18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í C-deild Alþingistíðinda. (3075)

67. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Jón Ólafsson:

Það lítur út fyrir, að hv. þm. Rang. sjeu hjer byrjaðir að inna af höndum þá þegnskylduvinnu, sem þeim ber.

Hv. flm. gat þess, að frv. þetta væri borið fram fyrir tilmæli sýslunefndar Rangárvallasýslu. En jeg veit þó ekki betur en aðeins lítill meiri hluti sýslunefndar standi bak við málið. Jeg veit ekki betur en atkvæðagreiðslan hafi sýnt, að menn eru síður en svo samhuga um að leggja þessar kvaðir á sjálfa sig, sem frv. fer fram á. Það hefir margoft verið felt að sinna nokkuð þessu máli, og nú gat ekki einu sinni sýslunefnd orðið sammála um það, hvað þá sýslubúar. Það er því harla lítil ástæða til að bera málið fram hjer á Alþingi. Þetta er aðeins einn þáttur í þeim skrípaleik, er leikinn hefir verið með málið, frá því það kom fyrst fram.

Við því má búast, að nái frv. samþykki hjer, þá valdi það sundrung og ágreiningi innan sýslunnar, er það á að fara að koma til framkvæmda. Það þarf ekki annað en líta á 1. gr. til að sjá, hve grátt sýslubúar verða leiknir. Það má að vísu segja, að þetta verði til að ljetta byrðina á ríkissjóði. En það er einkennilegt, ef Rangæingar ætla að fara að bera þá umhyggju fyrir ríkissjóði, að þiggja ekki sinn hlut úr honum, sem fáanlegur er.

Skólinn er ætlaður sveitapiltum aðeins, en stúlkur eru útilokaðar. Annarsstaðar á landinu telja menn þó nauðsynlegt, að meyjar eigi jafn greiðan aðgang að skólum sem piltar. Í framkvæmdinni mundi frv. skapa gífurlegt misrjetti. Ef einhver gæti ekki gengið á skólann, gæti annaðhvort ekki lært, eða hefði ekki ástæður til að sækja skólann á næsta vetri, þá verður hann samt að vinna í 7 vikur að vorlagi, þótt hann njóti einskis í staðinn. Jeg veit ekki hve fórnfúsir Rangæingar kunna að verða. En hitt veit jeg, að sum heimili mega alls ekki vera án vinnukrafts þessara manna að vori til. Þetta verður því hreint og beint fjárhagslega ægilegt fyrir sýsluna. Nú sem stendur er lítið um vinnukraft í sveitum; hann er víða svo lítill, að bændur fá varla undirbúið jarðir sínar undir sumargróðurinn fyrir fólksleysi. Ef búin eiga svo að missa alla 18 ára unglinga sýslunnar frá vorvinnu, þá eru þau komin í öngþveiti. Fyrir utan það sem piltar eiga að afplána í krónum, þá er þetta svo mikill skattur á hjeraðsbúa, að jeg fæ ekki trúað því, að hv. flm. meini að leggja þetta á þá.

Frv. er alt innvafið hugsanavillum. Það er varla þess vert, að rífa það niður. í 5. gr. er gert ráð fyrir 4 kennurum, þar á meðal heimspekingi og matreiðslukennara. En þó er ekki gert ráð fyrir, að stúlkur hafi aðgang að skólanum! Síðar meir má reyndar leyfa að halda dálítið námskeið fyrir þær. Svona má lengi halda áfram. Frv. er yfirleitt fjarstætt því, sem alment er hugsað, og ekki bygt á heilbrigðum grundvelli.

Það hefir leikið orð á því í seinni tíð, að ekki hafi verið sjálfrátt, hvernig skólamálið var rekið þar eystra. Þegar rætt var um samskóla, þá voru Rangæingar á móti því. Þegar talað er um að þeir fái sjerskóla í nýtísku mynd, þá koma þeir fram með þetta frv. Jeg held, að ekki sje hægt að álykta annað af þessu en það, að Rangæingar vilji engan skóla. Því ef nokkuð getur orðið til að ónýta skólamál þeirra, þá er það þetta frv.

Jeg hefi að vísu ekki á móti því, að frv. þetta gangi til n. Jeg tel það sjálfsagði kurteisi við hv. flm. En helst vildi jeg fá það loforð hjá hv. n. um leið, að láta það aldrei skjóta upp kollinum hjer í deildinni aftur.