15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal ekki fara út í almennar umræður um verndartolla við þá tvo hv. þm., er andmælt hafa þessu frv. mínu. Jeg hefi áður lýst afstöðu minni til þeirra og hefi fáu við það að bæta.

Jeg hefi ekki, þrátt fyrir ummæli þeirra, getað sannfærst um það, að ekki geti komið til mála að styðja á þennan hátt, til bráðabirgða, einstakar atvinnugreinar, meðan þær eru að ná því að standa jafnfætis við aðrar í samkepninni. Og mjer þykir það nokkuð mikil „princip“-festa og fastheldni við hina frjálsu samkepni, að vilja ekki stuðla að því, að gera landið byggilegt og íbúana velmegandi, þó fara verði þessa leið. Því þó hv. þm. Vestm. benti á aðrar þjóðir, svo sem Breta, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar, þá vil jeg leyfa mjer að segja, að þeirra stefna þarf ekki að vera sú eina rjetta. Má í því sambandi nefna Bandaríkin. Mun ekkert land hafa verið og vera í eins miklum uppgangi, og munu þó verndartollar óvíða hafi verið jafn mikið notaðir. Jeg vil nú ekki segja, að við eigum að fara að dæmi Bandaríkjanna, heldur get jeg þessa aðeins til þess að sýna, að velmegun getur vel þróast þar, sem verndartollar eru notaðir, og að það er ekkert þroskaleysi, þó menn láti sjer detta slíkt í hug.

Þá fanst hv. þm. Vestm. það furðulegt, að við flm. þessa frv. skyldum vilja láta skattleggja alla þá landsbúa, er þurfa að nota niðursoðna mjólk, vegna verksmiðjunnar Mjallar. En jeg skal taka það fram, að þetta frv. er ekki sjerstaklega fram komið hennar vegna, heldur vegna landbúnaðarins í því hjeraði, sem hún starfar fyrst og fremst, og er ein lítil grein á eflingu landbúnaðar alment. Það á að vera til þess að gera honum mögulegt að fullnægja landsmönnum á sem flestum sviðum, þar sem hann hefir alla aðstöðu til að geta það, nema markaðinn. En að þessi innlenda vara selst ekki eins vel og skyldi, stafar alls ekki af því, að hún sje ekki góð — jeg hefi hjer efnagreiningu hennar, sem sýnir, að hún er alveg sambærileg við erl. tegundir — heldur af því, að þær tegundir, sem nú eru á markaðinum, hafa náð svo föstum tökum, að mjög erfitt er að útrýma þeim. Ekki er heldur þörf á að óttast það, að mjólkin hækki í verði, því að strax og farið er að kaupa hana meira, og verksmiðjan getur framleitt meira, verður framleiðslukostnaðurinn tiltölulega minni og getur því mjólkin lækkað.

Hv. þm. Vestm. var að tala um það, að þingið mundi halda áfram að styðja þetta fyrirtæki, þó það vildi ef til vill ekki fara inn á þessa verndartollabraut. Mjer þykir gleðilegt að heyra þetta, en jeg vil leyfa mjer að benda hv. þm. á það, að ef frv. þetta verður samþykt, þá er mjög líklegt, að fyrirtækið geti, innan skamms afsalað sjer þeim styrk, er það nú hefir. En jeg vil benda hv. þm. á það, að einhvern styrk verður það að fá, því að skuldir þess eru nú þegar orðnar svo miklar, að vextirnir af þeim nema kr. 2,50 á hvern kassa mjólkur. Væri hægt að auka söluna, mundi þessi kostnaður vitanlega minka að sama skapi og framleiðslan ykist. Því er það aðalatriðið að styrkja þessa framleiðslu meðan hún er að komast á laggirnar. Það er því engan veginn víst, að þessi tollur þyrfti að standa yfir í mörg ár, heldur aðeins til að byrja með.

Hv. þm. Vestm. fanst það óviðeigandi af mjer að tala um áleitni erlendra keppinauta. Mjer finst nú samt, að enginn þurfi að hneykslast á því, vegna þess að í þessari marglofuðu samkepni ber oft einna mest á því, er nefna mætti slíku nafni.

Viðvíkjandi því, að ekki þurfi að flytja neina mjólk inn, ef sú innlenda yrði keypt nokkuð að ráði, þá get jeg auðvitað ekki lagt fram neitt ábyrgðarskjal fyrir því, en mjer þykir mjög líklegt að svo verði.

Jeg hefi þegar svarað hv. 2. þm. Reykv. að nokkru leyti. Gerði jeg það, er jeg vitnaði í efnasamsetninguna, samanborið við erlenda mjólk. Hann sagði, að íslenska mjólkin væri ekki samkepnisfær um gæði, en jeg hefi sýnti fram á, að hún er það. Hitt er rjett, að fyrir nokkrum árum komu fram skemdir á mjólkinni, en þá strax var hafist handa, og nú er algerlega búið að koma í veg fyrir slíkt. Þessi annars flokks mjólk stóðst ekki samkepnina, eins og hv. þm. talaði um, og hún var heldur ekki seld lengur. Hv. þm. talaði um að hæstv. atvmrh. væri engan veginn skyldur til að nota heimildina um hámarksverðið, og myndi því ekki framfylgja henni, en hv. þm. gæti spurt hann að því, áður en hann fullyrðir slíkt. Annars get jeg sagt það fyrir hönd okkar, sem að till. þessari stöndum, að við hefðum ekkert á móti því, að í stað heimildar kæmi skylda. Annars verð jeg að segja það, að jeg gæti skilið, að þeir, sem sífelt slá um sig og flagga með orðunum „frjáls samkepni“, gætu fundið ýmislegt til foráttu hinni svokölluðu verndartollastefnu. (SE: Er hv. ræðumaður ekki fylgjandi frjálsri verslun?) — Jeg ætla ekki að lýsa afstöðu minni til hennar, en hitt vildi jeg segja, að mjer virðast þessi orð hv. 2. þm. Reykv. koma úr hörðustu átt, þar sem hann með tilstyrk annara verkamannaforingja hefir komið því til leiðar, að bannað er að flytja inn í landið erlent verkafólk, þótt það kunni að bjóðast fyrir mun lægra kaup, og með því hefir hann verndað vinnulaun verkalýðsins. Hann ákveður kaup sitt eða verð sinnar vinnu, og íslenskir bændur verða að beygja sig undir það, en verða líka að standast samkepnina á heimsmarkaðinum við vörur, sem unnar eru fyrir lægra kaup. En þeir mega enga vernd fá fyrir sína framleiðslu, sem undir flestum kringumstæðum er ekkert annað en þeirra einu vinnulaun. Hvað er mjólkin t. d. annað en þeirra eigin vinna, eða afurðir vinnu þeirra. Ef verkamenn eiga rjett á því að njóta verndar, eiga þá ekki bændur, sem eru fjölmennasti verkalýðsflokkur þessa lands, einnig rjett á því, að fá vernd fyrir sig og sínar afurðir?