15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í C-deild Alþingistíðinda. (3126)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það var verið að enda við að tala um vatnsgraut, og vona jeg því, að hv. þdm. hafi ekki á móti því, að fá ofurlítið af mjólk, og það enda þótt hún sje niðursoðin.

Ekki þarf að tala langt mál fyrir þessu frv., því það mælir í raun og veru fyrir sjer sjálft. En af því að þessi tollur mun verða að teljast til verndartolla, og þeir hafa ekki hingað til átt upp á pallborðið hjer á Alþingi, þá tel jeg rjett að fara nokkrum orðum um það.

Þótt þetta sje verndartollur, þá er hann þó með nokkuð öðrum hætti en venja er til um slíka tolla. Jeg skal strax taka það fram, að þótt mjer sje ljóst tilgangsleysið í því, að halda uppi með verndartollum fyrirtækjum, sem ekki geta staðist ella, þá er jeg samt sannfærður um, að það er rjett að hjálpa nýjum, þörfum fyrirtækjum á stað, með því að styrkja þau með tollvernd í byrjuninni, til þess að þau fái staðist samkepni gamalla og rótgróinna keppenda. Og jeg held meira að segja, að það geti verið rjettlætt, þegar verðsveiflur eru miklar, — eins og t. d. var á stríðsárunum, — þannig að framleiðslukostnaðurinn verður oft hærri en söluverðið, að beita verndartollum í bili. Því að þótt þeir komi að nokkru leyti niður á neytendunum, þá ljetta þeir þó af atvinnuleysi og auka framleiðsluna innanlands. — Jeg tel því fyllilega tímabært að athuga, hvort ekki sje rjettmætt að styðja einstakar iðngreinar í byrjun með verndartollum. Það er framleiðslan, sem stendur undir öllu lífi í landinu, hjer sem annarstaðar. Á henni hvílir öll önnur starfsemi og öll skattabyrðin. Það er því skylda löggjafans að grunnmúra hana svo sem unt er.

Nú er það tilgangur frv. þessa að afla öðrum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, landbúnaðinum, nýs markaðar í landinu sjálfu, markaðar, er honum hefir verið bægt frá að nokkuru leyti fyrir áleitni erlendra fyrirtækja, er versla með sömu vöru. Skal jeg víkja nokkuð að einstökum gr. þess. Í 1. gr. er gert ráð fyrir að lagður verði tollur, kr. 4,50 á hvern kassa niðursoðinnar mjólkur, er til landsins flytst. En í 4. gr. er vörutollur sá, sem nú er á mjólkinni, niður feldur, og nemur hinn nýi tollur því í raun og veru ekki nema kr. 2,82 á kassa. í 3. gr. segir: „Á meðan lög þessi eru í gildi, er atvinnumálaráðherra heimilt að setja með reglugerð hámarksverð á innlenda dósamjólk.“ Er ætlast til, að það hámarksverð verði svipað núverandi verðlagi, þannig að tollurinn verði ekki til að hækka mjólkina í verði.

Jeg skal játa, að mjólkurverksmiðjan framleiðir ekki nú þá mjólk, sem landið þarfnast, og mundi því verða að flytja inn eitthvað fyrst í stað. En til eru fullkomin tæki til að auka framleiðsluna að miklum mun og nægir möguleikar á því, að framleiða svo mikið, að fullnægi öllum þörfum landsmanna. Og framleiðsluna verður hægt að auka með svo litlum fyrirvara, að hún verði orðin næg, áður en lögin ganga raunverulega í gildi.

Að því leyti er frv. þetta einstætt af verndartollafrv., að neytendum er einnig trygt það, að varan hækki ekki. Býst jeg því við, að þeir, sem venjulega eru andvígir verndartollalögum geti fallist á það.

Jeg skal að síðustu aðeins geta þess, að verð innfluttrar dósamjólkur varð árin 1925–1927 um 359 þús. kr. á ári til jafnaðar. Þótt þetta sje ekki stór upphæð, miðað við ríkisbúskapinn, þá dregur hún nokkuð, og mjer finst það ekki verjandi af Alþingi, að styðja ekki innlenda menn til að njóta hins innlenda markaðar.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður hafi á móti þessu frv. og skal því láta þetta nægja. Óska jeg, að því verði vísað til hv. fjhn., að lokinni umr.