27.03.1929
Neðri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í C-deild Alþingistíðinda. (3063)

65. mál, myntlög

Magnús Jónsson:

Það mun nú fara að líða að því, að þessari umr. verði hætt, enda er hún þegar orðin nokkuð löng, enda þótt hún sje ekki svo löng sem ýmsir ætla, því að hún hefir dreifst á svo marga daga. Fer nú að líða að helgidögunum, og er því rjett að sitja á sínum grimmasta manni, enda þótt maður hefði getað haft tilhneigingu til að taka ýms atriði, er fram hafa komið, til rækilegrar meðferðar. Mun jeg reyna að stilla deilum í hóf eftir megni.

Jeg vil þá fyrst víkja lítið eitt að hv. þm. Ísaf. (HG). Jeg hefi að vísu ekki mikla ástæðu til að deila á hann, því að jeg tel það mestu máli skifta, að við höfum báðir komist að sömu niðurstöðu, enda þótt forsendur okkar sjeu nokkuð frábrugðnar, og þótt hann legði aðaláherslu á það, sem jeg tel minna virði.

Jeg verð þó að víkja að þeim ummælum hans, er hann sagði, að stóru flokkarnir, Íhalds- og Framsóknarflokkarnir, væru svipaðir í þessu máli, og að sama grundvallarstefna rjeði hjá báðum. Þessa ályktun dró hann af því, sem gerðist 1925 og á síðasta ári. En þessi tvö góðæri eru alls ekki sambærileg í þessu sambandi. Fyrra góðærið fjekk að njóta sín, svo að krónan hækkaði úr 50 aurum upp í rúma 80 aura af gullverði. En stefna núv. stjórnar olli því, að góðærið 1928 fór fram hjá okkur, án þess að krónan hækkaði nokkuð. Er þó ekki getum um það að leiða, að hefði eðlilegt viðskiftalögmál fengið að njóta sín á því ári, hefðu bankarnir felt verð á erlendum gjaldeyri til muna. Þetta er mikill munur, þegar þessi tvö ár eru borin saman.

Þá skildi jeg ekki í hv. þm. Ísaf., er hann fór að víta hv. 1. þm. Skagf. fyrir það, hve lágt krónan hefði komist í marsmánuði 1924, og kendi kosningunum um. Stjórn Íhaldsflokksins var þá ekki komin að völdum. En þau þrjú ár, sem Íhaldsstjórnin var við völd, hækkaði krónan úr 48 aurum upp í 81,7 aura, og var þó ekki nema um eitt góðæri að ræða á því tímabili. Þetta er geysihækkun, þegar á það er litið. Jeg býst við, að það, sem hv. þm. Ísaf. á aðallega við með ádeilum sínum á fyrv. stjórn í þessu máli, sje það, að stjórnin gerði ráðstafanir til þess 1925, að krónan hækkaði ekki meira þá að sinni. En jeg hygg, að til þess hafi legið miklar ástæður, enda þótt jeg sje nú einn af þeim, sem telja, að ef til vill hefði verið rjettast að láta krónuna sigla þá þegar upp í gullgildi. En öllum kemur saman um, að af öllum gengisbreytingum sjeu sveiflur fram og aftur hættulegastar, og 1925 gat verið hætta á, að gengið hjeldist ekki fast, ef hækkunin hefði orðið meiri. Hv. þm. Ísaf. hefir lýst því, hve vendilega þarf að búa um, til þess að núverandi gengi haldist, ef krónan verður fest nú, og getur hann þá sjeð, hve vel þurfti um að búa, ef gengið átti að haldast fast, eftir svo öra hækkun sem varð 1925. Er ástæða til að efast um, að krónan hefði ekki hrapað aftur þá, hefði hækkunin orðið meiri. Stefna stjórnarinnar, sem þá sat við völd, var hinn sanni og rjetti hækkunarvilji: að nota góðærið til að hækka krónuna sem mest, en jafnframt að sýna þá gætni og varfærni, að forðast öll gönuhlaup, svo að eigi væri hætta á að krónan hrykki til baka. Það var aðeins þetta, sem jeg vildi víkja að hv. þm. Ísaf.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Árn. (MT), sem hjelt alllanga ræðu um málið. Skrifaði jeg aðeins lítið eitt hjá mjer af því, er hann sagði. Hann kvaðst vera úr því hjeraði, sem gengishækkunin hefði komið harðar við en önnur hjeruð landsins. Jeg skal ekki deila við hann um þetta, því að hann er vafalaust kunnugri austanfjalls heldur en jeg. En eftir þessa yfirlýsingu hefði mátt búast við, að hann kæmi með einhverjar upplýsingar um ástandið austanfjalls, en í stað þess kom hann með almennar „teoretiskar“ umþenkingar um banka, húsaleigu o. þ. h., sem engan sjerstakan kunnugleika austanfjalls þarf til að tala um. (MT: Er þetta „teoretiskt“). Það er a. m. k. svo almenns eðlis, að menn þurfa ekki að vera kunnugir í Árnessýslu til þess að tala um það.

Þá sagði hv. þm., að við stæðum ver að vígi en aðrar þjóðir um að hækka gjaldeyri okkar. Erlendum þjóðum, sem lengra væru á veg komnar en við í fjármálum og verklegum efnum, gerði minna til, þótt hin starfandi hönd lamaðist um tíma af völdum hækkunar gjaldeyrisins. Þetta tel jeg hina mestu fjarstæðu. Jeg held einmitt, að engin þjóð nærlendis standi, eða hafi staðið, eins vel að vígi og við um gengishækkun. Eftir því sem iðnaður, bankamál og atvinnurekstur þjóðanna hafa náð meiri fullkomnun og því nákvæmari sem peningamálin eru, því tilfinnanlegri verða allar gengissveiflur. Svo er það t. d. í Bretlandi, að ef Englandsbanki hækkar forvexti sína um verður það ýmsum fyrirtækjum mjög tilfinnanlegt. Fyrirtækin reikna svo nákvæmlega með hinu venjulega ástandi, að hver breyting, sem fer í bága við það ástand, hefir stórkostleg áhrif á hag fyrirtækisins. Hjer eru atvinnumál og bankamál á meira frumstigi, og því gera sveiflurnar miklu minna til. Sjávarútveginum er nú einu sinni svo farið, að eitt árið gefur hann uppgrip og annað lítið eða ekki neitt. Líklega eru fáir atvinnuvegir, nema þá máske námuvinsla, sem jafn erfitt er að reikna út fyrirfram og jafn lítið eru háðir ákveðinni vaxtahæð starfsfjárins eins og sjávarútvegur.

Jeg skal ekki deila við hv. þm. (MT) um það, hvort verðjöfnuður er kominn á. Mjer virtust skýrslur þær, er hjer hafa verið lesnar, benda í aðra átt. Vísitalan 1924–1928 er ekki öruggur mælikvarði, samanborið við önnur lönd. Margar breytingar aðrar koma hjer til greina, eins og t. d., að hjer er innheimt miklu meira til ríkisþarfa í tollum og sköttum en annarsstaðar, í hlutfalli við 1914. Verðlagið hefir breyst undir fasta genginu nú upp á síðkastið.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið styrkur Norðurlandaþjóðanna, að þær hefðu átt sterkari banka en við. Já, það má nú segja! Af Norðurlandaþjóðunum, að Svíþjóð frátaldri, er óhætt að fullyrða, að Ísland hefir verið skárst að skömminni til í þessu efni.

Það er öllum kunnugt, hve gífurleg og tíð bankahrunin voru, bæði í Danmörku og Noregi. Og þótt þessi lönd ættu sterka seðlabanka, eins og þjóðbankann danska og norska, þá reyndu þó bankahrunin mjög á þolrif þeirra banka — alt til hins ýtrasta.

Þá talaði hv. þm. um það, hve mjög töp bankanna ykjust, ef krónan kæmist upp í gullverð! Jeg fylgdist ekki vel með því, sem hv. þm. sagði, en mjer skildist, að hann væri að tala um, að ef bankarnir ættu nú í útistandandi skuldum um 4 milj. kr., sem þeir álitu tapaðar, þá gæti þetta orðið 6–7 milj. kr. tap við hækkun krónunnar. Ef hv. þm. hefir sagt þetta, þá kemur þetta alls ekki málinu við. Ef skuldirnar eru tapaðar hvort sem er, er sama, hvort þær eru reiknaðar í gullverði eða öðruvísi. Það er eins og um manninn, sem setti tvöfalt verð á hestinn, sem hann seldi, af því að hann bjóst ekki við að fá hann nokkurn tíma borgaðan. Tapað er tapað, svo að þetta skiftir engu máli. (MT: Jeg var ekki að tala um tapaðar skuldir). Bein áhrif á hag banka hefir gengið ekki, nema ef hann skuldar í erlendum gjaldeyri eða á fram yfir skuldir í erlendum gjaldeyri. Ef bankarnir eiga í erlendum gjaldeyri meira en fyrir skuldum sínum í erlendum gjaldeyri, tapa þeir á gengishækkun innl. gjaldeyrisins, en græða hins vegar, ef skuldir þeirra í erlendum gjaldeyri eru meiri en eignir þeirra í sömu mynt. Þetta eitt snertir bankana í þessu tilfelli, og því er þeim óhætt að kaupa erlendan gjaldeyri alt upp að því marki, sem skuldir þeirra nema í erlendum gjaldeyri. Hitt er annað mál, ef menn trúa því, að verðfestingin orsaki það, að viðskiftamenn bankanna hafi eitthvað lengur en ella, en bein áhrif gengishækkunarinnar á bankana eru engin önnur en þau, sem nú lýsti jeg.

Síðast í sinni löngu ræðu veik hv. 2. þm. Árn. (MT) að því, hve Suðurlandsundirlendið væri lamað eftir gengishækkunina 1925. Jeg skal ekki fara að bera mig saman við þennan hv. þm., hvað kunnugleika snertir á þessum slóðum, en þó er jeg þar ekki með öllu ókunnugur, frekar en hann. Svo mikið veit jeg, að það var annað, sem orsakaði þessar miklu skuldir, en gengishækkunin, og að Suðurlandsundirlendið var skuldunum vafið, eins og fuglinn fjöðrunum, áður en gengishækkunin kom til. Það er vitanlegt, að meiri hlutinn af þessum miklu skuldum er frá fyrstu árum útibúsins á Selfossi, þegar verð afurðanna hrundi, en framleiðslukostnaðurinn hjelst óbreyttur eftir sem áður. Með útibúinu gafst mönnum kostur á að halda bústofni sínum óbreyttum, og jafnvel að auka hann, og það gerði erfiðleikana. Jeg býst við, að Suðurlandsundirlendið hafi fundið til, eins og önnur hjeruð landsins, við gengishækkunina 1925, en hinu mótmæli jeg, að gengishækkunin hafi orðið til þess, að það setti svo niður sem raun varð á.

Hv. 2. þm. Árn. (MT) þótti jeg ekki frumlegur í minni fyrri ræðu. Sannast að segja býst jeg ekki við, að við Íslendingar förum að finna einhver ný sannindi í þessu máli, sem búið er að þaulræða í öllum öðrum löndum. En þeir sletta skyrinu, sem eiga það. Samt var nú sá langi kafli í ræðu hv. 2. þm. Árn., sem fjallaði um bankahrunið í Danmörku 1818, allur tekinn upp úr bók Jóns Þorlákssonar: Lággengi. Jeg býst því við, að það sje svipað farið um frumleik okkar beggja. Þó skal jeg ekki neita því, að það var ýmislegt frumlegt í ræðu hv. 2. þm. Árn., en jeg er hræddur um, að það hafi þá líka verið vitleysa. Það má nefnilega segja það sama um hana og maðurinn sagði um bókina: Í henni er ýmislegt gott og ýmislegt nýtt, en það góða er ekki nýtt, og það nýja ekki gott. Það er auðvelt að segja frumlega vitleysu, en vandi að segja eitthvað frumlegt af viti. Og hvað okkur Íslendinga snertir, þá er varla von til þess, að við finnum nokkuð frumlegt í þessum fræðum.

Hv. 2. þm. Árn. var að fárast yfir því, hve vextir bankanna væru háir, og mjer skildist á ræðu hans, að þeir mundu lækka, ef verðfestingin yrði framkvæmd. Og svo fór hann að tala um það, að vextir sparifjáreigenda mundu hækka af sömu ástæðu. Jeg verð að játa það, að mjer finst þetta tvennt stangast ekki alllítið. Það er fjarri því, að það sje nokkurt samræmi í því, að innlánsvextirnir hækki samtímis því að útlánsvextirnir lækka. (MT: Jeg sagði ekkert í þessa átt). Jú, það var nú einmitt það, sem hv. 2. þm. Árn. gerði. Það leið að vísu hálftími eða eitthvað svoleiðis á milli þessara setninga í ræðu hv. þm., en jeg dró þetta saman, svo að hann áttar sig ef til vill ekki á því.

Þá kem jeg að hæstv. fjmrh. (EÁ), sem talaði hjer nokkur orð, og að því er virtist eins og ex cathedra. Hann gerði virðingarverða tilraun til að gera pólitík úr þessu máli og hugðist að spyrða íhalds- og jafnaðarmenn saman vegna afstöðu þeirra til þess. Maður skyldi nú hafa haldið, að það væri dálítið óþægilegt eftir ræðu hv. þm. Ísaf., því að þar kom það fram, hve rök íhalds- og jafnaðarmanna eru ólík, þótt háðir þessir flokkar standi saman að gengishækkuninni. Annars gegnir það furðu, að annað eins og þetta skuli heyrast, því að þótt tveir flokkar mætist í einhverju máli, er fjarri því, að þeir af þeim ástæðum þurfi að renna saman. Það kemur oft fyrir, að menn ólíkra áhugamála mætast í einu atriði og vinna saman að því. Það er t. d. sameiginlegt áhugamál kristindómsvina og mannæta, að sem flestir kristniboðar sjeu sendir til Afríku, en engum dettur fyrir það í hug að gera eitt úr þessum tveim flokkum manna.

Hæstv. fjmrh. þótti við hækkunarmenn tala af of mikilli tilfinningu um þetta mál. Hann hefði átt að hlusta á síðustu ræðu hv. flm. Þá hefði hann fundið; að það verður víðar vart mannlegra tilfinninga en í herbúðum okkar hækkunarmanna. Annars verð jeg nú að segja það, að tilfinningarnar eru mikill liður í fjármálunum sem öðru, því að jeg veit ekki betur en að þau byggist mikið á tilfinningu, sem nefnd er traust.

Þá kom hœstv. ráðh. með það sama og hv. flm., sem sje, að Alþingi hefði gert ráðstafanir til þess að gengið hjeldist kyrt. Þetta mun rjett að því leyti, að Alþingi ætlaðist til, að gengið væri kyrt á meðan verið vœri að rannsaka þetta mál, enda var sjálfsagt, að svo væri, á meðan verið var að búa málið undir endanlega úrlausn. En vilji Alþingis kom skýrt fram í l. frá 1924 um gjaldeyrisverslun og gengisskráningu, þar sem gengisnefndinni var heimilað að gera ýmsar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að krónan stæði kyr eða hækkaði, en ekki í hina áttina.

Þá var nýtt að heyra það, að bankarnir væru ekki enn búnir að ná sjer eftir gengishækkunina 1924–25. Maður hefir nú stundum heyrt annað, þegar þurft hefir að skamma sjávarútveginn vegna þeirra braskfyrirtækja, sem honum eiga að vera samfara. (HG: Gátu bankarnir ekki tapað, nema á þessu eina?) Ja, þegar hæstv. fjmrh. sagði þetta, hefir hann sjálfsagt ætlað að sýna fram á, af hverju bankarnir töpuðu.

Hæstv. fjmrh., sem var að ásaka aðra fyrir að tala of tilfinningaborið, sagði, að stefna okkar hækkunarmanna væri sprottin af takmörkuðum skilningi á framsókn lífsins. En ef þetta er ekki tilfinningaorðagjálfur, þá veit jeg ekki, hvað á að nefna því nafni. Við hækkunarmenn megum vel una þessum orðum hæstv. fjmrh. Hinn ótakmarkaði skilningur hans á framsókn lífsins er fólginn í því, að gefast upp við fyrstu örðugleika.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að hv. flm. Síðasta ræða hans var yfirleitt mjög óheppileg, og um of mælt bót í henni smásálarskap og smáum hugsunum. Það var svo að skilja á honum, að sjálfsagt væri að forðast að klifa á brattann, og þó einkum, ef það yrði til þess, að aðrir kæmu á eftir manni. Alt hans tal um það, að verðfestingin yrði til að koma í veg fyrir ranglæti, en skapa réttlæti, var ein hugsunarvilla, eins og hv. þm. Ísaf. sýndi svo greinilega fram á. Ranglætið hefir verið framið, eða rjettara sagt, þær ráðstafanir hafa verið gerðar, sem verða að ranglæti, ef ekki eru gerðar ráðstafanir í gagnstæða átt. Það er ekkert ranglæti fólgið í því, þó að jeg fái fje að láni, heldur í hinu, ef jeg neita að greiða skuld mína. En rjettlæti hv. flm. er einmitt fólgið í því, að leysa mig undan að greiða skuld mína. Það er það sama og að segja við lánveitandann og skuldunautinn: Þetta skal alt vera eins og það er. Er það rjettlæti? Þótt þetta snerti að vísu ekki hvern einstakling, þá er þó hjer um að gera allmikla breytingu á milli einstakra stjetta í þjóðfjelaginu, og það var í því efni, sem jeg sagði, að það væri „honesty“ að hækka krónuna og gera þannig rjett upp á milli þessara stjetta.

Háð hv. flm. um þá, sem vilja klifa brattann, var mjög ómaklegt. Það eru einmitt þeir menn, sem halda hverju þjóðfjelagi uppi, sem ekki vilja velta byrðum sínum, hvorki skuldabyrðum eða öðrum, af sjer, heldur klífa þrítugan hamarinn. Það má auðvitað hæðast að því, að þeir vilja fá að líta hina skínandi gullkrónu í allri sinni dýrð. En þegar þetta er klætt úr öllu rósamáli, þá er ekkert ljótara í þessu máli en það, að þessa menn langar í þann þjóðarheiður, að standa við allar sínar skuldbindingar. Og það þarf enginn að ímynda sjer, að Norðmenn, Svíar og Danir hafi ekki vitað, að það var auðveldara fyrir þá að stýfa sinn gjaldeyri en að hækka hann upp í gullgengi, en það fullnægði ekki rjettarmeðvitund þeirra að fara svo að.

Það má vel vera, að Framsóknarflokkurinn hafi aldrei ætlað krónunni upp í gull, og að því sje ekki um neina uppgjöf hjá honum að ræða í þessu efni. En jeg man nú svo langt, að ýmsir þeir menn, sem nú skipa þann flokk, voru hækkunarmenn. Að vísu var það áður en „Tíminn“ fann upp sína annáluðu stýfingarspeki. Jeg átti t. d. sæti með mönnum úr þeim flokki í fjhn., og þeir voru þá þeir eindregnustu hækkunarmenn, sem jeg hafði hitt á lífsleiðinni.

Hv. flm. þótti það næsta ósvífið, að efast um, að menn eins og Wallenberg rjeðu okkur heilt í þessu máli, og að nokkur skyldi voga sjer að mótmæla því, að þegar í stað væri farið eftir ráðleggingum þeirra. En jeg vil bara benda á það, í hvaða ófærur þetta gæti leitt. Það er vel hægt að hugsa sjer að við hækkunarmenn hefðum gert mann út af örkinni til þess að hitta þá menn að máli, sem vitað var, að mundu ráðleggja okkur að hækka krónuna. Jeg býst t. d. við, að Bygg ríkisbankastjóri hefði verið fús á að ráðleggja okkur í þá átt. Og hvernig átti þá að fara að, ef þessir erlendu menn ráðlegðu okkur hver á móti öðrum?

Jeg gerði það að gamni mínu að láta þetta mál bera á góma við ýmsa þá menn, sem jeg hitti í utanför minni í sumar. Og mjer þótti einkennilegt, hvernig þeir tóku allir í það. Það var eins og þeir væru orðnir leiðir á því heima hjá sjer, og vildu láta okkur gera það sem okkur sýndist sjálfum. Og mjer finst, að í svörum þeirra útlendinga, sem spurðir hafa verið ráða í þessu máli, skíni mikið af þessu sama.

En hvað sem nú þessu öllu líður, þá er það víst, að sjálfs er höndin hollust, og að best er, að við athugum þetta mál sjálfir, og gerum svo það í því, sem við álítum rjettast. Það er algengt, að mestu andans menn leggi þau ráð til, sem reynast mjög óheppileg. Margir ágætir andans menn hafa t. d. verið lausir fyrir í siðferðislegum efnum, kasta t. d. rýrð á hjónabandið. Og sjálfur kallaði hv. flm. fyrir skömmu Karl Marx falsspámann, og var hann þó vissulega mikill andans maður. Að það sje ósvífni, að vilja ekki fortakslaust hlýða ráðum þessara erlendu sjerfræðinga, er því nákvæmlega sama eðlis og þegar andatrúarmenn kalla hvern þann illgjarnan kjána, sem ekki vill trúa öllu því, sem Oliver Lodge segir.

Mjer fanst hv. flm. eiga verst með að koma því saman, hversvegna þessir erlendu sjerfræðingar rjeðu okkur þveröfugt við það, sem gert var í þessu máli í þeirra eigin móðurlöndum. Hann sagði, að það væri ekkert að marka. Þó að frost hefði verið í gær, gæti alveg eins verið hiti í dag. Þessi líking er auðvitað alveg snúin úr liði. Rjett líking hefði verið: Þó að vatn hafi frosið við þessa og þessa gráðu í Svíþjóð, fyrir fimm árum, er ekki þar með sagt, að það frjósi nú úti á Íslandi við sömu gráðu. En jeg vil segja að þetta fari eftir föstu lögmáli, sem gilti þar þá og gildir hjer nú. En svo kom hv. flm. með lausnina og sagði, að þetta stafaði af því, að menn hefðu ekki haft vit á þessum málum þá. Við vitum þó, að einn þeirra manna, sem nú ráðleggja okkur að festa krónuna, ráðlagði á sínum tíma Norðmönnum, Svíum og Dönum að gera þetta sama. Það er því ekki laust við, að skýringar hv. flm. á þessu fyrirbrigði skjóti hálfskökku við.

Hv. flm. var að lesa upp gullkrónusönginn í Noregi, en tók vitanlega vitlaust lag. Þetta sem hann las upp, voru skammir um Mowinkelstjórnina, sem þá fór með völdin í Noregi; skammir stjórnarandstæðinganna, sem voru hræddir við þennan mann og vildu koma í veg fyrir að hann tæki við völdum aftur. Þeim tókst að koma honum frá. En svo undarlega vildi þó samt til, að jafnaðarmennirnir, sem tóku síðar við stjórnartaumunum, urðu að láta af stjórn eftir eitthvað vikutíma, en þjóðin skilaði Mowinkelstjórninni aftur til valda. Nei, sá rjetti og sanni gullkrónusöngur var það, sem jeg las hjer upp úr „Finanstidende“ í fyrri ræðu minni, þar sem talað var um „Æresdag“ dönsku krónunnar. Jeg segi ekki, að allir kyrji með í þessum kór, eða fagni því, þó að íslenska krónan komist upp í sitt forna gengi, en það er víst, að allir verða ánægðir, þegar þeir erfiðleikar, sem af þessu leiðir í svip, eru liðnir hjá.

Þá kom hv. flm. með ýmsar gamlar „dogmur“ sem nú væru alveg dauðar, svo sem það, að erlendar skuldir lækki við krónuhækkunina. Þetta var nú ekki með öllu rangt. Það er sem sje reynsla, að land með lágum gjaldeyri fær minna fyrir afurðir sínar en land með háum gjaldeyri lengi vel, en reynslan hefir sýnt, að þetta jafnast á lengri tíma. Í lággengislöndunum eru vörur ódýrari en í hágengislöndunum, en það þýðir, að þær þjóðir, sem búa við lágt gengi, fá minna fyrir afurðir sínar en þær þjóðir, sem hafa hærra gengi. Og þar sem erlendar skuldir verða nú með engu borgaðar nema þessum vörum, þá er augljóst, að þær eru ekki ósnortnar af verðbreytingu gjaldeyrisins.

Þá sagði hv. flm. að gullkrónan væri hvergi til. Það er nú svo hlægilegt, að það er varla eyðandi orðum um það, að nokkur skuli halda annað eins og það, að gullkrónan sje ekki til, af því að hún liggur ekki hjer fyrir framan okkur á borðunum. Jú, hún er til, þó að hún hafi að vísu aldrei verið mótuð. Það er svo ákveðið, að 2480 kr. sjeu í einu kílógrammi af skíru gulli — og það er gamla krónan. Og eftir því er hægt að móta hana, hvenær sem vill. Annars hefi jeg nú aldrei heyrt það, að metrinn t. d. væri neitt verri fyrir það, þó að ekki sje til neinn alment „jústeraður“ kvarði. En metrinn mun þó, ef jeg man rjett, vera miðaður við einhvern vissan hluta af ummáli jarðar. Gömlu mennirnir mörkuðu alinina á kirkjuvegginn á Þingvelli. Nú eru menn löngu hættir að gera það, svo að hv. flm. neitar því sjálfsagt, að nú sje til nokkur alin.

Gamla krónan er ekki gullkálfurinn, eins og hv. flm. vildi vera láta. Það er hin nýja króna hans sjálfs, sem er gullkálfurinn. Jeg hefi altaf heyrt það, að lítið hús, sem reist hefir verið í nánd við annað stærra, væri kallað kálfurinn. Og þessi nýja króna er eins og kálfur hjá gömlu gullkrónunni, og því rjettnefnd: krónukálfurinn.

Þá sagði hv. flm. að það hefði enga þýðingu, þó að tomman væri stýfð um cm. Nei, en það hefði gert til, ef verðmæti væri reiknað í tommum. Ef jeg ætti vaðmál sem mælt hefði verið í heilum tommum, mundi jeg tapa, ef tomman væri stýfð um cm. Annars fæ jeg ekki sjeð, við hvaða örðugleika er að etja fyrir hv. flm., ef gullkrónan er ekki til og sama er við hvað er miðað.

Hjer hefir hver ræðumaðurinn eftir annan reynt að vekja tilfinningar manna, með því að tala um skuldunauta og lánardrottna. Þeir eru að tala um það, að það eigi að gera þá ríku ríkari, en þá fátæku fátækari. En það getur verið gersamlega rangt að kalla þá ríka, sem sparifje eiga, en hina fátæka, er skulda. En þetta er alveg rangt. Það getur alveg eins verið að sá, sem skuldar, sje ríkari en hinn, sem lánar. Sá, sem skuldar, vinnur einmitt með eignum fjölda manna, er eiga nokkrar krónur í sparisjóði. Og það eru oft stóru fjármálamennirnir. Hjer er bara um að ræða að gera upp á milli tveggja flokka manna jafnrjetthárra: þeirra sem spara og leggja þjóðinni þannig rekstrarfje, og hinna, er taka fje að láni, auðvitað til að græða á því. Og það er alls ekki fyrirfram sjáanlegt, að sá, sem sparar, eigi endilega að tapa, en hinn, sem skuldar, að græða.

Að lokum skal jeg svo minnast á örðugleika hækkunarinnar, sem hjer hafa verið mjög útmálaðir. Reynslan frá árunum 1924–25 talar á móti því. Jeg veit til þess, að margir hafa orðið eindregnir hækkunarmenn, einmitt vegna þeirrar reynslu. Eins gífurleg hækkun og þá varð, hugðu margir að ríða mundi atvinnuvegunum, einkum útgerðinni, að fullu. En reynslan varð ekki sú; þetta leið hjá án þess að menn yrðu mikið varir við það. Reynslan er ólýgnust. Hún sýnir, að þessi grýla er ekki rjett. Eins mun fara enn. Ef við hækkum — hægt, sje það mögulegt, hratt, ef svo vill verkast — þá mun reynslan sýna, að atvinnuvegirnir standa í fullum blóma eftir sem áður.