18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í C-deild Alþingistíðinda. (3080)

67. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Jón Ólafsson:

Hv. flm. hneykslaðist á því, að jeg, sem hafi sýnt að mjer sje vel við Rangæinga, skuli vera andvígur þessu frv. En jeg get lýst yfir því, að mjer sárnaði, að komið var með jafn þýðingarmikið mál og þetta inn á svo hættulega braut, þar eð jeg get ekki sjeð annað, en að þetta verði eingöngu til niðurdreps, eða seinki málinu mjög, þannig, að því, sem þeir hefðu getað gert, verði ekki komið í framkvæmd.

Þessi sýsla virðist sýna það ljóslega, að hvorki sýslumaðurinn nje ráðandi menn sýslunnar geri þær kröfur til sýslusjóðsins, sem margar aðrar gera, en því er nú svo farið, að þar sem ekki er góð forysta í slíkum málum, gætir mjög uppdráttar, enda víða sjáanleg merki þess. Þetta er það, sem mjer gremst, og þar sem hægt er að fara happasælli leið, álít jeg að hana ætti frekar að taka, t. d. mætti án efa fá helming þess fjár, sem til byggingarinnar þarf, frá ríkissjóði, og veit jeg ekki betur en fyrirheit sje um það frá hæstv. dómsmrh., en það tækifæri er ekki notað, og ekki haldið í áttina til þess. Með þessu eru sýslubúar að taka á sig æfilangt meiri kostnað en þeir veigruðu sjer upphaflega við, þegar rætt var um samskóla með Árnesingum, og enn meiri kostnað en sjerskóli með sama sniði og nú tíðkast mundi baka þeim. Þá er hitt, að þeir geta ekki risið undir byrðinni, verður þá ríkið að taka við öllu saman. Jeg býst ekki við, að hjer sje um illvilja að ræða frá hendi forystumannanna, en það verð jeg að segja, að mjög hefir verið flasað að þessu máli, en jeg vona að forsjónin taki í taumana og varni því, að þetta nái að komast í framkvæmd. Það myndi líka verða ákaflega bagalegt fyrir bændur, ef vinnukrafturinn væri tekinn frá þeim að vorinu, þegar þeir þurfa einna mest á honum að halda, svo að af þeim ástæðum gæti atvinnuvegur þeirra ekki borið þann arð, sem annars mætti af honum heimta. Fyrst og fremst lendir þetta harðast á þeim, sem eru að reyna til að bjarga sjer, en hafa máske ekki annan vinnuafla en þann, sem unglingar geta veitt, og yrði þetta því til þess að leggja alt í rúst. Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að hann álíti, að það væri þegnleg skylda sín við kjósendur sína að bera mál þetta fram hjer í þinginu, en jeg hygg, að það hafi nú ekki munað svo miklu innan sýslunefndar, hvort mál þetta næði þar framgöngu, að um þessa skyldu geti verið að ræða, því að mjer segir svo hugur um, að atkv. hv. þm. hafi ráðið þar úrslitum, og hann hafi verið málinu samþykkur af hlýðni við yfirboðara sinn, og jeg lái honum það ekki, en jeg efast um, að það sje holt fyrir yfirboðarann, að mál þetta hefir komist inn á þessa braut, þar sem fjöldinn af sýslubúum mun vera málinu, í þessari mynd, algerlega mótfallinn. Ennfremur mintist hv. þm. á það, að allir piltar á aldrinum 17–18 ára ættu að inna þessa vinnu af hendi, og þeir einir fengju hana endurgoldna, sem sæktu skóla þennan, en jeg hygg nú, að hv. þm. myndi þykja það hart, ef hann ætti sjálfur son, t. d. í Mentaskólanum, að þá yrði hann samt áður að inna vinnu þessa af hendi án alls endurgjalds.