16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

69. mál, verðtollur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Á síðasta þingi var samþ. hækkun á verðtollinum, sem nam 50%. 10% flokkur var hækkaður upp í 15% og 20% var hækkað upp í 30%. Var áætlað að tekjuauki ríkissjóðs af þessari hækkun mundi nema 200–250 þús. kr. í sambandi við þessa tollhækkun var lækkaður kaffi- og sykurtollurinn og nam sú lækkun milli 200 og 250 þús. kr. Þá var og stjórninni gefin heimild til þess að innheimta tekju- og eignarskatt með 25% viðauka. — Nú varð útkoma síðasta árs svo góð, að talið er að tekjuafgangur hafi numið 1½ milj. kr. Síðan hefir það verið tilkynt af hæstv. fors.- og atvmrh., að tekju- og eignarskattsaukinn verði ekki innheimtur á þessu ári, heimildin ekki notuð. — Jeg tel að hæstv. ráðh. hafi með þessu brotið í bága við yfirlýstan þingvilja, því vitanlega var tilgangurinn sá með samþykt heimildarinnar, að hún yrði notuð. Hjer í þessu frv. er nú farið fram á það, að afnuminn verði verðtollur af hinni ódýrari vefnaðarvöru, sem verkafólk notar til slitfatnaðar og hversdagsfatnaðar, og þess vegna að mestu er greiddur af hinum fátækasta hluta þjóðarinnar. En sá innflutningur nam:

1924 2,438 þús. kr.

1925 3,425 — —

1926 2,400 — —

Meðal innflutningur þessi 3 ár er því á milli 2,700 og 2,800 þús. kr. á ári. — Nú má gera ráð fyrir því, að innflutningur hafi aukist eitthvað síðan á árunum 1924–1926. En verðlagið hefir líka farið lækkandi, því mun ekki fjarri lagi, að þetta meðaltal muni láta nærri rjettu lagi nú. Til samanburðar má geta þess, að allur innflutningur á vefnaðarvörum og tilbúnum fatnaði mun hafa numið um 8 milj. kr. þessi ár að meðaltali. Ef frv. þetta verður gert að lögum mun það skerða vörutollinn um 400–420 þús. kr., eða þá í mesta lagi um 450 þús. kr. — En nú mundi vera rjett að bæla við þetta ullardúkum til utanyfirfatnaður, í karlmannaföt og kvenkjóla. Hefir innflutningur þeirra dúka numið um 600 þús. kr. á ári. Tolllækkun á því mundi því nema um 90 þús. kr. á ári. Nemur þá öll lækkunin nokkuð yfir 500 þús. kr. á ári. Nú vildi jeg biðja þá hv n., sem mál þetta fær til athugunar, að taka einnig þetta til athugunar. Ef það er gert og frv. gert að lögum, þá verður allur ódýrari fatnaður og fataefni undanþegin verðtolli. Nú eru slitskór og hversdags skófatnaður undanþegnir þessum tolli. Er sjálfsagt að gera þessari tegund fatnaðar sömu skil.

Nú geri jeg helst ráð fyrir því, að þær mótbárur verði færðar gegn þessu frv., að ríkissjóður þoli ekki þennan tekjumissi. í fjárlagafrv., eins og fjvn. leggur til að það verði samþ., er nú 150 þús. kr. tekjuafgangur. Jeg býst nú að vísu við því, að þetta skerðist eitthvað í meðferð þingsins á frv. En hins er þá líka að gæta, að tekjuliðir frv. eru mjög varlega áætlaðir. Þá er og einn tekjuliður, sem heimilt er og sjálfsagt að nota sjer á næsta ári, ekki tekinn með á fjárl.frv., en það er 25% skattaukinn á tekju- og eignaskatti, sem flutt hefir verið í hv. Ed. Ef frv. um tóbakseinkasölu verður samþ., þá má gera ráð fyrir 200 þús. kr. tekjuauka af því að meðaltali á næstu árum. Mjer telst því svo til, að tekjuaukar ríkissjóðs mættu verða sem hjer segir umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir árið 1930:

Af tóbakseinkasölu 200 þús. kr.

25% viðauki tekju- og

eignarsk 250 — —

Við þetta bæti jeg væntananlegum

tekjuafgangi.... 100 — —

Samtals 550 þús. kr.

sem er þá nokkru hærra en meðaltals lækkun verðtollsins nemur samkv. frv. mínu. Jeg hefi fremur valið þessa leið en þá, að lækka verðtollinn t. d. úr 15% niður í 10%. Jeg lít svo á, að sumt af því, sem er í þeim flokki, sje ekki ógerlegt að tolla meðan núverandi skattafyrirkomulag helst. En það er engin sanngirni í því að tolla slitföt með alt að 20,% háum tolli. Hækkar það verð fatnaðarins um hjer um bil 1/5

Jeg held, að jeg hafi svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að sinni. Vil jeg mælast til þess, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.