25.03.1929
Neðri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

65. mál, myntlög

Haraldur Guðmundsson:

Mjer nægja vitanlega ekki 10 mínútur til að ljúka máli mínu, en þó vil jeg nota þær til að byrja með. Í ræðu minni á laugardaginn benti jeg á það, að nafnið á frv. væri rangnefni. Jeg sýndi fram á það, að ekki er um neina verðfestingu að ræða umfram það, sem var

fyrir gengishrunið síðasta. Þá voru í gildi ákvæði um gullinnlausn seðla, en þau reyndust einskisnýt, þegar á herti. Nú er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir nokkru öðru til að festa gengið. (AA: Vill ekki hv. þm. benda á einhverjar ráðstafanir?). Jeg á ekki að smíða frv. fyrir hv. flm., og það er þeirra að sjá um, að það sje gert sæmilega úr garði, en ekki mitt. Engin þjóð hefir fest gjaldeyri sinn, án þess jafnframt að gera einhverjar ráðstafanir til tryggingar því, að gengið hjeldist óbreytt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að nema úr gildi þau lög, sem höfðu slíkar tryggingar að geyma, lögin um gengisskráningu og gjaldeyrisverslun, en setja ekkert í staðinn, annað en gullinnlausnarskyldu bankans, sem áður hefir reynst gagnslaus. Jeg er hissa á því, að þrátt fyrir það, að jeg benti á þetta í fyrri ræðu minni, hefir hvorki hv. fjmrh. nje hv. flm. vikið að þessu einu orði. Nauðsynlegt er, að í frv. sjeu, eða með því fylgi, einhver þau ákvæði, er tryggi betur en var, að krónan lækki ekki aftur, þó erfið ár beri að höndum.

Allar forsendur flm. hníga í þá átt, að hækkun sje ranglát. Þeir, sem samþykkja frv. hljóta að gera það af því, að þeir fallast á forsendurnar; telja að gengishækkun hljóti að valda rangindum og sje því ranglát. Setjum svo, að það óhapp bæri aftur að höndum, að krónan lækkaði niður í t. d. 40–50 aura, og verkalýður og launamenn af þeim sökum biði stórtjón, en útflytjendur, sem vinnuna kaupa, græddu að sama skapi. Þá væri, að dómi þeirra sem frv. samþykkja, ranglæti að láta krónuna aftur hækka, og bæta með því þeim, sem töpuðu á lækkuninni. Þá ætti aftur að „festa“ krónuna þar, sem hún kæmist lengst niður; láta verkalýðinn sitja með tapið, hina með gróðann! — Það er hreint og beint blygðunarleysi af manni, sem telur alla hækkun rangláta, að bera fram frv. um „festingu“, án þess með fylgi öruggar ráðstafanir gegn því, að festingin bili.

Jeg benti á það fyr, að hv. þm. hættir við að blanda saman tveim óskyldum hugtökum, verðlagsbreytingum alment, og gengisbreytingum krónunnar, miðað við gull. Verðlagsbreytingarnar eiga auðvitað að nokkru leyti rót sína að rekja til gengisbreytinga, en gengisbreyting hjer er ekki nema um 1/6 hluti verðlagsbreytingarinnar. Gengismálið er í sjálfu sjer ákaflega einfalt. Hvorra hagsmuni á meira að meta þeirra, sem kaupa vinnu, eða hinna, sem selja vinnu. Það er algert innanríkismál, en breytir engu um verslunarjöfnuð okkar út á við, eins og haldið hefir verið fram. Í því er jeg sammála hv. flm.

Það hefir verið um það deilt, hvernig hinum rennandi straum starffjárins verði rjettlátlega veitt út til stjettanna í landinu. Þetta breytist ekki, þótt hv. flm. hafi talað í líkingum og orðskviðum. Hver maður hlýtur að viðurkenna, að það er algerlega órjettlátt, að ein stjettin græði sífelt á gengisbreytingunni, en önnur tapi. Það er beint ranglæti, að flytja þannig fjeð úr vösum einnar stjettar þjóðarinnar í vasa annarar.

Nú eru þessar 10 mínútur liðnar, og vildi jeg því, með leyfi hv. forseta, geyma mjer orðið til morguns.