23.03.1929
Neðri deild: 30. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

65. mál, myntlög

Haraldur Guðmundsson:

Það hefir nú þegar verið mikið rætt um þetta frv. hjer í deildinni, enda er það að vonum. Jeg hjó eftir því, að einhver ljet í ljós, að hann undraðist, að þetta frv. skyldi koma svona seint fram. Jeg get ekki verið á sama máli og hann. Miklu fremur undrast jeg það, að þetta frv. skuli yfirleitt koma fram. Því eins og nú er, hefir ríkisstjórnin öll ráð, bæði í gengisnefnd og bankaráði, og hefir því algerlega á sínu valdi að halda genginu föstu. Þetta hefir stjórnin viðurkent og hv. flm. líka, enda hefir og reynslan best sannað það. Sumir hafa viljað halda því fram, að krónan hafi ekki getað hækkað s. l. ár, nefnilega 1928. Þetta hygg jeg að hafi ekki við nein rök að styðjast. Jeg tel það þvert á móti víst og þykist hafa fullkomin gögn fyrir því, að ísl. króna hefði hlotið að hækka, ef ekki hefði verið unnið að því að halda genginu niðri. Jeg skal samt ekki fara frekar út í þetta að sinni, en mun víkja frekar að því við síðari umr. þessa máls.

Af þessum ástæðum þykir mjer undarlegt, að slíkt frv. skuli koma fram eftir þriggja ára gengiskyrstöðu. Jeg hafði haldið, að þurft hefði einhverjar sjerstakar ástæður til þess að rjúka nú í það í miðju kjörtímabili, að lögfesta krónuna. Hv. flm. sagði, að það væri af rjettlætis ástæðum, að krónuna þyrfti að stýfa eða festa, og býst jeg við, að ýmsir hv. þdm. taki undir þau ummæli. En mjer þykir það því undarlegra, að ekki hefir við þær umr., er hjer hafa átt sjer stað, verið neitt minst á það ranglæti, sem mikill hluti þjóðarinnar varð fyrir, er gengið lækkaði. Það ætti þó að vera öllum ljóst, og ekki síst hv. flm. og hæstv. stjórn. Hverjir voru það, sem töpuðu, er ísl. krónan lækkaði úr 100 aurum niður í 47 aura? Fjöldi einstaklinga og heilar stjettir manna urðu fyrir stórtjóni af gengislækkuninni. Og vitanlega tapaði sú stjettin mest, er fjekk alt sitt kaup greitt í ísl. krónum sílækkandi, og þurfti að kaupa nauðsynjar sínar fyrir sílækkandi ísl. krónur. Það var þessi hluti þjóðarinnar, sem tapið af gengislækkuninni lenti þyngst á. Því að altaf meðan gengið var að lækka, var kauphækkunin gífurlega langt á eftir gengislækkuninni, sem kunnugt er.

En hvað varð nú af þessu tapi verkalýðsins? Hvert rann það fje, er hann tapaði? Jú, það rann til hinnar meginstjettarinnar, er seldi vörur sínar, afurðir landsmanna, fyrir erlendan gjaldeyri, en greiddi verkafólkinu í íslenskum krónum. Það voru þeir, sem græddu! Þetta er mjög mikilsvert atriði í þessu máli, þó að furðanlega lítið hafi verið á það minst.

Það hefir verið tekið fram af andstæðingum þessa frv., t. d. hv. þm. Reykv. (MJ), og það með rjettu, að ef krónan væri stýfð eða verðfest, þá væri öllum þeim, er ættu frá því fyrir gengisfallið innstæður í sparisjóðum, órjettur ger. Stýfingin verður vitanlega órjettur gagnvart þeim, er eiga peninga á vöxtu, frá því áður en verðfallið vegna gengislækkunarinnar gerði vart við sig. En í mínum augum er það ranglæti ekki ýkja mikið, sem þessir menn verða fyrir. Þeir hafa margir hverjir á ýmsan hátt grætt á gengisbreytingunum og þola allir þótt inneignir þeirra hækki ekki í verði frá því, sem nú er. Nei, aðalranglætið verður vitanlega framið gegn þeim, er mestu töpuðu á gengislækkuninni. Sem sje þeim, er taka laun sín í ísl. krónum, aðallega verkalýðnum og launafólki. Að vísu hafa verkamenn fengið aftur nokkuð af tapi sínu meðan krónan hækkaði úr 47 aurum upp í 81%. Því að eins og kauphækkunin var ávalt nokkuð á eftir gengislækkuninni, svo var og kauplækkunin ávalt nokkuð á eftir gengishækkuninni. Að því leyti hafa verkamenn fengið nokkuð af tapi sínu aftur, en ekki alt; enn vantar þar mikið á.

Það má nú ef til vill segja, að fullkomnu rjettlæti í þessum efnum verði aldrei náð. Jeg býst við að það sje rjett að nokkru leyti. Það verður aldrei hægt að bæta hverjum einstakling það tjón, sem gengisfallið hefir valdið honum, og heldur ekki að taka aftur af hverjum einstakling óverðskuldaðan gróða á lækkuninni. En það er hægt að komast betur í áttina til jafnaðar. Það er hægt að jafna mjög misrjetti aðalstjettanna einmitt með því, að láta krónuna hækka aftur upp í sitt gamla gildi. Þetta viðurkennir hv. flm., en heldur því jafnframt fram, að þeir er fengju fullan rjett sinn, ef hækkað væri, yrðu í miklum minni hluta og hinir miklu fleiri, sem rangindum yrðu beittir. Hv. flm. verður að gefa því nánar gætur, hvernig fjárstraumurinn skiftist milli meginstjetta þjóðarinnar, en má ekki horfa um of á það, hvað einstakir einstaklingar bera úr býtum. Næst rjettlæti í þessum efnum verður komist, ef verkalýðurinn fær bætt upp aftur með hækkandi gengi, það sem hann tapaði á gengislækkuninni. En slíkt næst ekki neina því aðeins, að gengið verði hækkað svo, að peningar okkar komist í jafngildi við það, er þeir áður voru, og að hækkunin taki svipaðan tíma og lækkunin tók.

Annað var það, sem mjer þykir eftirtektarvert við þessar umr. Það er það, að menn tala um gengislækkun og verðrask sem eitt og hið sama. Þetta er mjög fjarri öllum sanni, því að gullið hefir ekki hækkað nema um 20%, en verðlagsvísitalan um 120%. Það eru því aðallega aðrar verðlagssveiflur en gengissveiflan, er valda mestu raski á verðlaginu í landinu. Það hefir komið í ljós við sölu á framleiðsluvörunum, að verðsveiflur á þeim erlendis hafa á einu ári oft orðið meiri en það, sem okkur vantar nú til þess að koma krónunni í gullgildi. Mjer virðist menn gera of mikið úr örugleikunum við að hækka gjaldeyrinn, þegar þess er gætt, að við höfum hækkað krónuna úr 47 aurum upp í 82 aura, tiltölulega þrautalítið. Jeg veit, að menn munu andmæla þessu, en jeg segi fyrir mig, að jeg vil bíða eftir fullum sönnunum fyrir því, að þessir miklu örðugleikar hafi raunverulega átt sjer stað. Jeg veit ekki betur, en að efnahagur okkar Íslendinga sje nú með meiri blóma en nokkru sinni fyr. Eru þó ekki nema liðlega þrjú ár liðin síðan krónan hækkaði úr 47 upp í 81–82 gullaura. Og varð þó sú hækkun á óhentugum tíma. Jeg skal að vísu játa, að ekki allfá fyrirtæki hafa orðið að hætta störfum vegna hækkunarinnar, en mjer er líka kunnugt um það að ekki var vanþörf á því að hreinsa nokkuð til sumstaðar, og það eins þótt engin gengishækkun hefði orðið. Það er svo, engu síður hjer en annarsstaðar, að sum fyrirtæki eiga rjett á að lifa, önnur ekki. Og af þeim, sem hættu störfum, þegar krónan hækkaði, voru sum, sem að skaðlausu hefðu mátt hætta fyr.

Við umr. þessa máls hjer í hv. d. hefir komið í ljós, að ekki ber eins mikið á milli hjá meginflokkum þingsins og hefir verið látið í veðri vaka. Jeg hjó eftir því hjá hv. flm. í fyrstu ræðu hans, að hann tók það greinilega fram, að enginn eðlismunur væri á því, hvort krónan væri fest í sínu núverandi gengi, eða upp væri tekin gamla gullkrónan, 100 gullaurar. Nýir gullgildisseðlar gefnir út , og þeir sem nú gildi, innleystir með 81–82 aurum hver króna, Jeg er hv. flm. alveg sammála um það. Þá hjó jeg eftir því hjá hv. 1. þm. Skagf. (MG), að hann sagði, að ef um stýfingu eða verðfestingu væri að ræða, þá væri rjettara að verðfesta seðlana en breyta myntlögunum. Það má nú að vísu teygja þetta dálítið, en jeg sje þó ekki betur, en að hjer sje um alveg það sama að ræða. Að gefnir sjeu út nýir seðlar, gulltrygðir, nefnilega innleysanlegir með 100 gullaurum, er alveg það sama og hv. flm. gat um í sinni ræðu. Það eru því fullar horfur á, að dregið gæti til samkomulags á milli flokkanna. En ástæðan til þess er sú, sem jeg benti á í fyrstu ræðu minni, — og líka hefir komið fram í umræðum, að hv. þm. líta ekki á hlut þess aðiljans, sem harðast verður úti, nefnilega verkalýðsins. Með því að stöðva krónuna í 81 eða 82 aurum, er útilokað, að verkalýðurinn geti fengið sem kauphækkun eitthvað til uppbótar á gömlu vangoldnu kaupi. Jeg held því, að það sje mjög fráleitt að kalla það rjettlæti, að verðfesta krónuna. Það er hreint og beint að staðfesta órjett og gera hann að lögum, órjett, sem mikill hluti landsmanna hefir verið og er beittur.

Þegar litið er til þess, sem hjer gerðist í gengismálinu í stjórnartíð íhaldsins árið 1925, þarf engann að undra, þótt aðalflokkarnir báðir líti nokkuð svipað á þetta mál nú. Þá var, eins og allir muna, nýafstaðið mesta veltiár, sem hjer hefir komið. Árið 1925 var líka gott, og þrátt fyrir viðleitni bankanna og gengisnefndar, lánaðist ekki að halda genginu niðri. Krónan sprengdi af sjer öll bönd, ef svo mætti segja, og sterlingspundið lækkaði á skömmum tíma úr 30 krónum niður í 22,15 kr. Nú er jeg þess fullviss, að ekki hefði þurft að gera annað en að láta rás viðburðanna ganga sinn gang þá um haustið, til þess að krónan hefði farið upp í gullgengi. Jeg er þess líka fullviss, að þeir erfiðleikar, sem gerðu vart við sig í byrjun ársins 1925, hefðu litlu meiri orðið, þó að skrefið hefði þá verið stigið til fulls. Þáverandi fjármálaráðherra, hv. 3. landsk. (JÞ) stöðvaði gengishækkunina með hinu gamla þrautaráði, að gefa út nýja seðla. Síðan hefir krónan staðið í stað. Það er því fyrst og fremst hv. 3. landsk., sem hefir valdið því, að krónan er ekki löngu komin í gullgildi.

Hv. þm. Dal. virðist halda því fram, að það sem stefna beri að, sje hægfara hækkun krónunnar upp í sitt gamla gildi. Jeg er hv. þm. ekki sammála um þetta. Jeg veit, að margir menn voru þeirrar trúar, að hægfara hækkun væri besta lausn gengismálsins hjer. En eins og hv. flm. tók rjettilega fram, höfum við lært mikið um gengismál á undanförnum árum, og reynslan hefir m. a. kent okkur, að hægfara hækkun er bæði afartorveld og athugaverð mjög. Jeg álít að snögg hækkun, þegar aðstæður eru sjerstaklega góðar, sje langbesta lausnin á þessu vandamáli. Það hefði áreiðanlega verið auðvelt að hækka krónuna fyrir eða um áramótin 1928 og 1929 upp í fult gildi. Það sjest m. a. á inneignum Landsbankans erlendis í árslokin. Jeg get alveg fallist á þær röksemdir hv. flm., að það hlýtur að draga úr framkvæmdum og kjarki manna að eiga von á hækkun smám saman, þannig að þeir hljóti sífelt að búast við að þurfa að borga meira en þeir hafa tekið til láns, að skuldir þeirra hœkki í verði með hverju ári. Þá vilja þeir auðvitað heldur bíða.

Jeg skal ekki deila um það við hv. flm., hvort rjett sje að kalla þetta verðfestingu eða stýfingu. En ef við eigum að skoða frv. sem verðfestingarfrv., þá vil jeg leyfa mjer að spyrja: Í hverju er sú verðfesting fólgin? Jeg veit, hvert svarið verður: Í gullinnlausn seðlanna. Jeg vil minna hv. flm. á það, að til ársins 1914 var gullinnlausn á seðlum. En fyrir atvik, sem þá gerðust, var innlausnarskyldunni afljett. Hjá því varð ekki komist. Og hvað skeði? Krónan fjell og fjell. Það er engin trygging, þó að gullinnlausnarskyldu sje komið á nú, fyrir því, að ekki kunni að höndum að bera eitthvað það, sem gerir innlausnarskyldu bankanna nafnið tómt. Og þá fer sem fór. Jeg ætla ekki að spá neinum hrakspám, en það er ekki hægt að neita því, að þetta getur vel komið fyrir aftur. Einmitt í þessu sambandi þarf að athuga forsendur hv. flm. Hann heldur því fram sem algildum sannindum, að jafnan sje framið ranglæti, ef gjaldeyririnn er hækkaður. Setjum svo, að þingið fallist á, að þetta sje rjett, og að gjaldeyririnn yrði nú festur með lögum en fjelli síðan aftur. Eftir forsendum hv. flm. væri þá ranglátt að hækka hann úr því sem hann þá fjelli í. En jeg hygg samt, að enginn muni leyfa sjer að halda því fram í alvöru, að þeirri meginreglu beri að fylgja í gengismálinu, að gæta þess ávalt, að gengið hækki ekki, en sje látið leika á lausu niður á við. Það væri bein fjefletting á annari meginstjett þjóðfjelagsins, verkalýð og launamönnum. Það vær þá útilokað, að sú stjett, sem hefir hagnað af því að gjaldeyririnn væri hækkaður, gæti á þann hátt fengið bætt tjón gengislækkunarinnar.

Jeg veit ekki, hvort það er rjett, að víkja að þessu sinni að þeim örðugleikum, sem eru á því, að hækka krónuna upp í gullgildi. Jeg býst við, að fram fari frekari umræður um þetta mál og að rjett sje að bíða þangað til. Jeg vil þó drepa á eitt meginatriði.

Þeim, sem skulda íslenskar krónur frá lággengisárunum, eru bundnir þeir baggar, að skuldir þeirra hækka að verðgildi um h. u. b. 20%. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) benti á, að bankarnir, sem skulda tugi miljóna króna í útlöndum, fá, ef íslensk króna hækkar, lækkun á greiðslu vaxta og afborgana, sem nemur mörgum miljónum. Ekkert er sjálfsagðara, en að það fje verði notað til þess að hægja um fyrir hinum, sem skulda bönkunum íslenskar krónur. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hugsar sjer, að þetta verði gert á þann hátt, að beinlínis verði felt niður af skuldinni, en mjer finst eðlilegra, að gera þetta með vaxtalækkun. Útlánsvextir bankanna eru nú 7½%. Ef hægt væri að lækka þá upphæð niður í 6½% eða jafnvel 6%, þá væri mönnum að fullu bætt, að því er vextina snertir, það sem skuldin hefði aukist að verðmæti. Jeg. bendi bara á þetta, til þess að sýna, að til eru margar leiðir til þess að ljetta skuldunautunum þá erfiðleika, sem hækkun gjaldeyrisins bakar þeim.

Jeg get fallist á það með hv. flm., að það hefir í sjálfu sjer litla þýðingu að vera í myntsambandi við Norðurlandaþjóðirnar, að minsta kosti fjárhagslega sjeð. En jeg get ekki neitað því, að það er mikið til í því, sem andstæðingar stýfingarinnar segja, að einmitt af þeim þjóðum, sem næstar okkur eru og hafa búið við lággengi, en samt hækkað gjaldeyri sinn í gullgildi, verður litið svo á, að stýfingin sje yfirlýsing um fjárhagslegan vanmátt okkar Íslendinga. Það er að vísu rjett hjá hv. flm., að í mörgum tilfellum þarf þetta ekki að spilla lánstrausti okkar erlendis.

Lánstraustið fer eftir því yfirleitt, hvernig efnahagur okkar og afkoma er. Þegar kemur til samninga, verður alt slíkt rannsakað. En áður en farið væri að kryfja slíkt til mergjar, mundu margir líta á aðferð okkar í gengismálinu og telja hana bera vott um litla fjárhagslega getu.

Jeg mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með því, að frv. verði vísað til nefndar, til rækilegrar íhugunar þar. En jeg býst ekki við, að neitt það komi fram, sem breyti skoðun minni svo, að jeg samþykki frv. Jeg skal endurtaka meginástæður mínar gegn frv. Þær eru þessar: Í fyrsta lagi: Ef samþyktar eru forsendur hv. flm., er þar með slegið föstu, að gengishækkun sje ranglát, og að því sje ekki tiltækilegt að gera opinberar ráðstafanir til þess að hún geti orðið, þótt nýtt gengisfall, er fjeflettir alþýðu, beri aftur að höndum. Í öðru lagi: Jeg tel, að það ranglæti, sem gengishrunið orsakaði, verði bætt, að svo miklu leyti sem unt er að bœta það, ef krónan aftur er hækkuð í sama verð og hún hafði áður. Hitt væri að lögfesta ranglæti.