15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

70. mál, innflutningstollur af niðursoðinni mjólk

Jóhann Jósefsson:

Það eru aðeins örfáar aths., sem jeg þarf að gera við ræðu hv. flm. Hann sagði, að tilgangur frv. væri ekki sá, að skattleggja landsmenn. (BÁ: Ekki í bili.) En skattur er allaf skattur, og því hefir það enga þýðingu, hvað hv. flm. segir um það, nema ef hann væri svo voldugur, að hann gæti komið í veg fyrir slíkt; það liggur í frv. sjálfu og því stendur slíkt ekki í hans valdi, eftir að frv. er samþykt, en hitt er staðreynd, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, er sannkallað skattafrv. og ekkert annað. Hv. flm. talaði um Bandaríkin í sambandi við verndartolla, og kvað ekkert ríki gera eins mikið að því, að leggja á slíka tolla, sem þau. Jeg verð að benda honum á það, að hjer er um óskylda hluti að ræða, og því ósambærilegt. Það ríki þarf fátt til annara að sækja, og framleiðir sjálft allar nauðþurftir sínar. Það getur líka boðið heiminum birginn í tollamálum, en okkar aðstaða er nú eitthvað önnur. Ef þetta fyrirtæki væri svo öflugt, að það gæti framleitt nægilega mikið til þarfa landsmanna, og varan væri svo góð, að hún stæðist samkepnina við hina útlendu vöru, og ennfremur ef verslunarfróðir menn veittu henni forstöðu, þá þarf engrar lögþvingaðrar samvinnu við, svo að jeg taki mjer í munn uppáhaldsorð þeirra Tímamanna, því að hvað fer hv. flm. fram á annað en það, að komið verði á lögþvingaðri Mjallar-mjólkurneytslu? Ef þessi skilyrði lægju fyrir hendi, í fyrsta lagi, að birgðir væru nægar til að fullnægja eftirspurninni, í öðru lagi, að varan hefði hin sömu gæði til brunns að bera og samskonar útlendur iðnaður, og í þriðja lagi, að verðið væri ekki hærra en á útlendu vörunni, þá þyrfti engrar lögþvingunar eða verndartolla við. Hv. flm. finnur til þess, að hann byggir á ótraustum grunni, er hann miðar frv. sitt við þessa einu verksmiðju, og vill því reyna að draga landbúnaðinn í heild inn í málið. En jeg hlýt nú að segja það, að landbúnaðurinn alment hefir ekki svo mikið gagn af þessu fyrirtæki, að þessi verndartollur geti verið settur í þágu hans. Mjer virðist sem það sje til of mikils mælst, þegar fyrirtæki, sem þó er í rauninni aðeins vísir í sinni röð, fer fram á verndartoll, til að bægja betri vöru, útlendri, á braut. Menn hljóta að viðurkenna það, að sá iðnaður, sem einhverjar misfellur eru á, og sem ekki hefir náð neinni verulegri fótfestu, fer oftast þá leiðina, að heimta verndartolla sjer til viðhalds, en aðrar iðnaðargreinir, sem standast samkepnina, gera það ekki. Sem dæmi þess mætti nefna hjerlendar smjörlíkisgerðir, sem hafa frá því fyrsta reynt að bæta og fullkomna vöru sína svo, að hún gæti staðist samkepnina við erlenda smjörlíkið, og nú er svo komið, að innflutningur erlends smjörlíkis er sama og enginn. Með verði og vörugæðum hefir þeim tekist að áorka þessu, en það eru einmitt þeir kostir, sem eiga að vinna markaðinn í hverri grein sem er. En ef menn hverfa að því, að setja á vörutolla, álit jeg að málið sje ótímabært, fyr en varan er orðin það mikil og góð, að hún fullnægi eftirspurninni. Jeg mun nú ekki orðlengja þetta frekar, en vildi að lokum aðeins benda á það, að með slíku háttalagi sem þessu væri verið að skattleggja þá menn um óákveðinn tíma, sem mesta þörf hafa fyrir mjólk, en eiga verst með að afla sjer hennar.