þessu, að það hefði nokkuð að segja, hvort þjóðin væri stór eða lítil. En þegar þjóð er eins lítil og við Íslendingar, eiga menn yfirleitt afar erfitt með að koma því inn í höfuðið, að hún geti verið sjálfstæð í peningamálum.

Og við ættum ekki að auka á þá ótrú, sem þeir hafa á okkur. Við verðum einmitt að halda með alveg sjerstakri varúð á okkar lánstrausti.

Það er rangt hjá Cassel, að við getum vel fylgt þeim þjóðum, sem hafa stýft gjaldeyri sinn, þ. e. a. s. stríðsþjóðunum, því engin hlutlausu þjóðanna hefir orðið til þess. Þjóðverjar breyttu gjaldeyri sínum, þegar hann var kominn ofan í einn biljónasta, Belgar stýfðu í 14,5%, Finnar í 10% o. s. frv. Hjer var um fullkomin gjaldþrot að ræða. En við erum búnir að hækka okkar gjaldeyri úr 46 aurum upp í 86. Ef við stýfðum, væri það óheiðarlegt gjaldþrot, og við myndum missa lánstraustið. Menn myndu segja, að hrakspárnar hafi sannast, þjóðin sje of fámenn til þess að vera sjálfstæð. Hún hafi ekki haft bolmagn til þess að halda gjaldeyrinum við, og ein allra hinna hlutlausu þjóða hafi hún orðið eftir. — Sá stóri getur leyft sjer margt, sem hinn minni má ekki. — Það er sagt um auðkýfingana í New York, að þeir geti leyft sjer að ganga illa til fara, allir viti um auðæfi þeirra eigi að síður. Sama máli er að gegna um stórþjóðirnar. (MT: Þegar menn eru komnir í pels, er það þá merki þess, að þeir sjeu gjaldþrota?) — Nei, það þarf nú ekki að vera. En pels er oft nefndur „Kreditvækker“, og þeir sem minni eru, og þurfa á öllu að halda, þeir mega engan „kreditvekjara“ vanrækja. Íslendingar verða einmitt að ganga í loðkápu. Þeir verða að láta öll fjármál sín líta vel út, og gera alt, sem þeir geta til þess að vernda lánstraust sitt. Það er okkur nauðsyn sökum fámennis okkar, og auk þess verðum við ætíð að leita til erlends fjármagns, ef á liggur. Jeg ætla að svo komnu að sleppa þeim „moralska“ ósigri, sem við biðum við stýfingu. En peningatjónið, sem við myndum bíða af því að missa lánstraust annara þjóða, yrði gífurlegt, og myndi hrátt lýsa sjer í hækkuðum vöxtum. Þetta eru tvær aðalástæður gegn stýfingu, en auk þeirra eru fjölmörg smærri atriði.

Um myntsamband Norðurlanda er komist svo að orði í greinargerð frv. á bls. 5, — að þótt einhverjir kynnu að sjá eftir hinu gamla myntsambandi við Norðurlönd, þá sjeu slík sambönd, eins og Norðurlandasambandið, lítils virði.

Myntsambandið út af fyrir sig er kannske ekki mikils virði, en það verður ekki svo lítils virði fyrir okkur, þegar við erum fallnir út úr því. Að Íslendingar hafi einir gefist upp á því, að koma sinni krónu upp í gullgildi, og því fallið út úr myntsambandi Norðurlanda, er ef til vill það eina, sem menn út um heim vita þá um okkar fjárhag. Og þegar talað er um Norðurlönd, er ekki svo lítils virði, að vera talið fullgilt fimta ríki.

Þá segir svo á sömu bls. grg., með leyfi hæstv. fors.: „Það eina myntsamband, sem oss varðar um að vera í, er „myntsamband“ þeirra þjóða allra, sem gullfót hafa, og þeirra trygginga og þæginda í gjaldeyrismálum þurfum vjer sem fyrst að verða aðnjótandi.“

Flm. hefir sjálfur fundið veiluna í þessari hugsun, því að hann hefir sett „myntsamband“ innan gæsalappa. Við getum auðvitað alt af verið í því „myntsambandi“, þótt við stýfðum gjaldeyri okkar í hálfvirði. Það er eins örugt fyrir okkur eins og manninn að vera í mannfjelaginu; því að úr þessu „myntsambandi“ getur þjóðin ekki komist nema hún hætti öllum viðskiftum við aðrar þjóðir.

Þá sagði hv. flm., að stýfingin varðaði enga aðra en Íslendinga eina. Jeg skal ekkert um það segja, hvort öll lán Íslendinga erlendis eru nú tekin í útlendum gjaldeyri, og býst jeg við því, að hv. flm. geti lítið fullyrt um lán einstakra manna, þótt svo kunni að vera farið um ríkislánin. En þótt þetta mál varðaði enga aðra en Íslendinga sjálfa, get jeg ekki sjeð, að það sje þýðingarlaust fyrir því. Hvaða áhrif myndi þetta t. d. hafa á það, þegar ríkið þyrfti næst að leysa seðlabanka sinn undan innlausnarskyldu? Hjá því verður aldrei komist við og við. En hvað segðu innstæðueigendur um það í ljósi þeirrar reynslu, sem nú hefir fengist? Svarið gæti ekki orðið annað en alment herhlaup að bankanum. Allir vilja ná fje sínu áður en það fellur, því að nú er sýnt, að engin trygging er fyrir fullu verði.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem hv. flm. leggur svo mikið upp úr, að þessi aðferð, að breyta myntlögunum, sje svo góð, að enginn viti af henni.

Hv. flm. segir svo í grg. á bls. 6 — með leyfi hæstv. fors.: „Beinasta leiðin er að festa þá krónu, sem nú gildir. Það breytir engu, heldur segir einungis: núverandi ástand skal haldast!“

Breytingin er hin sama og þegar maður deyr í svefni. — Meðan maðurinn svaf, var ekkert um það talað, en nú fer fregnin út um alt, að nú sje hann dáinn. Mun víst engum detta í hug að halda því fram, að hjer hafi engin breyting á orðið. — Krónan hefir verið látin sofa alt of lengi, því að við höfum sofið af okkur Norðmenn, í stað þess að við hefðum átt að hækka jafnt og þeir. — Hæstv. atvmrh. var svo hreinskilinn að játa það, að því lengur sem það er látið bíða að hækka, því ófúsari eru menn á að leggja á þá braut.

Nú fer fregnin út um heim allan, að Íslendingar sjeu búnir að gefast upp á því að hækka gjaldeyri sinn og hafi stýft krónuna. Á meðan krónan var ekki verðfest með lögum mátti segja: „Hún er ekki dauð, heldur sefur hún.“ — Menn hafa lært mikið á þessari kreppu hinn síðasta tíma, enda má nú segja, að hvert barnið kunni nú eins mikið í hagfræði og vísindamennirnir kunnu fyrir stríðið. Þegar gengisnefndin var skipuð, var það með það fyrir augum, að festa eða hækka ísl. krónuna, og í fullu samræmi við þetta ljet fyrv. stjórn hækka krónuna í góðærinu 1925. En þrátt fyrir að árið 1928 hefir verið eitthvert hið mesta góðæri, sem yfir þetta land og þessa þjóð hefir komið, hefir hæstv. núverandi stjórn látið það líða án þess að hækka krónuna. Þessi dráttur hefir svo orðið til þess, að enn þá örðugra er að taka hækkunarstefnuna, því að aldrei eru örðugleikarnir á því eins miklir fyrir banka og eftir góðæri, sem ekki hefir verið notað í þá átt. Í þess stað á að láta krónuna deyja í svefni, en sá dauði hefir í för með sjer stórkostleg lánstraustsspjöll, eins og áður hefir verið bent á. Og með því er innleidd sú stefna, sem erfitt er að stöðva sig á. Erlendir auðmenn munu komast á þá skoðun, að þeirri þjóð sje ekki treystandi, sem stýfir gjaldeyri sinn án þess að brýn nauðsyn krefji. — Þeir missa trúna á okkur í framtíðinni og ganga að því sem gefnu, að úr því að við höfum runnið frá örðugleikunum nú, munum við einnig gera það síðar. Með því að gefast upp nú, er í raun rjettri verið að leggja út á sömu leiðina og gömlu kóngarnir, sem ljetu slá blandaða mynt. Þetta er alveg eins og með uppruna frankans, líru, peseta, sterlingspund o. fl., alt var þetta sama mynteiningin, sem upprunalega mun hafa verið pund silfurs. Út á þessa braut leggja menn nú, ef farið verður að stýfa okkar mynt. Þetta er allra alvarlegasti annmarkinn á stýfingunni, að hún verður ávalt endurtekin.

Mjer finst, að við þurfum fremur að ala upp það, sem stefnir til hreysti og harðfengi hjá okkur, og taka mannlega á móti þessum erfiðleikum. Fanst mjer sama hugsun uppi hjá hv. þm. Dal., þar sem hann heyrði helst þær raddir með þjóðinni, sem fögnuðu hækkun, en hv. flm. sagðist ekki vera glaður yfir hækkun, og vildi heldur ala upp þann hugsunarhátt sem reynir að þoka sjer undan erfiðleikunum.

Það kveður dálítið við annan tón hjá Dönum, í Finanstidende 29. desember 1926, og vildi jeg biðja um leyfi hæstv. forseta til að lesa það upp, og mun jeg þurfa tvöfalt leyfi, þar sem það auk alls annars er á dönsku. Þeir skrifa um það, að menn hafi búist við hroðalegum afleiðingum af því, þegar krónan kæmist upp í gullgildi. En svo segir í þessari merku yfirlitsgrein um fjármál Dana: „Derfor gik man ind í 1926 med bange Anelser Hvorledes er det saa gaaet? Kronen er stöt og langsomt gledet op fra 93–100, Priserne ligesaa jævnt faldet fra 153–145. Men Danmark staar endnu, og har det end knaget og braget í Tömmeret, holder det dog, og Skuden er tæt. Aaret har udviklet sig gunstigere en forventet. Og den Opfattelse er vistnok fremherskende, at 1927, om alt gaar vel, kan bringe Landet ind under Verdenskonjungturerne paa lige Fod med de övrige europæiske Lande Den 1. Jan 1927 bliver en Æresdag for den danske Krone, paa samme Maade som den 5. Maj 1845, da Nationalbankens Sedler for förste Gang erklæredes indlöselige.“

Já, hjer kveður dálítið við annan tón heldur en hjá þeim, sem segir: Nei, jeg var ekki glaður, jeg yrði glaðari, ef krónan væri sett niður í 46 aura. En jeg hefi þá trú, eins og hv. þm. Dal., að það sje affarasælast að reyna að halda út og koma krónunni upp í gullgildi, það má vel vera að sumir yrðu kannske ekki glaðir í svipinn, en jeg efast ekki um, að eftirá verði allir þakklátir þeirri kynslóð, sem vann þetta þrekvirki.

Það er náttúrlega gott og freistandi að bjarga undan svo og svo miklu af eignum sínum, hvort sem það er á nafn konunnar eða með einhverju öðru móti; en menn eru samt miklu glaðari, ef þeir hafa látið aleigu sína og konunnar ganga í að svara öllum kröfum, þó að þeir standi slyppir uppi. Hjer er ekki alveg ólíkt ástatt um þjóðina í heild, og síðari tíminn mun líta á það sem sigur, ef okkur tekst að koma krónunni aftur upp í gullgildi.

Mig langar svo aðeins til að minnast á þessi álitsskjöl, sem hjer er talað um. Vil jeg þá fyrst segja, að mjer þykir ekki umsögn Cassels sjerlega áhrifamikil; jeg efast að vísu ekki um vitsmuni hans eða þekkingu, heldur er það af því, að þennan mann hefði alls ekki þurft að spyrja, því hvað þýðir að spyrja mann, sem í mörg ár hefir ritað fleiri bækur um að fá ákveðinn málstað fram í þessum efnum? Jeg býst ekki við, að hv. flm. hafi ímyndað sjer, að Cassel mundi gefa upp nokkurt það álit, sem ekki hefir þegar komið fram í bókum hans. Nei, mjer finst þetta svo mikill óþarfi, og jeg er heldur ekkert hissa á því, þótt próf. Cassel ráðleggi okkur það sama, sem hann hefir ráðlagt öllum öðrum. En margt er þó hæpið í hans tillögum, t. d. þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess hefir gjaldeyrir verið verðfestur í svo mörgum mikilsháttar löndum, að óhugsandi er, að álit Íslands meðal annara þjóða biði hnekki við, að fylgt sje því eftirdæmi.“

Þetta er beinlínis villandi. Engin þjóð hefir stýft sinn gjaldeyri nema stórþjóðir og engin þjóð hefir stýft gjaldeyri, sem hefir staðið líkt því eins hátt og okkar gjaldeyrir. Við erum því alveg einir sjer um okkar stýfing.

Svo er álit þeirra Adolfs av Jachnick og ríkisbankastjóranna sænsku. Mjer finst það álit líkast svari Alexanders mikla. „Nú mundi jeg hætta, ef jeg væri Alexander mikli,“ sagði Parmenio. „Já, það mundi jeg líka gera, ef jeg væri Parmenio“, svaraði Alexander mikli. Mjer finst þessi tillaga, eftir að búið er að koma sænsku krónunni upp í gullgildi, vera að ráðleggja Íslendingum það, sem þeir ekki vildu sjálfir gera. Það getur verið, að þeir hafi hækkað sænsku krónuna á móti betri vitund, en ef þeir hafa ekki gert það, þá er þetta aðeins lítilsvirðing á okkur. Það er eins og þeir segðu við okkur: „Það er líklega best fyrir okkur að gera þetta, en ekki vildum við gera það.“

Svo kemur það, sem þeir segja um lánstraustsspjöllin. Hefi jeg að mestu svarað því áður. Þeir álíta að fjesýslumennirnir meti aðeins stundarhag lántakanda, en það getur ekki verið rjett. Nei, það fer ekki eingöngu eftir þessu, það er ómögulegt að leggja svo góð gögn á borðið, að þau verði ekki mismunandi metin eftir því, hver leggur þau fram. Það er ómögulegt að nokkur bankastjóri mundi ekki meta meira það, sem góður viðskiftamaður leggur á borðið, heldur en það, sem annar maður legði fram, er oft hefði brugðist honum. Þetta er því villukenning, og þeir vildu heldur ekki nota hana fyrir sjálfa sig.

Svo er hjer álit Rygg’s bankastjóra. Hann er hjer sem fyr sá lang-raunhæfasti af öllum þessum mönnum á Norðurlöndum. Þar syngur við annan tón, það er ekki hægt að fá annað út úr hans svari, en að hann sje hækkunarmaður, og mundi ráðleggja okkur hækkun, ef málið hefði verið svoleiðis fyrir hann lagt. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þessara ummæla,“ — þ. e. a. s. forsætisráðherra, um að búið sje að ákveða stýfingu krónunnar — „sem benda á, að málinu sje í raun og veru þegar ráðið til lykta, þá skal jeg ekki fara nánar inn á það, hvort rjett sje að lögfesta krónugildið í 80–82% af gullverði.“

Það er, m, ö. o., hann segist ekki vilja ráðleggja neitt um þetta, en bætir svo við því, sem er hárrjett um þetta atriði:

„Um þetta atriði eru það fyrst og fremst Íslendingar sjálfir, sem verða að fella dóminn, enda hefi jeg ekki í höndum þau gögn um það, hvernig til hagar á Íslandi, að álit mitt um þetta efni verði svo sjerlega mikilvægt.“

Þetta er vitaskuld alveg rjett, og svo gengur hann í öllu út frá því, að Íslendingar sjeu búnir að ákveða að stýfa, svo hann þurfi ekkert um það að segja. Svo segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Sje það nú talið ókleift að ná aftur gamla gullgildinu og heil þrjú ár eru liðin með föstu gengi, þ á er rjett að tryggja sjer, að gjaldeyririnn fari ekki út af sporinu aftur, og það gerist best með lögfestingu gengisins.“

Hann segir: Ef þið ætlið að gera það, verið þá ekki að hringla neitt, stöðvið strax! Og svo segir hann líka:

„Að draga á langinn lagalega verðfestingu gengisins 80–82%, er því að mínu áliti óráðlegt, ef hætt er við þá hugsun að ná gamla gullgenginu.“

Það er auðsjeð, að hann vill aldrei vísa á bug þessari hugsun sinni, að hækka. Og svo bætir hann við:

„Með þessum forsendum hlýt jeg því að svara fyrri spurningunni, sem til mín var beint, játandi.“

Það, sem hann segir, er þá þetta:

„Það, sem þú gerir, það ger þú fljótt!“ En það var aðeins sagt, ef þú ætlar að gera það, komdu því þá í verk.

Um hina spurninguna, hvort við munum bíða lánstraustspjöll, segir hann, fyrir það fyrsta, að það fari eftir því, hvort önnur lönd biði tjón við stýfinguna. Jeg hefi svarað þessu áður. En svo segir hann:

„Viðvíkjandi hinu atriðinu, hvort annars sje kostur, þá vil jeg leggja áherslu á, að til þess að ná núverandi gildi, hefir verðmæti íslenskrar krónu verið hækkað að mun, .... “ — Þetta eru málsbæturnar, sem hann álítur okkur hafa, að við erum búnir að lyfta gjaldeyrinum úr 46 aurum upp í 82, og getum kannske forsvarað að stýfa, af því að við höfum sýnt okkar góðu viðleitni í því að reyna að komast eins langt og við gátum. Rygg veit aðeins ekki, að við getum eins vel komist það, sem eftir er. Vill hann þá benda öðrum á, að „þið voruð að reyna“. Er það ekki það sama og hann segi: Það er það, sem máli skiftir, að þið sýnið, að þið hafið gert það, sem þið gátuð?

Svo var það, sem hv. flm las. Jeg ætla líka að lesa það, en með öðrum áherslum, til þess að sýna hvað mismunandi áherslur geta gert. — Bankastjórinn segir þar: „ — þá á jeg bágt með að trúa því, að þetta valdi nokkrum álitsspjöllum til lengdar.“ — Hann vill ekki segja að það verði til lengdar, því hann hefir einhverja von um, að það verði ekki svo.

Nei, jeg vil þess vegna segja það, að þessi álit útlendinganna, sem náttúrlega var alveg rjett að leita, þau eru ekki eins veigamikil og ætla mætti, sem eðlilegt er, því það er mikill munur að fá nokkrar spurningar lagðar fram, eða athuga ástandið með eigin augum. Þrír þeirra segja eiginlega ekkert um málið, en um einn manninn er svo háttað, að það skín eins mikið út úr orðalagi hans, að við eigum að hækka, en ekki að stýfa.

Það er með okkur eins og með skulduga menn, að það eru erfiðleikar á allar hliðar. Það eru erfiðleikar við að komast upp í gullgengi, og erfiðleikar við að sæta verri vaxtakjörum með stýfingu. En jeg held að það sannist hjer, eins og svo oft áður, enska spakmælið, að „Honisty is the best policy“. Það er best að fara þá leið, sem óspilt meðvitund okkar segir að sje hin heiðarlegasta, en það er eins og frændþjóðir okkar hafa gert, að koma okkar gamla gjaldeyri upp í sitt forna gullgengi.