07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í C-deild Alþingistíðinda. (3146)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ólafur Thors:

Það er að vísu svo, að mál þetta virðist ekki vera í tölu stórmálanna, en þó eru á því agnúar, sem geta haft í för með sjer talsvert alvarlegar afleiðingar. Með lögum frá 18. maí 1920, um bann gegn botnvörpuveiðum, eru ákveðnar tvennskonar hegningar fyrir landhelgisbrot, í fyrsta lagi sektir og í öðru lagi, að afli og veiðarfæri sjeu gerð upptæk.

Jeg skal ekki neita því, að í framkvæmdinni hefir að sumu leyti verið farið í kringum síðara ákvæði þessara laga, þ. e. að veiðarfæri hafa verið seld sökudólgnum, eða umboðsmanni hans, og oft við litlu verði. Hygg jeg, að þetta stafi meðfram af því, að veiðarfærin eru oft lítils eða jafnvel einskis virði fyrir aðra en sökudólgana sjálfa. Á það sjerstaklega við um veiðarfæri erlendra togara, þau eru einskis virði á íslenskum togurum vegna þess, að íslenskir togarar nota alt önnur veiðarfæri, þau eru bæði betri og sterkari.

Af þessu leiðir, að hjer er sama og enginn markaður fyrir veiðarfæri hinna erlendu skipa, og verður því að álíta, að þau sjeu mjög lítils virði fyrir ríkissjóð, svo framarlega sem þau eru ekki keypt af sökudólgunum sjálfum.

Þetta er hinsvegar ekki stór tekjuliður fyrir ríkissjóð, en því er ekki að neita, að sökudólgarnir fá veiðarfærin við mjög litlu verði, og er því eðlilegt, að reynt sje að fyrirbyggja það, að þeir hafi framvegis hag af þessum viðskiftum. Álít jeg, að því ákvæði sje fullnægt með fyrirmælum í upphafi 1. gr., þar sem segir, að bannað sje að selja veiðarfæri nema samþykkis dómsmálaráðuneytisins hafi verið leitað. Geng jeg út frá því, að dómsmálaráðuneytið hafi sjer við hönd dómbæra menn, er meti hvers virði veiðarfærin eru. Á þennan hátt er alveg girt fyrir það, að sökudólgarnir geti keypt veiðarfærin fyrir lítið verð, og er þá tilgangnum náð. En fyrirmæli þau, er felast í áframhaldi greinarinnar, eru nokkuð á annan veg, því að þar fer hv. flm. inn á viðkvæmt utanríkismál, og á jeg þar við þetta ákvæði — með leyfi hæstv. forseta: „Öllum er bannað að afhenda eða selja sekum, erlendum veiðiskipum eða umboðsmönnum þeirra veiðarfæri í sömu veiðiför og þau hafa gerst brotleg við lög þessi.“ — Með öðrum orðum, hjer er lagt beint viðskiftabann á þessi skip. Nú er það vitanlegt, að erlendar þjóðir kvarta mikið undan því, hvað fyrirmæli landhelgislaganna um sektir sjeu hörð, og benda á, að þau sjeu harðari en með öðrum erlendum þjóðum. Við höfum haldið fast á því, að þessi hegningarákvæði sjeu nauðsynleg, og aðrar þjóðir hafa orðið að gera sjer það að góðu. Hjer er verið að herða á sektarákvæðunum, og hygg jeg að það sje talsvert varhugavert, en einkum gæti viðskiftabannið orðið hættulegt. Veit jeg ekki hversu miklu það gæti valdið, en hitt er öllum ljóst, að við mundum ekki geta undir því risið, ef Englendingar tækju þetta illa upp fyrir okkur og legðu viðskiftabann á okkar skip. Auk þess hygg jeg, að þessi fyrirmæli brjóti alþjóðavenjur, og gæti það því haft alvarlegar afleiðingar í för með sjer fyrir okkur.

Ef spurt er um það, hvort þessi fyrirmæli nái tilgangi sínum og girði fyrir það, að sökudólgarnir geti þegar að afloknum dómi farið út til veiða, er jeg hræddur um, að hjer sje aðeins um vindhögg að ræða. Erlend skip gætu þegar að afloknum dómi leitað til skipa sömu þjóðar sem hjer eru að veiðum, og aflað sjer þannig veiðarfæra þegar í stað. Flest skip hafa veiðarfæri umfram notaþörf, og eru þá aflögufær, að minsta kosti er það svo um íslensku skipin. Þessi auknu sektarákvæði eru því ekki sett til höfuðs erlendum skipum heldur hinum íslensku — þótt það sje að sjálfsögðu ekki tilætlun hv. flm., þar sem þau á að kyrsetja í 10 daga.

Jeg hefi sýnt fram á, að hvað hin erlendu skip snertir, er hjer aðeins um vindhögg að ræða, og skapast því misrjetti, þar sem refsiákvæðin koma þyngra niður á Íslendingum sjálfum. — Ef við hinsvegar göngum út frá því, að þessi fyrirmæli nái tilgangi sínum, hvað erlendu skipin snertir, verður hegning þeirra þyngri, þar sem það hlýtur að taka meira en 10 daga að sigla til erlendra hafna, afla sjer þar veiðarfæra og komast aftur á fiskimið hjer við land. Yrði þá að herða á hegningu ísl. skipanna og setja kyrsetningartímann enn þá lengri, en það yrði þungbær atvinnumissir fyrir þá menn, sem á skipunum vinna, og ekkert hafa til sakar unnið.

Frá hvaða sjónarmiði sem er, virðist þetta frv. því óvenjulega vanhugsað, svo vanhugsað, að jeg get ómögulega trúað hv. flm. til þess að hafa samið það sjálfur, og segi jeg þetta þó ekki til þess að hlífa honum á neinn hátt. — Jeg þekki aðeins einn mann, sem gæti samið svo vanhugsað frv., en það er hæstv. dómsmrh., enda ber þetta frv. öll einkenni hans.